Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.
En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!
Uppskrift:
- 500 g tagliatelle pasta
- 500 g kjúklingabringur
- 2 tsk cajun krydd
- 1 msk olía
- 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
- 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
- 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
- 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
- 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
- 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 2 stórir tómatar, skornir í teninga
- 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
- 80 g mjólk
- 1 msk hveiti
- 3 msk rjómaostur
- grófmalaður svartur pipar og salt
Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!