Salthnetuterta með Dumle karamellukremi‏


Salthnetuterta með Dumle karamellukremi Ég verð að deila með ykkur uppskrift að svo dásamlega góðri tertu. Ég fór með hana í stórt fjölskylduboð um daginn og þar var fólk hreinlega að missa sig yfir þessar tertu. Ég er að baka hana aftur núna í kvöld og ætla að fara með hana á kökuhlaðborð í skóla barnanna á morgun. Ég er meira að segja að hugsa um að baka hana aftur fyrir aðventuboð á sunnudaginn. Ég náði nefnilega bara að smakka örlítinn bita af þessari ljúffengu tertu í boðinu um daginn og er búin að dreyma um að baka hana aftur við fyrsta tækifæri. Ég held að ég geti fullyrt að þessi tertuuppskrift sé alveg skotheld! 🙂 IMG_8083 Uppskrift:

 • 4 eggjahvítur (lítil egg)
 •  3 dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 160 g Ültje salthnetur
 • 80 g Ritz kex

Dumle krem:

 • 60 g smjör
 • 1 poki dökkt Dumle (110 g) eða orginal
 • 4 eggjarauður

Ofan á kökuna:

 • 3 dl rjómi
 • 40 g Ültje salthnetur, saxaðar gróft
 • nokkrir Dumle molar, skornir eða klipptir í þrennt.

IMG_8072

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Salthnetur og Ritzkex mulið smátt í matvinnsluvél og bætt út í marengsinn með sleikju ásamt vanillusykri og lyftidufti. Deiginu er hellt í 24 cm smellu- eða silíkonform. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 25-30 mínútur.

Smjör er sett í pott og brætt við meðalháan hita. Dumle molum er bætt út í og allt látið bráðna, kælt lítillega. Eggjarauður eru þeyttar ljósar og léttar og bræddu Dumleblöndunni bætt út í. Kakan er sett á kökudisk og Dumlekreminu dreift yfir kökuna. Að lokum er rjóminn þeyttur og honum dreift yfir kökuna. Skreytt með gróft söxuðum salthnetum og niðurskornum Dumle karamellum. Salthnetuterta með Dumle karamellukremiIMG_8084

39 hugrenningar um “Salthnetuterta með Dumle karamellukremi‏

 1. Ég var svo heppin að fá að smakka þessa köku um daginn, vá hún er hættulega góð.

 2. Hæhæ. Ég bakaði botninn á þessari köku í gær og hann var eitthvað hálf misheppnaður. Á kakan að vera frekar „blaut“? Botninn féll hjá mér og er frekar „klístraður“ … þegar þú bakar kökuna smyrðu þá mótið eða setur þú bökunarpappír/álpappír í botninn?

  • Eitt annað. Varðandi salthneturna – gæti verið að ég hafi malað þær of mikið? Ég notaði töfrasprota og þær urðu að hálfgerðu mauki :/

   • Sæl

    Ég er búin að baka hana nokkrum sinnum núna nýlega og hún verður ekkert blaut. Ég baka hana í kringlóttu silikonformi og þarf hvorki að smyrja formið né setja bökunarpappír. Ef þú notar venjulegt kökuform er best að klæða það með smjörpappír. Þegar ég baka botninn í sílikonforminu þá kemur hann bara út svona eins og sést á myndinni, sígur aðeins í miðjunni en er alveg þurr.
    Varðandi hneturnar þá myl ég þær (og kexið) í matvinnsluvél þannig að þær verða að mauki og það á að gerast.
    Svona stig fyrir stig er hægt að huga að þessum þáttum, stífþeyta eggjahvíturnar og sykurinn vel, blanda hnetum og kexi varlega út í með sleikju, klæða formið með bökunarpappír, prófa að bæta við bökunartímann, hafa botninn t.d. inni í 30-35 mínútur, leyfa kökunni að kólna í forminu áður en hún er tekin úr því.
    Þó svo að botninn sé klístraður og jafnvel fallinn í miðju þá þarf samt ekki að vera að hann sé misheppnaður – mestar líkur eru á því að hann smakkist samt vel þegar kremið og rjóminn eru komin á hann! 🙂

 3. Vanillusykur hef ég ekki séð hérna hinumegin á hnettinum, hvað er hægt að nota í staðinn

  • Mögulega 1 tsk vanilludropa eða örlítið vanilluessence eða extract. Eins er hægt að búa til eigin vanillusykur með því að blanda saman ferskri vanillu og sykri. Ég myndi nú samt bara sleppa vanillunni ef þú hefur ekki aðgang að vanillusykri – hann er ekkert afgerandi í þessari uppskrift.

   • Ég gerði það í dag, en hún er blaut og dálítið klesst, eins og önnur kona lýsti. Var með venjulegt „springform“ með bökunarpappír í botninum. Prófa kannski aftur og lengi baksturstímann, eins og þú ráðlagðir. Langar að ná henni góðri, hlakka til að smakka😋 þakka svarið.

