Risa smákaka með Toblerone og Dumle karamellum


IMG_0523 IMG_0543Nú er að renna upp vetrarfrí sem er afar ljúft, sérstaklega þar sem við öll fjölskyldan verðum aldrei þessu vant öll í fríi. Ég er nokkuð viss um að það munu einhverjar kökur renna úr ofninum á þessum komandi frídögum. Um daginn gerði ég þessa risasmáköku sem sló ekkert smávegis í gegn, hún er eiginlega hættulega góð! Syninum fannst þetta eins sú besta kaka sem hann hafði smakkað og ef hann fær að ráða verður þetta kaka vetrarfrísins í ár! 🙂 Ég mæli sannarlega með þessari, hún er afskaplega fljótleg í bakstri og hrikalega góð.

IMG_0547

Uppskrift:

  • 180 g smjör, við stofuhita
  • 1 ½ dl púðursykur
  • 1 ½ dl sykur
  • 1 egg
  • 1 dl haframjöl
  •  3 ½  dl hveiti
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • 2 tsk vanillusykur
  • örlítið salt
  • 200 g Toblerone, saxað meðalgróft
  • 120 g Dumle karamellur, skornar í litla bita
  • 1 dl pekan- eða valhnetur, grófsaxaðar

Ofan á:

  • nokkrir molar hvítt súkkulaði, brætt
  • nokkrir molar dökkt súkkulaði, brætt

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman. Þá er eggi bætt út í. Því næst er þurrefnunum hrært saman við og að lokum er Toblerone súkkulaði, Dumle karamellum og hnetum bætt út í. 22-24 cm bökunarform er klætt að innan með bökunarpappír og degið sett í formið, því þrýst jafnt út í alla kanta. Bakað neðarlega í ofni í 30-35 mínútur eða þar til kakan hefur tekið fallegan lit. Bræddu hvítu og dökku súkkulaði er dreift yfir kökuna eftir að hún kemur úr ofninum. Gott er að bera fram kökuna volga með vanilluís en hún er ekki síðri köld. 

IMG_0540IMG_0541

Kjúklingalasagna með rjómaosti og brokkolí


IMG_0486Upp á síðkastið hefur bloggið lent aftarlega á forgangslistanum þar sem að líður senn að því að við fáum afhent húsið sem við keyptum síðastliðið sumar. Við erum að skipuleggja miklar breytingar á húsinu og ég er að dunda mér á kvöldin við að teikna upp eldhús, baðherbergi, innréttingar og fleira. Ég er sérstaklega spennt fyrir eldhúsinu en þetta er í annað sinn á ævinni sem ég fæ tækifæri til að skipuleggja eldhús eftir eigin höfði og að þessu sinni tel ég mig algjörlega vera búin að komast að að því hvernig ég vil hafa eldhúsið mitt. Ég mun örugglega deila hér með mér fyrir og eftir myndum því mér finnst sjálfri svo gaman að skoða svoleiðis myndir. 🙂

Um síðastliðna helgi eldaði ég fyrir stórfjölskylduna og gerði einfalt en gott kjúklingalasagna sem er svo gott og þægilegt að gera fyrir marga. Ég mæli með því fyrir næsta matarboð eða bara til að hafa í matinn á morgun!

Uppskrift: 

  • ca. 800g kjúklingabringur eða lundir, skorin í bita
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, saxaður smátt
  • 1 brokkolíhaus (ca. 300 g), skorin í bita
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 2 bréf taco krydd (40 g pokinn)
  • 2/3 dl vatn
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18% – 180g)
  • 200 g rjómaostur
  • smá mjólk við þörfum
  • lasagna plötur
  • 200 g rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur steiktur í stutta stund á pönnu upp úr olíu og/eða smjöri. Kjúklingi bætt út á pönnuna ásamt brokkolí og papriku og steikt í nokkrar mínútur. Þá er tacokryddi bætt út í og síðan vatninu. Því næst er rjómaosti og sýrðum rjóma bætt út í og leyft að malla í smá stund. Ef með þarf er smá mjólk bætt út í. Þá er hluta af kjúklingablöndunni sett í eldfast mót, lasagnaplötum raðað yfir. Endurtekið tvisvar og endað á að dreifa rifnum osti yfir. Bakað í ofni í um það bil 25-30 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

IMG_0498