Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti


IMG_5280

Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂

IMG_5271

Uppskrift f. 5:

  • 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
  • 700 g Biffi Napoletana sósa
  • 750 g ferskur aspas
  • 80 g smjör
  • 50 g ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
  • Sítrónusafi
  • Parmesan ostur
  • Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)

Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.

IMG_5273

Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.

IMG_5281

Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

  • 300 g tagliatelle
  • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • 2 msk rautt pestó
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • 1 msk þurrkað oregano
  • salt og pipar
  • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Lasagna í uppáhaldi


IMG_3517Ég er með nokkrar uppskriftir að lasagna hér á síðunni en ég hef enn ekki sett inn uppskriftina sem ég nota yfirleitt. Venjulega hefur maður ekkert of mikinn tíma til að elda kvöldmat og mörgum finnst lasagna tímafrekur réttur. Þessa útgáfu nota ég hvað oftast en hún er rosalega fljótleg en að sama skapi afar vinsæl á þessu heimili. Lykilatriðin í uppskriftinni eru kryddin eða það finnst mér allavega, mér finnst afar gott að hafa lasagna vel kryddað. Galdurinn á bakvið hversu fljótlegt það er, er að rjómaostasósan er sáraeinföld en voðalega góð og svo þarf ekkert að skera niður fyrir réttinn. Ef þið setjið það fyrir ykkur að það sé tímafrekt að gera lasagna þá hvet ég ykkur til að prófa þessa uppskrift.

IMG_3506

Athugið að þetta er stór uppskrift, hún passar í tvö meðalstór eldföst mót. En það er stórsniðugt að búa til lasagna í tvö form og frysta annað þeirra (ég frysti það óeldað). Framtíðar-þið eigið eftir að þakka fortíðar-ykkur þegar þið takið lasagnaformið út úr frysti að morgni og getið gætt ykkur á gómsætu lasagna í kvöldmatinn, fyrirhafnarlaust! 🙂

Uppskrift (ath! Passar í tvö meðalstór eldföst mót):

Kjötsósa:

  • 1 kiló nautahakk
  • 4 dósir niðursoðnir tómatar, ca. 400 g (ég nota yfirleitt mismunandi bragðbætta tómata, t.d. með hvítlauk, chili og basiliku)
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldum
  • 1 tsk basiliku krydd
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1/2 tsk hvítlaukskrydd (t.d ítalskt hvítlaukskrydd frá Pottagöldrum)
  • salt og pipar
  • lasagna plötur
  • 370 g rifinn ostur

Ostasósa: 

  • 400 g rjómaostur
  • 2-3 dl mjólk
  • 1 askja rifinn piparostur (100 g), hægt að nota venjulegan rifinn ost
  • salt og pipar

Aðferð

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið steikt á pönnu og kryddað. Tómötum í dós bætt út í og látið malla á meðan ostasósan er útbúin. Rjómaosturinn látin bráðna í potti við meðalhita. Mjólk, rifnum piparosti og kryddum hrært út í.

Lasagna sett saman: Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti. Því næst er lasagna plötum raðað yfir og svo er kjötsósunni dreift yfir lasagnaplöturnar. Endurtekið á meðan hráefni endast. Endað á ostasósunni og að lokum er rifnum osti dreift yfir.

Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Berið fram með góðu brauði og salati.

IMG_3503IMG_3519

 

Kjúklingalasagna með rjómaosti og brokkolí


IMG_0486Upp á síðkastið hefur bloggið lent aftarlega á forgangslistanum þar sem að líður senn að því að við fáum afhent húsið sem við keyptum síðastliðið sumar. Við erum að skipuleggja miklar breytingar á húsinu og ég er að dunda mér á kvöldin við að teikna upp eldhús, baðherbergi, innréttingar og fleira. Ég er sérstaklega spennt fyrir eldhúsinu en þetta er í annað sinn á ævinni sem ég fæ tækifæri til að skipuleggja eldhús eftir eigin höfði og að þessu sinni tel ég mig algjörlega vera búin að komast að að því hvernig ég vil hafa eldhúsið mitt. Ég mun örugglega deila hér með mér fyrir og eftir myndum því mér finnst sjálfri svo gaman að skoða svoleiðis myndir. 🙂

Um síðastliðna helgi eldaði ég fyrir stórfjölskylduna og gerði einfalt en gott kjúklingalasagna sem er svo gott og þægilegt að gera fyrir marga. Ég mæli með því fyrir næsta matarboð eða bara til að hafa í matinn á morgun!

