Hvítar sörur


IMG_4290

Ég geri alltaf hefbundnar sörur fyrir jólin en get alveg staðist freistinguna að eiga þær í frysti. Þessar hvítu sörur gerði ég hins vegar í fyrsta sinn í fyrra og þær get ég engan veginn staðist! Uppskriftin kemur frá Jóa Fel og þær eru algjört sælgæti. Ef ég þyrfti að velja bara eina tegund til að gera fyrir jól þá yrðu þessar himnesku sörur fyrir valinu. Ég gaf afa box með svona sörum og hann var alveg vitlaus í þær, sagði að þetta væru bestu smákökur sem hann hefði smakkað á níutíu ára ævi sinni, ekki slæmur dómur það! 🙂

IMG_4291

IMG_4298

Botn:

 • 9 stk. eggjahvítur
 • 85 g sykur
 • 430 g flórsykur
 • 515 g möndlur

Ofn hitaður í 180 gráður. Eggjahvítur þeyttar og sykur sett rólega útí, stífþeytt. Möndlur maukaðar mjög smátt í matvinnsluvél, flórsykrinum blandað saman við. Þessu er síðan blandað varlega saman við stífþeytta marengsinn með sleikju. Sprautað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ca. 12 mínútur við 180 gráður. Kælt áður en kremið er sett á.

Krem:

 • 240 g sykur
 • 200 ml vatn
 • 8 stk. eggjarauður
 • 180 g hvítir súkkulaðidropar
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1.5 tsk vanilludropar

Hjúpur:

 • Hvítir súkkulaðidropar

Sykur og vatn sett í pott og htiað upp í 116 gráður eða þar til sírópið fer aðeins að þykkna. Eggjarauður þeyttar til hálfs og þá er sírópinu hellt mjög varlega út í rauðurnar í mjórri bunu á meðan þeytingin er á miðlungshraða. Því næst er aukið við hraðann og þeytt í ca. 3-4 mínútur. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Á meðan er smjör (við stofuhita) bætt út í þeytinguna (best er að nota hendur) og síðan er súkkulaði og vanillu bætt út í. Hrært þar til myndast gott smjörkrem). Best er að nota hendur en það er hægt að nota spaðann á hrærivélinni og vinna rólega. Kreminu er sprautað á, eða því smurt, á botnana. Þá eru þær kældar í frysti í ca. 20 mínútur. Hvítt súkkulaði fyrir hjúpinn er brætt og sörunum (kremhliðinni) er dýft ofan í hjúpinn. Best er að geyma sörurnar í frysti og bera fram kaldar.

IMG_4294

 

 

Rocky road súkkulaðismákökur


img_4254

Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.

img_4285

Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂

img_4284

 

Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!

img_4245

Uppskrift: 

 • 350 g suðusúkkulaði
 • 40 g smjör
 • 2 egg
 • 150 g sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 35 g hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
 • ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
 • ca. 1 dl salthnetur
Suðusúkkulaði og smjör brætt í potti við vægan hita og leyft að kólna aðeins. Egg, sykur og vanillusykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er hveiti og lyftidufti bætt út í og síðustu er brædda súkkulaðinu og smjörinu bætt varlega saman við deigið. Deigið er kælt í ísskáp í um það bil 30 mínútur.
Ofn hitaður í 175 gráður við undir-yfirhita. Bökunarplata er klædd bökunar pappír og deigið er sett í litlar hrúgur á pappírinn með tveimur teskeiðum og flatt örlítið út með blautum fingurgómum ef með þarf. Þá er sett dálítið af salthnetum og karamellukurli á hverja köku ásamt 2-3 litlum sykurpúðum. Bakað í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur. Kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma út, þær harðna þegar þær kólna.
img_4232img_4250

Hafradraumur með súkkulaði og döðlum


Hafradraumur með döðlum og súkkulaði1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.

Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. IMG_8039

Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)

 • 
230 g smjör, við stofuhita
 • 
200 g púðursykur
 • 
60 g sykur
 • 
2 egg
 • 
2 tsk vanillusykur
 • 
220 g hveiti
 • 
1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 
270 g haframjöl
 • 200 g döðlur, saxaðar smátt
 • 150 g suðusúkkulaðidropar

Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír.  Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð. 
IMG_8037

IMG_8033

Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

 • 120 g smjör (við stofuhita)
 • 100 g púðursykur
 • 100 g sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanillusykur
 • 6 msk bökunarkakó
 • 280 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • ¼ – ½ tsk salt
 • 200 g Pipp með karamellu
 • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948

Karamellu- og súkkulaðibitakökur


IMG_6300IMG_6298Í dag eru tvær vikur síðan við lögðum upp í skemmtilega Bandaríkjaför og nú er dvölin hálfnuð. Við byrjuðum á því að fara til New York í nokkra daga og erum núna í Michigan þar sem við gerðum húsaskipti. Við búum eins og blóm í eggi í stóru húsi með öllum þægindum, sundlaug sem tilheyrir húsinu, flottar strendur í nágrenninu og síðast en ekki síst njótum við sólar og sumaryls á hverjum degi! Ég er aðeins búin að missa mig í matvöruverslununum hér. Þvílíkt úrval af dásamlega góðum mat og verðið allt annað en heima. Við byrjum til dæmis alltaf daginn á amerískum pönnukökum með sírópi og öllum þeim ferskum berjum sem hugurinn girnist, beikoni og eggjum. Við fórum til Shipshewana sem er Amish-bær og þar keyptum við ótrúlega góða nautalund, hamborgara og fleira sem er að sjálfsögðu 100% lífrænt hjá Amishfólkinu. Það er því alltaf eitthvað gúrmei í matinn hjá okkur á kvöldin líka – sem sagt algjört matarævintýri! Endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram, þar set ég reglulega inn myndir. Það er líka hægt að fara á forsíðu Eldhússagna og sjá þar myndirnar frá Instagram, þær eru hægra megin á síðunni.

Það voru farnar að safnast upp uppskriftir sem ég ætlaði að setja inn á síðuna í fríinu en satt best að segja hef ég bara ekkert nennt að sinna blogginu í þessu ljúfa fríi! 🙂 Ég get þó ekki staðist mátið og sett inn þessa uppskrift að dásamlega góðum karamellu- og súkkulaðibita kökum sem Jóhanna og Katla vinkona hennar bökuðu rétt áður en við fórum af landinu. Jóhanna er afar hrifin af Subway smákökum og við erum alltaf að reyna útfæra uppskriftir sem ná þeim standard og ég held svei mér þá að þessi uppskrift komist ansi nálægt því!

IMG_6308

Uppskrift (ca. 20 kökur):

 • 120 gr smjör (við stofuhita)
 • 2 dl púðursykur
 • 2 dl sykur
 • 2 egg
 • 400 g Kornax hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1/4 tsk salt
 • 1 poki karamellukurl hjúpað súkkulaði frá Nóa og Siríus (150 g)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, púðursykri og sykri er hrært saman. Því næst er eggjunum bætt út í, einu í senn. Þá er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Að lokum er karamellukurlinu bætt út í.

Kúlur á stærð við litlar plómur eru mótaðar með höndunum og raðað á ofnplötu (passað að gefa þeim pláss til að fletjast út). Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur.

IMG_6302

Piparkökur


piparkökurPiparkökubakstur er ómissandi í jólaundirbúningnum á heimili okkar. Ég er mjög veik fyrir piparkökuformum og við eigum orðið ansi veglegt safn af þeim. Jólasveinninn er líka sniðugur stundum og laumar í skóinn skemmtilegum formum daginn áður en við bökum piparkökurnar – skemmtileg tilviljun! 🙂IMG_2183

Hluti af piparkökuformunum

Það er nauðsynlegt að setja á fóninn góða jólatónlist, kveikja á kertum og drekka malt og appelsín úr jólaglösum á meðan piparkökurnar eru bakaðar og skreyttar. 🙂

IMG_2192

Krakkarnir eru snillingar að skreyta piparkökurnar. Hér málaði Vilhjálmur eina kökuna eins og uppáhalds hundategundina sína.IMG_2282Jóhanna er líka svo hugmyndarík í skreytingum, hér málaði hún jólatré á jólasokkinn – og skreytti með ótal silfurkúlum (sem eru ætar auðvitað!).

