Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

  • 300 g tagliatelle
  • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • 2 msk rautt pestó
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • 1 msk þurrkað oregano
  • salt og pipar
  • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

  • 800 g tómatar
  • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • ca. 2/3 dl ólífuolía
  • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
  • grófmalaður svartur pipar
  • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
  • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
  • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • 2-3 dl rjómi
  • 700 g kjúklingalundir
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
  • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Beikonpasta


IMG_7892

Við vorum svo ánægð með pastaréttinn sem ég eldaði um daginn að ég ákvað að endurtaka leikinn og prófa mig áfram með enn einfaldari pastarétt. Ég átti smá dreitil afgangs af rauðvíni sem mig langaði líka að koma út og það líka svona smellpassaði við þennan pastarétt. Kosturinn við pastarétti er að það er hægt að galdra fram ótrúlega góða slíka rétti úr fáum og einföldum hráefnum. Til dæmis lætur þessi hráefnalisti hér að neðan lítið yfir sér en úr honum varð þessi dýrindis pastaréttur. Ósk var meira að segja á því að þetta væri mögulega einn sá besti pastaréttur sem hún hefur smakkað! Það er reyndar ekki hægt að neita því að það er varla hægt að klúðra rétti sem í er hálft kíló af beikoni, sá réttur hlýtur alltaf að verða góður! 🙂

Uppskrift:

  • 500 g pasta
  • 500 g extra þykkt beikon (ég notaði frá Ali), skorið í bita
  • 3 tsk ólífuolía
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 tsk chili krydd
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 2 öskjur kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða ca. 4-5 vel þroskaðir tómatar skornir í litla bita)
  • 2/3 dl rauðvín
  • fersk basilika (ég átti hana ekki til og notaði þurrkaða basiliku ásamt ferskri steinselju)
  • 1,5 dl parmesan ostur, rifinn
  • klettasalat
  • salt & pipar

IMG_7888

Pasta soðið eftir leiðbeiningum.
Beikon steikt þar til það er orðið dökkt og stökkt. Þá er það veitt upp úr pönnunni með gataspaða og lagt ofan á eldhúspappír til að láta mestu fituna renna af. Ca. 3/4 af fitunni af pönnunni hellt af og ólífuolíunni, lauk og chili bætt út á pönnuna. Laukurinn steiktur þar til hann er orðin mjúkur og glær. Þá er hvítlauknum bætt út í og hann steiktur í stutta stund. Því næst er tómötum ásamt basiliku bætt út í og sósan látin malla í ca. 5 mínútur. Að síðustu er rauðvíninu bætt út í, sósan látin ná suðu og er henni leyft að malla við meðalhita nokkrar mínútur. Sósan er smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef með þarf. Að lokum sósunni blandað saman við rifinn parmesan ost, klettasalat, beikon og sjóðandi heitt pasta. Öllu blandað vel saman og borið fram með góðu brauði. Svona lagði Jóhanna Inga skemmtilega á borðið! 🙂

IMG_7894

Pepperóni pasta


Ein af ástæðunum fyrir því að ég opnaði þetta matarblogg var sú að ég vildi safna uppskriftunum mínum á einn aðgengilegan stað. Alexander ætlar að flytja að heiman á næsta ári og hann hefur oft talað um að þá þurfi hann að fá uppskriftir af hinum og þessum réttum sem ég geri. Núna þarf hann ekkert nema nettengingu til þess að ná í þessar uppskriftir! 🙂 Þessi uppskrift er sérstaklega sett inn fyrir hann en þessi réttur hefur verið hans uppáhalds síðan hann var lítill. Öllum hinum í fjölskyldunni finnst þessi pastaréttur afar góður líka og yngri börnin borða alltaf vel af þessum rétti.

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr pasta, soðið eftir leiðbeiningum
  • 1 ½ áleggsbréf af pepperóní
  • 250 gr sveppir
  • 2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar, gott að nota þessa bragðbættu, t.d. með basiliku.
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 msk tómatsósa
  • 1 peli rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk basilika
  • 1 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • ólifuolía til steikingar

Aðferð:

Sveppir sneiddir frekar gróft og steiktir á pönnu ásamt kjötkrafti. Pepperóni skorið í bita og bætt út í. Niðursoðnum tómötum ásamt tómatpúrru og tómatsósu bætt við og kryddað með oregano, basiliku, salti og pipar. Að lokum er rjóma og mjólk bætt við. Sósunni leyft að malla í dálitla stund, því lengur sem hún fær að malla því betri verður hún en fyrir þá sem eru í tímaþröng þá duga 10 mínútur, á meðan er pasta soðið. Ef sósan verður of þykk þá er hægt að þynna hana með meiri mjólk. Sósan er svo smökkuð til og krydduð meira við þörfum, því næst blandað saman við pastað. Borið fram með salati og góðu brauði.