Uppskrift: 

  • ca. 800g kjúklingabringur eða lundir, skorin í bita
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, saxaður smátt
  • 1 brokkolíhaus (ca. 300 g), skorin í bita
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 2 bréf taco krydd (40 g pokinn)
  • 2/3 dl vatn
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18% – 180g)
  • 200 g rjómaostur
  • smá mjólk við þörfum
  • lasagna plötur
  • 200 g rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur steiktur í stutta stund á pönnu upp úr olíu og/eða smjöri. Kjúklingi bætt út á pönnuna ásamt brokkolí og papriku og steikt í nokkrar mínútur. Þá er tacokryddi bætt út í og síðan vatninu. Því næst er rjómaosti og sýrðum rjóma bætt út í og leyft að malla í smá stund. Ef með þarf er smá mjólk bætt út í. Þá er hluta af kjúklingablöndunni sett í eldfast mót, lasagnaplötum raðað yfir. Endurtekið tvisvar og endað á að dreifa rifnum osti yfir. Bakað í ofni í um það bil 25-30 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

IMG_0498

Tómatsúpa með tortellini og mozzarella


IMG_0164

Ég hef áður fjallað hér á síðunni um fyrirtækið Eldum rétt sem er með frábærlega sniðuga þjónustu. Fyrirtækið býður upp á matarpakka þar sem maður fær sent heim hráefni og uppskriftir fyrir kvöldmáltíðir vikunnar. Í næstu viku verða Eldum Rétt með þrjá nýja rétti sem byggðir eru á vinsælum uppskriftum af Eldhússögum.

lax

Lax með pekanhnetusalsa, blómkálsmús og chili-smjörsósu

bollur

Epla og beikon kjötbollur  með ofnbökuðum kartöflum og fetaostasósu

kjúlli

Ítalskur parmesan kjúklingur með hrísgrjónum og salati

Þetta er frábær leið til að gera matargerðina einfalda. Þið leggið einfaldlega inn pöntun og fáið sent heim brakandi ferskt hráefni sem passar nákvæmlega fyrir uppskriftirnar þrjár. Matargerðin verður leikur einn, engar innkaupaferðir og spurningin „hvað á ég að hafa í matinn?“ heyrir sögunni til. Ég hvet ykkur til að prófa – pöntunarfrestur rennur út á miðnætti í kvöld! 🙂

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift að súpu sem er afar vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Eftir að við fjölskyldan fórum í frábæra ferð til Toskana á Ítalíu í sumar er ég ekki frá því að mozzarella, tómatar og basilika séu orðin ein aðaluppistaðan í matargerðinni á heimilinu. Í þessari súpu sameinast allt sem okkur fjölskyldunni finnst gott og það er alltaf einstaklega gaman að geta boðið upp á kvöldmat sem hugnast öllum jafnvel, bæði börnum og fullorðnum.  Ekki er verra hversu fljótgerð þessi súpa er, það er stór kostur í amstri hversdagsleikans. Mozzarella osturinn og basilolían setja punktinn yfir i-ið og hver súpuskeið færir okkur tilbaka til sólríkra sumardaga á Ítalíu þrátt fyrir að haustið bíði handan við hornið.