IMG_2258Hér að neðan færi ég inn uppskrift að góðum piparkökum, uppskrift sem ég nota alltaf þegar ég útbý deigið sjálf. Reyndar kaupi ég líka stundum tilbúið deig. Það er jú langskemmtilegast að skera út piparkökurnar og mála þær og önnum kafnar mömmur þurfa að forgangsraða á annasamri aðventu. Mér finnst samt þessar piparkökur langbestar.

Uppskrift:

 • 250 g sykur
 • 2 dl ljóst síróp
 • 1 msk kanil
 • ½ msk engifer
 • ¼ msk negull
 • ¼ tsk pipar
 • 250 g smjör
 • 1 msk matarsódi
 • 2 egg
 • 650-800 g Kornax hveiti

Kalt smjör er sett í skál sem er sett til hliðar. Því næst er sykur og síróp sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Þá er kanil, engifer, negul og pipar hrært vel saman við. Því næst er matarsódanum bætt út í og öllu hrært hratt og vel saman. Á þessum tímapunkti verður blandan ljósari og bólgnar upp. Þá er blöndunni strax hellt yfir smjörið í skálinni og hrært vel þar til allt smjörið hefur bráðnað og blandan er orðin köld. Því næst er eggjunum bætt út í og þeim hrært vel saman við blönduna. Að lokum er hveitinu bætt smátt og smátt út í þar til deigið er orðið þétt og slétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Þegar nota á deigið er það hnoðað örlítið og svo flatt út með kökukefli, þá er gott að strá dálítið af hveiti á borðið svo það festist ekki við eða nota bökunarpappír undir deigið. Piparkökurnar eru mótaðar með þar til gerðum formum, það þarf að passa að þær séu um það bil jafn þykkar allar. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 5-10 mínútur, fer eftir stærð piparkakanna.


IMG_2197
IMG_2205

 

Glassúr:

 • flórsykur
 • eggjahvíta
 • sítrónusafi
 • matarlitir (Wilton eru langbestir)
 • kökuskraut eftir smekk

Flórsykur er settur í skál og örlítið af vatni er bætt út í ásamt smá sítrónusafa og eggjahvítu (ég notaði örlítið úr eggjahvítubrúsa en það er líka hægt að nota hluta af eggjahvítu úr einu eggi). Pískað vel saman þar til að blandan er slétt. Það þarf að prófa sig áfram með hlutfallið af vökva og flórsykri til að ná hæfilegri þykkt þannig að glassúrinn renni ekki en þó  þannig að það sé hægt að sprauta honum á piparkökurnar. Það er góð regla að bæta við minnna en meira af vökva því það þarf lítið til að glassúrinn verði of þunnur. Glassúrnum er svo skipt í eins margar skálar og litirnir eiga að vera og matarlit hrært út í hverja skál. Ég sett svo glassúrinn í litlu einnota sprautupokana frá Wilton (notaði bara pokana, ekki stútinn) og klippti örlítið gat, það hentaði mjög vel.

IMG_2286

IMG_2312 IMG_2260IMG_2314IMG_2263IMG_2311 IMG_2264 IMG_2271IMG_2266

Smákökur með súkkulaðibitum


smákökur með súkkulaðibitumMér finnst yndislegt að aðventan sé byrjuð. Í vikunni sem leið bjó ég til sörur með mömmu og Ingu frænku eins og alltaf. Við gerðum 420 sörur sem við skiptum á milli okkar, frábært að eiga þessar litlu dásemdir í frystinum!

sörurÍ vikunni kom saumaklúbburinn minn líka saman og við bjuggum til kransa. Ég gerði einn á útidyrnar og einn aðventukrans. Það er mikið lán að í klúbbnum er Fríða æskuvinkona mín sem er einn færasti blómaskreytirinn á landinu (auk þess að vera farastjóri og kennari með meiru!). Það eru nokkur ár síðan við tókum upp á því að föndra kransana saman. Ég hafði aldrei gert krans áður og án Fríðu þá væru kransarnir mínir ansi dapurlegir. Verandi bókasafns- og upplýsingafræðingur þá er ég mikið fyrir röð og reglu. Ég hef til dæmis tilhneigingu til þess að vilja raða könglunum í röð … alveg jafnt … jafnvel í stærðarröð! Nokkuð sem virkar vel á bókasafni en er hörmung þegar um aðventukransa er að ræða! Fríða er búin að kenna okkur að búa til þétta og fallega kransa, raða könglum í grúppum, nota náttúrlegt skraut eins og greinar en síðast en alls ekki síst; nota glimmer og snjó í miklu magni! Það er með ólíkindum hversu miklu glimmer og gervisnjór getur breytt og lagað! krans

Hér er rignir glimmerinu yfir kransinn

IMG_1622

Falleg skreyting í vinnslu hjá meistaranum

IMG_1621

Greini, greinar, könglar, glimmer og snjór – gerist ekki fallegra!

