Karamellu- og súkkulaðibitakökur


IMG_6300IMG_6298Í dag eru tvær vikur síðan við lögðum upp í skemmtilega Bandaríkjaför og nú er dvölin hálfnuð. Við byrjuðum á því að fara til New York í nokkra daga og erum núna í Michigan þar sem við gerðum húsaskipti. Við búum eins og blóm í eggi í stóru húsi með öllum þægindum, sundlaug sem tilheyrir húsinu, flottar strendur í nágrenninu og síðast en ekki síst njótum við sólar og sumaryls á hverjum degi! Ég er aðeins búin að missa mig í matvöruverslununum hér. Þvílíkt úrval af dásamlega góðum mat og verðið allt annað en heima. Við byrjum til dæmis alltaf daginn á amerískum pönnukökum með sírópi og öllum þeim ferskum berjum sem hugurinn girnist, beikoni og eggjum. Við fórum til Shipshewana sem er Amish-bær og þar keyptum við ótrúlega góða nautalund, hamborgara og fleira sem er að sjálfsögðu 100% lífrænt hjá Amishfólkinu. Það er því alltaf eitthvað gúrmei í matinn hjá okkur á kvöldin líka – sem sagt algjört matarævintýri! Endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram, þar set ég reglulega inn myndir. Það er líka hægt að fara á forsíðu Eldhússagna og sjá þar myndirnar frá Instagram, þær eru hægra megin á síðunni.

Það voru farnar að safnast upp uppskriftir sem ég ætlaði að setja inn á síðuna í fríinu en satt best að segja hef ég bara ekkert nennt að sinna blogginu í þessu ljúfa fríi! 🙂 Ég get þó ekki staðist mátið og sett inn þessa uppskrift að dásamlega góðum karamellu- og súkkulaðibita kökum sem Jóhanna og Katla vinkona hennar bökuðu rétt áður en við fórum af landinu. Jóhanna er afar hrifin af Subway smákökum og við erum alltaf að reyna útfæra uppskriftir sem ná þeim standard og ég held svei mér þá að þessi uppskrift komist ansi nálægt því!

IMG_6308

Uppskrift (ca. 20 kökur):

  • 120 gr smjör (við stofuhita)
  • 2 dl púðursykur
  • 2 dl sykur
  • 2 egg
  • 400 g Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1 poki karamellukurl hjúpað súkkulaði frá Nóa og Siríus (150 g)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, púðursykri og sykri er hrært saman. Því næst er eggjunum bætt út í, einu í senn. Þá er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Að lokum er karamellukurlinu bætt út í.

Kúlur á stærð við litlar plómur eru mótaðar með höndunum og raðað á ofnplötu (passað að gefa þeim pláss til að fletjast út). Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur.

IMG_6302

Subway smákökur – Jóhanna Inga gestabloggar


Subway smákökur

Á nákvæmlega sama degi fyrir ári síðan sagði ég frá því í þessari færslu þegar Jóhanna Inga fór á matreiðslunámskeið með vinkonum sínum. Í ár var hún afar spennt að fara aftur á námskeiðið og lauk því í síðustu viku. Jóhanna var alveg jafn ánægð með námskeiðið eins og í fyrra og hefði gjarnan viljað vera lengur. Krakkarnir fá að vinna alveg sjálfstætt, þau gera daglega marga rétti úr vönduðu hráefni og fara eftir góðum uppskriftum.

JIE

Nokkrir girnilegir réttir sem Jóhanna Inga matreiddi

IMG_0740

Vinkonurnar Jóhanna Inga og Hrefna Rós að loknu matreiðslunámskeiði.

Í fyrra valdi fjölskyldan þessa berjaböku sem einn besta réttinn sem Jóhanna Inga gerði á námskeiðinu það sumarið. Í ár gerði Jóhanna Inga afar margt gott, meðal annars fiskrétt, mexíkóskan rétt, brauðbollur og fleira en við völdum smákökurnar sem hún bakaði, þær eru í anda vinsælu Subway smákakanna. Ofsalega góðar kökur og Jóhanna Inga segir að þær séu auðvelt að baka. 🙂

IMG_0479

Uppskrift:

  • 150 g smjör (mjúkt)
  • 2 1/3 dl púðursykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 pakki Royal búðingsduft – vanillu eða karamellu
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 egg
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 150 g súkkulaðidropar eða M&M

Stillið ofninn á 180 gráður undir- og yfirhita. Hrærið vel saman smjöri, púðursykri, sykri, búðingsdufti og vanilludropum í hrærivél eða með rafmagnsþeytara. Bætið eggjum út í, einu í senn og hrærið vel á milli. Bætið hveitinu og matarsódanum út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið að lokum súkkulaðidropunum eða M&M sælgætinu saman við með sleif. Búið til frekar stórar kökur með matskeið og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið í 12-17 mínútur (minni kökur 8-10 mínútur). Varist að baka kökurnar lengi, þær eiga að vera seigar en ekki stökkar.

Subway smákökur