IMG_0167

Uppskrift: 

  • 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 180 g grilluð paprika í olíu, söxuð smátt
  • 2 msk ólífuolía til steikingar
  • 1 msk balsamedik
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar, bragðbættir með basiliku, hvítlauk og oregano (ca 400 g dósin)
  • 1 l kjúklingasoð (1 l sjóðandi vatn + 2 msk kjúklingakraftur eða 2 teningar)
  • 2 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk basilika
  • chili krydd eða flögur
  • salt og pipar
  • 250 g tortellini
  • 120 g ferskur mozzarella, skorin í litla bita

Basilolía:

  • 30 g fersk basilika
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti. Laukur, hvítlaukur og grilluð paprika steikt við meðalhita í 3-4 mínútur þar til mjúkt. Þá er balsamediki, niðursoðnum tómötum, kjúklingasoði og rjóma bætt út í ásamt kryddi. Þegar súpan nær suðu er tortellini bætt út í og látið malla þar til tortellini er passlega soðið. Undir lokin er nokkrum smátt söxuðum basiliku laufum bætt út í og súpan smökkuð til með kryddum við þörfum. Súpan er borin fram með ferskum mozzarella og basilolíu.

Basilolía: Afganginum af fersku basilikunni er maukað saman við ólífuolíuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota, smakkað til með salti og pipar. IMG_0166 IMG_0163

Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

  • 800 g tómatar
  • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • ca. 2/3 dl ólífuolía
  • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
  • grófmalaður svartur pipar
  • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
  • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
  • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • 2-3 dl rjómi
  • 700 g kjúklingalundir
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
  • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Kjúklingalasagna með mozzarella, basiliku og tómötum


KJúklingalasagna með mozzarella, basilku og tómötumÍ gær fór ég í óvissuferð með frábærum vinnufélögum. Við fórum meðal annars í bjórsmökkun hjá Ölvisholti – brugghúsi. Ég drekk almennt ekki bjór en það vakti athygli mína þegar eigandinn kom inn á allskonar mataruppskriftir þar sem bjór kemur til sögunnar. Ég fékk nánari útfærslu hjá honum ætla að prófa þá uppskrift innan skamms og ef vel til tekst þá ratar hún hingað inn á bloggið.

Í dag erum við fjölskyldan eiginlega bara búin að liggja í leti, svoleiðis dagar eru nauðsynlegir öðru hvoru. Reyndar kallast það kannski ekki að liggja í leti að hafa farið í gegnum bílskúrinn og hent rusli í Sorpu, eldað mat, lagað til og þvegið þvott! 🙂 Þetta er samt búinn að vera rólegri dagur en flestir og Elfar meira að segja í fríi. Þessi gómsæti kjúklingaréttur er á dagskránni fyrir kvöldið. Lasagna er einn af mínum uppáhaldsréttum. Hér prófaði ég mig áfram með að gera lasagna úr kjúklingi og mikið var ég ánægð með dásamlegu góðu útkomuna! Ekki nóg með að þetta sé frábærlega gott lasagna heldur er það einstaklega fljótlegt að útbúa sem er mikill kostur. Þetta er tilvalinn réttur til að bjóða upp á í matarboði; gómsætur, drjúgur, hægt að útbúa með fyrirvara og bragð sem öllum líkar. IMG_7256

Kjúklingalasagna f. 5:

  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingabringur frá Rose Poultry, skorin í litla bita
  • Falksalt með hvítlauk
  • svartur grófmalaður pipar
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • chili flögur (t.d chili explosion) eftir smekk
  • 2 tsk kjúklingakraftur frá Oscars
  • smjör og/eða olía til steikingar – ég notaði Filippo Berio með basilikubragði
  • 1 box Philadelphia ostur – natural (200 g)
  • 1 dós Hunt’s pastasósa með hvítlauk og lauk (414 ml)
  • ca. 6-8 lasagnaplötur
  • ca. 2 1/2 dl rifinn parmesan
  • ca. 12 kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • fersk basilika, ca 30 g
  • 1 mozzarellaostur (125 g – kúlan í pokunum), skorinn í þunnar sneiðar