IMG_1629Meistarinn með hurðarkransinn sinn

En ef ég sný mér nú að smákökunum sem eru uppskrift dagsins. Þegar ég var barn bakaði mamma allskonar gómsætar smákökutegundir eins og svo algengt var á þeim tíma. Loftkökur, vanilluhringi, hálfmána með sultu og fleiri tegundir, allir í fjölskyldunni áttu sér sínar uppáhalds smákökur. Kökurnar voru allar tryggilega geymdar í kökuboxum fram að jólum og við krakkarnir biðum óþreyjufull alla aðventuna eftir því að fá að gæða okkur á kræsingunum. Eftir að ég stofnaði til minnar eigin fjölskyldu hélt ég í hefðina og baka ýmisskonar smákökur á aðventunni. Snemma á aðventunni bökum við krakkarnir alltaf piparkökur sem við svo málum og skreytum saman auk þess sem ég fer í sörubaksturinn með mömmu og Ingu frænku. Þetta er þær kökur sem ég geymi fram að jólum ásamt jólagotti líkt og Bounty kúlurOreokúlur og öðru gotteríi. Annars baka ég ekki smákökur og safna í kökubox, mér finnst nefnilega smákökur bestar nýbakaðar. Þannig að öðru hvoru á aðventunni baka ég eina og eina tegund af smákökum sem að má, og hreinlega á, að borða heitar og nýbakaðar! Fjölskyldan lætur ekki segja sér það tvisvar og við eigum því litlar, notalegar jólastundir á aðventunni með nýbökuðum, volgum smákökum og mjólkurglasi.  Í dag bjó ég til afskaplega góðar smákökur með súkkulaðibitum sem við gæddum okkur á. Þær eru stökkar að utan og mjúkar í miðjunni, alveg eins og góðar súkkulaðikökur eiga að vera.

IMG_1672

Uppskrift: 

 • 160 g smjör
 • 200 g púðursykur
 • 2 stór egg
 • 260 g Kornax hveiti
 • 1 pakki Royal karamellu búðingur (90 g) – duftið notað
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 tsk matarsódi
 • 100 g suðusúkkulaðidropar
 • 100 g hvítir súkkulaðidropar

Ofn hitaður í 180 gráður. Smjör og púðursykur hrært vel saman. Þá er einu eggi bætt út í senn, hrært vel á milli. Því næst er búðingsduftinu, hveiti, vanillusykri og matarsóda bætt út í og hrært vel. Að síðustu er súkkulaðidropunum bætt út í deigið. Um það bil teskeið af deigi er raðað á ofnplötu klædda bökunarplötu, passa að hafa gott pláss á milli þeirra.IMG_1665 Bakað í ofnið við 180 gráður í 8-10 mínútur eða þar til kökurnar eru tilbúnar. Gott að baka þær aðeins minna heldur en meira. IMG_1669

Subway smákökur – Jóhanna Inga gestabloggar


Subway smákökur

Á nákvæmlega sama degi fyrir ári síðan sagði ég frá því í þessari færslu þegar Jóhanna Inga fór á matreiðslunámskeið með vinkonum sínum. Í ár var hún afar spennt að fara aftur á námskeiðið og lauk því í síðustu viku. Jóhanna var alveg jafn ánægð með námskeiðið eins og í fyrra og hefði gjarnan viljað vera lengur. Krakkarnir fá að vinna alveg sjálfstætt, þau gera daglega marga rétti úr vönduðu hráefni og fara eftir góðum uppskriftum.

JIE

Nokkrir girnilegir réttir sem Jóhanna Inga matreiddi

IMG_0740

Vinkonurnar Jóhanna Inga og Hrefna Rós að loknu matreiðslunámskeiði.

