Síðastliðin tvö sumur höfum við farið í fremur langar utanlandsferðir en nú í sumar höfum við verið heima og notið þess afar vel. Sumrin á Íslandi eru svo stutt en svo dásamlega björt og falleg að í raun ætti maður bara að fara til útlanda á veturna. Yngsta barnið okkar fór hins vegar í ferðalag og það ekkert lítið ferðalag. Hún fór til Colombus í Bandaríkjunum í sumarbúðir barna og var þar í heilan mánuð, 11 ára gömul! Þegar hún orðaði þetta við mig fyrst fyrir tæpu ári síðan, þá hefði hún allt eins getað spurt hvort hún mætti fara til tungslins, svo fráleitt fannst mér að hún færi án okkar til útlanda svona lengi og svona ung. En þegar ég fór að kynna mér starfsemi CISV þá gat ég ekki annað en hrifist af hugmyndafræðinni. Allir sem höfðu farið í slíkar búðir, sem ég heyrði og las um, sögðu þetta vera það magnaðasta sem þau hefðu gert á ævinni. Ég ákvað að láta ekki mína hræðslu standa í vegi fyrir ævintýragirni dóttur minnar og úr varð að hún fór í þetta frábæra ferðalag.

Komin heim!
Markmið CISC er að stuðla að friði og réttlæti í heiminum í gegnum vinskap og samstarf ólíkra menningarbrota, óháð pólitískum eða trúarlegum skoðunum. Það er hugsun á bakvið að börnin séu 11 ára í þessum búðum því þá eru þau nógu þroskuð til þess að taka á móti þessum boðskap en ennþá það mikil börn að þau eru tilbúin að taka þátt í leikjunum sem búðirnar eru byggðar upp á og þetta er líka sá aldur sem börn mynda lífslangan vinskap á. Ég heyrði hér um bil ekkert í Jóhönnu í heilan mánuð og var því spennt að vita hvernig hún hefði upplifað búðirnar. Þegar hún loksins kom heim spurði ég hana hvort þetta hefði verið skemmtilegra eða leiðinlegra en hún hefði gert ráð fyrir. Hún svaraði að dvölin hefði verið miklu skemmtilegri en hún hélt; „ég lærði svo miklu meira um að vera þakklát, hugsa um aðra og verða betri manneskja” :). Hún eignaðist bestu vinkonur frá Indónesíu, Portugal, Costa Rica, Bandaríkjunum og löndum um allan heim og er ákveðin í því að halda áfram í samtökunum. Samtímis því sem hún var í Bandaríkjunum voru CISV sumarbúðir haldnar hér á landi með aðsetur í Mýrhúsaskóla. Ég fór nokkrum sinnum þangað í sjálfboðaliðavinnu í eldhúsið og gat þá fengið innsýn í hvað Jóhanna var að upplifa í sínum sumarbúðum. Ein helgi er svokölluð ”homestay” helgi. Þá fara börnin heim til fjölskyldu og við fengum til okkar þrjár yndislegar 11 ára stelpur frá Brasilíu, Ítalíu og Egyptalandi eina helgi. Við skemmtum okkur vel með þeim þessa helgi, sýndum þeim Reykjavík og mynduðum Facebook-tengsl við fjölskyldur þeirra í Kairo, Sao Paolo og Ferrara. Vinskapurinn sem myndaðist þesssa helgi kristallar einmitt markmið samtakanna svo vel.
Þar sem ég stóð í eldhúsinu í Mýrhúsaskóla einn daginn, í bongóblíðu, og bjó til súpu í kvöldmatinn fyrir börnin sem voru í sumarbúðum hér fór ég að hugsa um hversu gaman það væri að geta boðið þeim upp á almennilega íslenska grillveislu. Ég sá það nú strax í hendi mér að það myndi duga skammt að dröslast með grillið mitt á staðinn enda voru þetta 70 manns með fararstjórum og búðarteymi. Búðirnar eru reknar í sjálfboðaliðavinnu með lágmarksrekstrarfé. Í bríeríi ákvað ég því að senda Tomma hjá Hamborgarabúllunni tölvupóst, segja honum frá þessum frábæru samtökum og yndislegu börnum sem væru hér stödd allsstaðar að úr heiminum og spyrja hvort hann gæti hugsað sér að koma með grillvagninn sinn og bjóða þeim upp á hamborgaraveislu. Ég bjóst ekkert endilega við svari, enda þekki ég Tomma ekki neitt og þetta var fremur frökk bón, að biðja um ókeypis hamborgaraveislu fyrir 70 manns. Ég fékk hins vegar svar um hæl, ”Ekkert mál, hvenær hentar að við komum?”!! Algjörlega mögnuð viðbrögð og svo frábært að til sé fólk sem er tilbúið að gefa svona af sér án þess að vænta nokkurs tilbaka. Hamborgarabúllan mætti á staðinn í bongóblíðu á ”galadegi” búðanna og bauð upp á ógleymanlega grillveislu. Frábær minning og upplifun fyrir börnin sem dvöldu hér á Íslandi. Takk Tommi og Búllan!!
En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Ég komst að því mér til mikillar ánægju að ég er með rabarbara í nýja garðinum mínum. Ég fann á sænskum uppskriftavef uppskrift að spennandi rabarbaraböku með brúnuðu smjöri. Brúnað smjör er svo svakalega gott, það kemur svo góður karamellu/hnetukeimur að smjörinu þegar það er brúnað. Ég var því spennt að prófa þessa uppskrift og hún sló algerlega í gegn hér heima. Stökkur hjúpur með karamellukeimi á móti súrum rabarbaranum var frábærlega gott. Það væri hægt að velta rabarbaranum upp úr smá sykri, jafnvel kanelsykri en okkur fannst gott að hafa hann dálítið súran á móti stökka og sæta hjúpnum.
Uppskrift:
- 500 g rabarbari, skorin í bita
- 150 g smjör
- 1 1/2 dl haframjöl
- 1 1/2 dl sykur
- 1 1/2 dl hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 dl ljóst síróp
- 2 msk mjólk
- örlítið salt
Ofn hitaður í 175 gráður við blástur. Rabarbarinn skorinn í bita og honum dreift í smurt eldfast mót. Smjörið sett í pott og brætt við fremur háan hita þar til það byrjar að malla vel, þá er fylgst vel með smjörinu, jafnvel aðeins lækkað undir því ef með þarf. Eftir 2-3 mínútur verður það gullinbrúnt með hnetuilmi. Þá er potturinn tekinn af hellunni, mesta froðan veidd af og brúnaða smjörinu hellt í skál, ekki með botnfallinu. Því næst er haframjöli, sykri, hveiti, lyftidufti, sírópi, mjólk og salti bætt út í og allt hrært saman. Þessu er dreift yfir rabarbarann og bakað við 175 gráður í um það bil 45 mínútur. Borið fram með þeyttum rjóma eða ís.