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur, þá er hvítlauknum bætt á pönnuna og hann steiktur með lauknum í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnuna, kryddað með salti, pipar, oregano, basilku og chili auk þess sem kjúklingakraftinum er bætt út í. Þegar kjúklingurinn hefur ná góðri steikingarhúð er rjómaostinum bætt út á pönnuna og hann látin bráðna við meðalhita. Þá er helmingnum af pastasósunni dreift á botninn á eldföstu móti. Því næst er sósan þakin með lasagnaplötum. Þá er helmingnum af kjúklingnum dreift yfir lasagnaplöturnar. Nú er helmingnum af parmesan ostinum dreift yfir kjúklinginn. Restinni af pastasósunni er því næst dreift yfir, þá einu lagi af lasagnaplötum, svo kjúklingnum. Því næst er basilikublöðunum dreift yfir ásamt kokteiltómötunum. Að lokum er restinni af parmesan ostinum dreift yfir og mozzarellasneiðunum raðað yfir. Gott er að krydda örlítið með basiliku kryddi í lokin. Hitað í ofni við 200 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að lasagna er eldað í gegn og osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati og góðu brauði.

IMG_7227IMG_7234IMG_7238IMG_7260

Kjúklinganúðlur í Hoisin sósu


IMG_6667Það er gaman að segja frá því að um þessar mundir er að detta inn í matvöruverslanir veglegur bæklingur með kjúklingauppskriftum sem ég vann fyrir Rose Poultry kjúklinginn góða. Í bæklingnum eru fjölmargar einfaldar og ljúffengar kjúklingauppskriftir og verður bæklingurinn ókeypis. Ég mæli með því að þið svipist um eftir Rose Poultry kjúklingnum í frystinum í næstu búðarferðum og grípið með ykkur þennan uppskriftabækling í leiðinni. Bæklinginn er oftast nær að finna nálægt Hunts grillsósunum en svo getið þið líka náð í hann rafrænt hér! Það er dálítið misjafnt hvaða tegundir af Rose Poultry kjúklingi fæst í hvaða búðum, þ.e. bringur, úrbeinuð læri eða lundir, en í uppskriftun í bæklingnum er alltaf hægt að nota hvaða kjúklingahluta sem er. Núna er ég með dálítið æði fyrir kjúklingalundunum, þær eru svo ofsalega mjúkar og góðar. Ég varð því mjög glöð þegar ég sá að verslunin Iceland er með Rose lundirnar til sölu því þær fást ekki alltaf í öðrum verslunum. 20140522-165140 Eins og þeir vita sem fylgjast reglulega með Eldhússögum þá nota ég mikið Green Gate matarstellið og finnst það óendanlega fallegt! Í bæklingnum sést í fjölmargar tegundir af Green gate matarstellinu en slóðin á verslunina er ekki alveg rétt í bæklingnum, hún er Cupcompany.is en ekki .com í lokin eins og gefið er upp. Ég fer einmitt reglulega þangað inn og dáist að nýjasta stellinu sem er blúndustell! Það heitir Lace warm gray og er klárlega efst á óskalista mínum um þessar mundir! 🙂 Í tilefni af útkomu bæklingsins þá ætla ég að setja hér inn eina uppskrift úr honum. Þetta er ofureinfaldur kjúklingaréttur með núðlum en ó svo góður! Það er svo langt síðan að ég gerði uppskriftirnar fyrir þennan bækling að ég var búin að steingleyma þessum rétti þar til að ég sá hann núna í nýprentuðum bæklingnum. Ég var því mjög spennt að búa hann til aftur í kvöld og rifja upp hvort að hann væri jafn góður og okkur fjölskylduna minnti – sem hann var. Kjúklingur, núðlur og wokgrænmeti finnst mér alltaf svo gott saman en þá verður allt þetta þrennt að vera bundið saman með góðri asískri sósu. Í þessari uppskrift er sósan mjög einföld en að sama skapi afskaplega góð. Þessi réttur er mjög fljótlegur að útbúa, sem er alltaf kostur í dagsins önn, en líka einstaklega bragðgóður. Kjúklingalundirnar eru fljótar að þiðna. Stundum tek ég þær úr frystinum rétt fyrir matargerð, set þær í örbylgjuofn á lægstu stillinguna í örstutta stund til þess að taka mesta frostið úr þeim, sker þær svo niður hálffrosnar og þá þiðna þær á afar skömmum tíma. IMG_6668 Kjúklinganúður í Hoisin sósu f. 3-4