Í fyrra valdi fjölskyldan þessa berjaböku sem einn besta réttinn sem Jóhanna Inga gerði á námskeiðinu það sumarið. Í ár gerði Jóhanna Inga afar margt gott, meðal annars fiskrétt, mexíkóskan rétt, brauðbollur og fleira en við völdum smákökurnar sem hún bakaði, þær eru í anda vinsælu Subway smákakanna. Ofsalega góðar kökur og Jóhanna Inga segir að þær séu auðvelt að baka. 🙂

IMG_0479

Uppskrift:

 • 150 g smjör (mjúkt)
 • 2 1/3 dl púðursykur
 • 1/2 dl sykur
 • 1 pakki Royal búðingsduft – vanillu eða karamellu
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 egg
 • 5 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 150 g súkkulaðidropar eða M&M

Stillið ofninn á 180 gráður undir- og yfirhita. Hrærið vel saman smjöri, púðursykri, sykri, búðingsdufti og vanilludropum í hrærivél eða með rafmagnsþeytara. Bætið eggjum út í, einu í senn og hrærið vel á milli. Bætið hveitinu og matarsódanum út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið að lokum súkkulaðidropunum eða M&M sælgætinu saman við með sleif. Búið til frekar stórar kökur með matskeið og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið í 12-17 mínútur (minni kökur 8-10 mínútur). Varist að baka kökurnar lengi, þær eiga að vera seigar en ekki stökkar.

Subway smákökur

Hummus á hrökkbrauði með tómötum og avókadó


IMG_7515Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera.  Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.

IMG_7506Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.

Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!

IMG_7536

 • 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
 • 1-2 msk vökvi frá baununum
 • 2 límónur (lime)
 • 1 msk Tahini
 • 2 hvítlauksrif, söxuð
 • 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
 • 4-6 msk ólífuolía
Vökvanum er hellt af kjúklingabaununum og honum haldið til haga. Hýðið rifið af annarri límónunni. Kjúklingabaunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hýðinu af límónunni, safanum úr báðum límónunum, hvítlauk, steinselju, tahini og ólífuolíu. Öllu blandað saman þar til orðið að mauki. Þá er vökvanum frá kjúklingabaununum bætt út í þannig að maukið verði passlega þykkt.
IMG_7510

Oreokúlur


OreokúlurÞetta gúmmelaði passar jafnt sem góðgæti fyrir jólin og allt árið um kring. Þetta er einföld uppskrift og afar fljótleg sem er mikill kostur fyrir uppteknar húsmæður og húsfeður á aðventunni. 🙂 Fyrir Oreokex aðdáendur þá er þetta bráðnauðsynleg uppskrift að prófa!

Uppskrift ca. 30 litlar kúlur

 • 150 gr rjómaostur, Philadelphia
 • 16 Oreo kexkökur (1 pakki)
 • 200 gr suðusúkkulaði (ég notaði Dökkan hjúp frá Nóa og Siríus, líka gott að nota 56% súkkulaði)
 • skraut ef vill, t.d. súkklaðikökuskraut, saxaðar hnetur, brætt hvítt súkkulaði

Oreokúlur

Oreokúlur

Setjið Oreokex og rjómaost saman í matvinnsluvél og keyrið þar til kexið hefur mulist niður og er vel blandað við rjómaostinn.
Það er gott að setja blönduna í ísskáp í ca. 30 mínútur áður en kúlurnar eru mótaðar, það verður svo mikið auðveldara. Þegar kúlurnar eru svo mótaðar í höndunum er gott að gera þær litlar, súkkulaðið gerir þær síðan stærri.
Kúlurnar eru lagðar á bökunarpappír og kældar í ísskáp í 4-5 tíma eða í frysti í 2-3 tíma. Þegar þær eru orðnar nægilega harðar þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði, kúlunum dýft ofan í og þær síðan lagðar á bökunarpappír. Gott er að dýfa kúlunum í súkkulaðið með tannstöngli. Ef maður vill er hægt að strá skrautinu yfir kúlurnar áður en súkkulaðið harðnar. Þessar kúlur bragðast langbest ef þær hafa fengið að vera í ísskáp í minnst sólarhring.

IMG_6696