1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.
Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra.
Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)
- 230 g smjör, við stofuhita
- 200 g púðursykur
- 60 g sykur
- 2 egg
- 2 tsk vanillusykur
- 220 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- ½ tsk salt
- 270 g haframjöl
- 200 g döðlur, saxaðar smátt
- 150 g suðusúkkulaðidropar
Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð.
Prófaði þessar áðan, þær eru virkilega góðar.
Gaman að heyra Sigríður! 🙂