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • ólífuolía til steikingar
  • saltflögur (Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, saxað
  • 1.5 dl hoisin sósa frá Blue Dragon
  • 2 dl chili sósa frá Heinz
  • 1/2 dl hunang
  • 2 msk ferskt engifer, rifið
  • 300 g medium egg noodles frá Blue Dragon
  • 500 g frosið wok grænmeti

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Hoisin sósa, chili sósa, hunang, engifer og kóríander er hrært saman í skál. Kjúklingurinn er því næst steiktur á pönnu upp úr ólífuolíu þar til hann hefur náð góðum lit. Þá er sósunni hellt á pönnuna og látið malla við vægan hita. Þegar kjúklingurinn er hér um bil eldaður í gegn er wokgrænmetinu bætt á pönnuna og látið malla þar til grænmetið og kjúklingurinn er tilbúið. Á meðan eru núðlurnar soðnar örlítið styttra en leiðbeiningar segja til um, ef uppgefinn tími er 4 mínútur passar að elda þær í 3 – 3 ½ mínútur (eldunin á þeim klárast þegar þær fara á pönnuna). Að lokum er núðlunum bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman við meðalhita. Rétturinn er borinn strax fram þá er gott að strá yfir hann fersku kóríander. IMG_6664

Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Beikonpasta


IMG_7892

Við vorum svo ánægð með pastaréttinn sem ég eldaði um daginn að ég ákvað að endurtaka leikinn og prófa mig áfram með enn einfaldari pastarétt. Ég átti smá dreitil afgangs af rauðvíni sem mig langaði líka að koma út og það líka svona smellpassaði við þennan pastarétt. Kosturinn við pastarétti er að það er hægt að galdra fram ótrúlega góða slíka rétti úr fáum og einföldum hráefnum. Til dæmis lætur þessi hráefnalisti hér að neðan lítið yfir sér en úr honum varð þessi dýrindis pastaréttur. Ósk var meira að segja á því að þetta væri mögulega einn sá besti pastaréttur sem hún hefur smakkað! Það er reyndar ekki hægt að neita því að það er varla hægt að klúðra rétti sem í er hálft kíló af beikoni, sá réttur hlýtur alltaf að verða góður! 🙂

Uppskrift:

  • 500 g pasta
  • 500 g extra þykkt beikon (ég notaði frá Ali), skorið í bita
  • 3 tsk ólífuolía
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 tsk chili krydd
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 2 öskjur kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða ca. 4-5 vel þroskaðir tómatar skornir í litla bita)
  • 2/3 dl rauðvín
  • fersk basilika (ég átti hana ekki til og notaði þurrkaða basiliku ásamt ferskri steinselju)
  • 1,5 dl parmesan ostur, rifinn
  • klettasalat
  • salt & pipar

IMG_7888

Pasta soðið eftir leiðbeiningum.
Beikon steikt þar til það er orðið dökkt og stökkt. Þá er það veitt upp úr pönnunni með gataspaða og lagt ofan á eldhúspappír til að láta mestu fituna renna af. Ca. 3/4 af fitunni af pönnunni hellt af og ólífuolíunni, lauk og chili bætt út á pönnuna. Laukurinn steiktur þar til hann er orðin mjúkur og glær. Þá er hvítlauknum bætt út í og hann steiktur í stutta stund. Því næst er tómötum ásamt basiliku bætt út í og sósan látin malla í ca. 5 mínútur. Að síðustu er rauðvíninu bætt út í, sósan látin ná suðu og er henni leyft að malla við meðalhita nokkrar mínútur. Sósan er smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef með þarf. Að lokum sósunni blandað saman við rifinn parmesan ost, klettasalat, beikon og sjóðandi heitt pasta. Öllu blandað vel saman og borið fram með góðu brauði. Svona lagði Jóhanna Inga skemmtilega á borðið! 🙂

IMG_7894