Rabarbarabaka með jarðarberjum og hvítu súkkulaði


Rabarbarabaka með jarðaberjum og hvítum súkkulaðiMér finnst alltaf dálítið skrítið og óþægilegt að skrifa lýsingar við uppskriftirnar sem ég set hér inn á síðuna. Að skrifa um mat, sem ég hef sjálf útbúið, eitthvað í líkingu við „dásamlega gott og besti réttur í heimi“ hljómar eins og mann skorti alla hógværð og sé í meira lagi sjálfumglaður! 🙂 Ég er nefnilega meira týpan í ætt við ömmur þessa lands, þar sem þær standa við matarborðið og segja: „Æ, þetta er nú nauðaómerkilegt, vonandi getið þið borðað eitthvað af þessu“. Hins vegar finn ég það sjálf þegar ég skoða matarblogg að ég vil fá álit á uppskriftunum. Þegar ég sé uppskrift á bloggi sem ekkert er skrifað um, bara „hér kemur uppskrift að… “ þá dæmi ég ósjálfrátt uppskriftina ekkert sérstaka. Að þessu sögðu þá kynni ég til leiks langbesta rabarbarapæ sem ég hef smakkað hingað til! 😉 Ég ákvað sem sagt að gera rabarbaraböku en þar sem hún verður stundum heldur til súr lagði ég höfuðið í bleyti, hvað gæti vegið upp á móti því? Jarðarber voru augljóst svar, svo sæt og góð. Mér finnst hvítt súkkulaði passa einstaklega vel við heita berja- og ávaxtarétti og ákvað að prófa það með. Mylsnan ofan á er klassísk en svo ótrúlega góð. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á þessa böku um síðustu helgi og hún var kláruð upp til agna í einni svipan með þeim orðum að þetta væri besta rabarbarabakan sem þau hefðu smakkað … það er sem sagt ekki bara ég sem er að slá um mig! 🙂

IMG_6242

Uppskrift: 

  • 5-600 g rabarbari, skorinn í bita
  • 250 g jarðarber, helst fersk, skorin í sneiðar
  • 2/3 dl sykur
  • 2 msk maísmjöl
  • 100 g Siríus hvítir súkkulaðidropar (þ.e 2/3 úr pokanum)
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 2 dl haframjöl
  • 110 g smjör (kalt)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Rabarbara, jarðarberjum, maísmjöli og 3/4 dl sykri er blandað saman og sett í eldfast mót. Hvítu súkkulaðidropunum er því næst dreift yfir.

Hveiti, púðursykur, sykur, haframjöl og smjör er mulið saman í höndunum þar til að blandan minnir á haframjöl. Þá er blöndunni dreift yfir berin og rabarbarann. Bakað við 180 gráður í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan farin að „bubbla“ upp um hliðar formsins. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_6214IMG_6224