 4. Sæl. Ég ætla að baka þessa köku fyrir jólaboð á laugardaginn og var að spá hvort þú setjir kremið og rjómann á stuttu áður en þú berð hana fram eða látir standa yfir nótt? Mér finnst botninn soldið marengs-legur og mér finnst marengstertur betri þegar þær standa yfir nótt þannig að ég var að vetla fyrir mér hvort það sama ætti við um þessa köku:) Kv. Hrefna

  • Sæl Hrefna. Þetta er marengsbotn og þolir því vel að bíða með rjómanum yfir nóttu. Hins vegar liggur rjóminn ofn á kreminu, ekki botninum þannig að hann bleytir ekki beint upp í honum. Ég myndi persónulega setja rjómann á samdægurs, mér finnst það koma „ferskast“ út þannig.

  • Ég er ekki alveg viss um það því mig minnir að karamellan sé frekar hörð í karamellusprengjunum. Þú þarft eiginlega að prófa hvernig þær karamellur bráðna, blandan má ekki vera alltof seig. Ef þetta verður of þykkt og seigt er kannski hægt að hafa suðusúkkulaði á móti til helminga og/eða smá rjóma/mjólk til að þynna blönduna.

   • ég hef notað nóa rjómakúlur í staðin fyrir dumle, og kemur það rosalega vel út :þ

    * þó spurningin sé gömul, má alltaf bæta við fræðimolum og hugmyndum í bankann 😉 *

 5. Botninn hja mér varð grjótharður hefði auðveldlega geta rotað með honum.
  En ætla prófa aftur…..hvað gæti hafa mistekist….?

  • Sæl Hrönn. Ég hef aldrei lent i þessu en það sem mér dettur í hug er að þú hafir bakað botninn of lengi (ofnar eru misjafnir). Eins þarf að passa að marengsinn sé stífþeyttur og hnetunum/ritx-kexinu sé blandað varlega út í með sleikju svo marengsinn falli ekki.

 6. Hæ já líklega verið of lengi inn í ofni…..en ég muldi hann bara í form og gerði svo kremið og rjóman og hún var æði…..:)

 7. Þessi var rosaleg : ) ég frysti hana með rjómanaum og bara hana fram aðeins frosna og ekki var það verra. En takk fyrir frábæra síðu,nota hana mjög mikið : )

  • Gaman að heyra og gott að vita að það virki vel að frysta hana með rjómanum. Ég get einmitt ímyndað mér að hún sé góð líka svona hálffrosin.

 8. Bakaði þessa í gær og hún er alveg svakalega góð en enn betri daginn eftir þegar hún er búin að vera í ísskápnum. En ég myndi hafa minni sykur næst heldur þú að það sé ekki í góðu lagi ?

  • Sæl Þóra Jóna. Það er sjálfsagt að prófa sig áfram með sykurinn. Þetta er samt marensbotn í grunninn og það þarf því að passa að marengsinn missi ekki eiginleika sinn þannig að botninn mistakist í bakstri.

 9. Hi. Great blog with fatastic pictures. Pity I don’t speak Islandic 😦 Translating with google takes a lot of time.

 10. Sæl. Bakaði þessa um daginn og hún er svakagóð. Aðeins eitt vesen, kremið var svo þunnt að það lak allt niður á barma disksins. Var að spá í hvort ég ætti kannski að setja minna smjör?

  • Sæl. Ég held að það hafi ekki með smjörið að gera. Það þarf að passa að eggjarauðurnar séu þeyttar mjög vel þar til þær eru léttar og ljósar. Svo þarf að passa að kæla Dumle/smjörblönduna þannig að hún fari ekki sjóðheit út í eggjarauðublönduna. Þegar þú setur blönduna út í, ekki þeyta áfram með hrærivélinni heldur blandaðu henni út í eggjarauðurnar varlega með sleikju.

 11. Þessi kaka er búin að vera í öllum afmælisveislum hjá mér í mörg ár og alltaf jafn vinsæl. Stundum gleymist að setja lyftiduft en það gerir ekkert til. Líka snild að nota rauðurnar í kremið. í upprunalegu uppskriftinn er 100 gr. af súkkulaði í staðin fyrir karmellurnar. Upprunalega uppskriftin var í Nóa Síríus bæklingi fyrir margt löngu.

 12. Bakaði þessa köku reglulega fyrir mörgum árum, hét sælgætis ritzkex kaka. Muldi ekki salthneturnar og það var gott að hafa hana með grófum salthnetum. Reyndar var ekki Dumle krem á henni heldur bar súkkulaðikrem úr súkkulaði, smjöri, flórsykri og eggjarauðu. Nú þarf ég að prufa þessa með Dumle kremi.

 13. Ég bakaði þessa köku og hún brann all rækilega í botninn. Ég notaði 25 cm form og setti bökunarpappír í botninn. Ég hafði kökuna í mun styttri tíma en gefið var upp. Hvað gæti hafa skeð hjá mér ?

  • Ég var einmitt að baka þessa fyrir nokkrum dögum. Bakaði botninn í silikonformi (24 cm) í 25 mín við 180 gráður undir/yfirhita og hún var alveg passleg. Notaðir þú nokkuð blástur? Ofnar geta verið misjafnir, spurning að hafa lægri hita næst?

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.