Mér finnst alltaf dálítið skrítið og óþægilegt að skrifa lýsingar við uppskriftirnar sem ég set hér inn á síðuna. Að skrifa um mat, sem ég hef sjálf útbúið, eitthvað í líkingu við „dásamlega gott og besti réttur í heimi“ hljómar eins og mann skorti alla hógværð og sé í meira lagi sjálfumglaður! 🙂 Ég er nefnilega meira týpan í ætt við ömmur þessa lands, þar sem þær standa við matarborðið og segja: „Æ, þetta er nú nauðaómerkilegt, vonandi getið þið borðað eitthvað af þessu“. Hins vegar finn ég það sjálf þegar ég skoða matarblogg að ég vil fá álit á uppskriftunum. Þegar ég sé uppskrift á bloggi sem ekkert er skrifað um, bara „hér kemur uppskrift að… “ þá dæmi ég ósjálfrátt uppskriftina ekkert sérstaka. Að þessu sögðu þá kynni ég til leiks langbesta rabarbarapæ sem ég hef smakkað hingað til! 😉 Ég ákvað sem sagt að gera rabarbaraböku en þar sem hún verður stundum heldur til súr lagði ég höfuðið í bleyti, hvað gæti vegið upp á móti því? Jarðarber voru augljóst svar, svo sæt og góð. Mér finnst hvítt súkkulaði passa einstaklega vel við heita berja- og ávaxtarétti og ákvað að prófa það með. Mylsnan ofan á er klassísk en svo ótrúlega góð. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á þessa böku um síðustu helgi og hún var kláruð upp til agna í einni svipan með þeim orðum að þetta væri besta rabarbarabakan sem þau hefðu smakkað … það er sem sagt ekki bara ég sem er að slá um mig! 🙂
Uppskrift:
- 5-600 g rabarbari, skorinn í bita
- 250 g jarðarber, helst fersk, skorin í sneiðar
- 2/3 dl sykur
- 2 msk maísmjöl
- 100 g Siríus hvítir súkkulaðidropar (þ.e 2/3 úr pokanum)
- 2 dl Kornax hveiti
- 1 dl púðursykur
- 1 dl sykur
- 2 dl haframjöl
- 110 g smjör (kalt)
Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Rabarbara, jarðarberjum, maísmjöli og 3/4 dl sykri er blandað saman og sett í eldfast mót. Hvítu súkkulaðidropunum er því næst dreift yfir.
Hveiti, púðursykur, sykur, haframjöl og smjör er mulið saman í höndunum þar til að blandan minnir á haframjöl. Þá er blöndunni dreift yfir berin og rabarbarann. Bakað við 180 gráður í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan farin að „bubbla“ upp um hliðar formsins. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.
Fyrirgefðu, en hvað er kornax hveiti? Er hér í Portage MI. Hlakka til að hitta þig.
Það er bara tegundin af hveitinu sem ég nota. Þú getur notað venjulegt hveiti! 🙂
Inga, Dröfn veit ekkert hvað Portage, MI er. Hún er á leið til Tíramísú í Amishfylki:)
Hahaha …. Ragnhildur – ég fattaði alveg að Inga býr í sama fylki og „Tiramisu“ (hef líka séð hana á Facebook hjá þér)! 🙂
Ætli megi sleppa hvíta sykrinum án þess að kakan versni?
Ég hef ekki reynsluna af því Guðný þannig að eina leiðin er bara að prófa! 🙂
Hæ hæ – langaði að spyrjast fyrir um þegar maður notar frosinn rababara – á ég að afþýða hann áður en ég set í kökuna ??
Já, þú skalt afþýða hann.
Ok – takk kærlega fyrir og takk fyrir frábæra síðu 🙂
Takk fyrir kveðjuna! 🙂
Sæl mín kæra, prófaði þessa í dag og bauð Kaliforníubúunum upp á ásamt rababarasírópi, sannkallað rababaraþema hjá mér 🙂 Þau voru mjög hrifin og við líka, æðislega skemmtilegt tvist á rababarann og er ég nú búin að prófa þær margar uppskriftirnar en þetta er ein sú besta.
En frábært Dagný! 🙂 Bestu kveðjur til ykkar allra!
Þessi var kláruð í barnafmæli hjá mér, bætti aðeins við hvítu sukkulaði.
Heldurðu að maður geti ekki skipt út rabarbara fyrir bláber eða epli?
Jú, örugglega!
Sæl !
Var að hugsa um að bjóða upp á pæið
þitt í eftirrétt.Hvað er uppskriftin þín fyrir marga
Með góðri kveðju og þakklæti Þorbjörg
Sæl Þorbjörg. Ég myndi áætla að pæið dygði fyrir allavega 8 fullorðna.
Hádegismatur í dag var pizzabrauð sem er alltaf svo gott. Hafði núna skinku í öðru og pepperóní í hinu kom mjög vel út og allir súper glaðir.
Hafði svo þessa góðu böku í eftirétt. Æðisleg samsettning að hafa jarðaberin og hvíta súkkulaðið með rabarbaranum 😊
Frábært að heyra, þú ert nú meiri dugnaðarforkurinn í eldhúsinu! 🙂 Já, þessi baka er í miklu uppáhaldi – þetta fer allt svo vel saman eins og þú segir. Takk fyrir kveðjuna! 🙂
Þessi uppskrift hefur algerlega slegið í gegn hjá mér. Prófaði líka að nota hindber og það var mjög gott.