Rabarbarabaka með jarðarberjum og hvítu súkkulaði


Rabarbarabaka með jarðaberjum og hvítum súkkulaðiMér finnst alltaf dálítið skrítið og óþægilegt að skrifa lýsingar við uppskriftirnar sem ég set hér inn á síðuna. Að skrifa um mat, sem ég hef sjálf útbúið, eitthvað í líkingu við „dásamlega gott og besti réttur í heimi“ hljómar eins og mann skorti alla hógværð og sé í meira lagi sjálfumglaður! 🙂 Ég er nefnilega meira týpan í ætt við ömmur þessa lands, þar sem þær standa við matarborðið og segja: „Æ, þetta er nú nauðaómerkilegt, vonandi getið þið borðað eitthvað af þessu“. Hins vegar finn ég það sjálf þegar ég skoða matarblogg að ég vil fá álit á uppskriftunum. Þegar ég sé uppskrift á bloggi sem ekkert er skrifað um, bara „hér kemur uppskrift að… “ þá dæmi ég ósjálfrátt uppskriftina ekkert sérstaka. Að þessu sögðu þá kynni ég til leiks langbesta rabarbarapæ sem ég hef smakkað hingað til! 😉 Ég ákvað sem sagt að gera rabarbaraböku en þar sem hún verður stundum heldur til súr lagði ég höfuðið í bleyti, hvað gæti vegið upp á móti því? Jarðarber voru augljóst svar, svo sæt og góð. Mér finnst hvítt súkkulaði passa einstaklega vel við heita berja- og ávaxtarétti og ákvað að prófa það með. Mylsnan ofan á er klassísk en svo ótrúlega góð. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á þessa böku um síðustu helgi og hún var kláruð upp til agna í einni svipan með þeim orðum að þetta væri besta rabarbarabakan sem þau hefðu smakkað … það er sem sagt ekki bara ég sem er að slá um mig! 🙂

IMG_6242

Uppskrift: 

  • 5-600 g rabarbari, skorinn í bita
  • 250 g jarðarber, helst fersk, skorin í sneiðar
  • 2/3 dl sykur
  • 2 msk maísmjöl
  • 100 g Siríus hvítir súkkulaðidropar (þ.e 2/3 úr pokanum)
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 2 dl haframjöl
  • 110 g smjör (kalt)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Rabarbara, jarðarberjum, maísmjöli og 3/4 dl sykri er blandað saman og sett í eldfast mót. Hvítu súkkulaðidropunum er því næst dreift yfir.

Hveiti, púðursykur, sykur, haframjöl og smjör er mulið saman í höndunum þar til að blandan minnir á haframjöl. Þá er blöndunni dreift yfir berin og rabarbarann. Bakað við 180 gráður í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan farin að „bubbla“ upp um hliðar formsins. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_6214IMG_6224

Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúpi


Rabarbara- og perubaka með stökkri mylsnu

Ég er afar veik fyrir pæjum eða bökum eins og þau kallast á íslensku. Svíar eru mikið bökufólk, það eru alltaf til góðar bökur á kaffihúsunum þar í landi, til dæmis eplabökur og hindberjabökur. Það tók mig nokkur ár að taka í sátt að Svíar bera alltaf fram vanillusósu með bökunum (og eplakökum) en núna finnst mér vanillusósan óskaplega góð – sem minnir mig á að ég þarf að setja inn hingað uppskrift af slíkri sósu! Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar góðar bökuuppskriftir. Til dæmis þessa uppskrift af kryddaðri eplaböku með hnetum, hún er ákaflega einföld og dásamlega gómsæt:

Krydduð eplabakaKrydduð eplabaka 

Ef þið hafið ekki enn prófað Key lime bökuna þá eruð þið að missa af miklu, hún er hnossgæti!

Key lime bakaKey lime baka

Þessi epla- og hindberjabaka er mjög fljótleg og yndislega góð.

Epla- og hindberjabaka

Epla- og hindberjabaka

Banana-karamellubakan er ein af mínum uppáhalds, ég mæli sannarlega með þessari dásemd

Banana-karamellukaka

Banana-karamellubaka

Að síðustu verð ég að nefna góðu berjabökuna hennar Jóhönnu Ingu, hún er ljúfmeti!Berjabaka

Berjabaka

Að þessu sinni ætla ég að setja inn uppskrift af feykigóðri rabarbaraböku með perum. Mér finnst voðalega gott að setja eitthvað sætt með í rabarbarabökurnar, það gefur svo gott jafnvægi við súran rabarbarann. Stundum set ég hindber með en að þessu sinni notaði ég perur, það kom ofsalega vel út. Ef þið eruð hrifin af hvítu súkkulaði þá er sannarlega ekki verra að strá yfir rabarbarabökuna dálítið af hvítum súkkulaðidropum. Hafrahjúpurinn ofan á bökunni er meðal annars með púðursykri og sírópi sem gefur henni stökka áferð og karamellukennt bragð – ljúffengt!

IMG_1944

Uppskrift:

  • 500 g rabarbari, skorinn í bita
  • 2 stórar perur, afhýddar og skornar í bita
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 dl sykur + 1 msk
  • 1 dl púðursykur
  • 2 dl haframjöl
  • 2 dl hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl ljóst síróp
  • 125 g smjör
  • 1/2 dl rjómi

Ofninn er stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rabarbaranum og perunum er dreift í smurt form og 1 msk af sykri og kartöflumjöli er stráð yfir. Smjörið er brætt í potti ásamt rjómanum. Þurrefnunum er blandað saman í skál ásamt sírópinu og brædda smjörinu og rjómanum er svo hrært út í. Blöndunni er því næst dreift jafnt yfir rabarbarann og perurnar. Bakað í ofni við 150 gráður í ca. 40 – 50 mínútur. Bakan er borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_1948