Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Pepperóni pasta


Ein af ástæðunum fyrir því að ég opnaði þetta matarblogg var sú að ég vildi safna uppskriftunum mínum á einn aðgengilegan stað. Alexander ætlar að flytja að heiman á næsta ári og hann hefur oft talað um að þá þurfi hann að fá uppskriftir af hinum og þessum réttum sem ég geri. Núna þarf hann ekkert nema nettengingu til þess að ná í þessar uppskriftir! 🙂 Þessi uppskrift er sérstaklega sett inn fyrir hann en þessi réttur hefur verið hans uppáhalds síðan hann var lítill. Öllum hinum í fjölskyldunni finnst þessi pastaréttur afar góður líka og yngri börnin borða alltaf vel af þessum rétti.

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr pasta, soðið eftir leiðbeiningum
  • 1 ½ áleggsbréf af pepperóní
  • 250 gr sveppir
  • 2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar, gott að nota þessa bragðbættu, t.d. með basiliku.
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 msk tómatsósa
  • 1 peli rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk basilika
  • 1 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • ólifuolía til steikingar

Aðferð:

Sveppir sneiddir frekar gróft og steiktir á pönnu ásamt kjötkrafti. Pepperóni skorið í bita og bætt út í. Niðursoðnum tómötum ásamt tómatpúrru og tómatsósu bætt við og kryddað með oregano, basiliku, salti og pipar. Að lokum er rjóma og mjólk bætt við. Sósunni leyft að malla í dálitla stund, því lengur sem hún fær að malla því betri verður hún en fyrir þá sem eru í tímaþröng þá duga 10 mínútur, á meðan er pasta soðið. Ef sósan verður of þykk þá er hægt að þynna hana með meiri mjólk. Sósan er svo smökkuð til og krydduð meira við þörfum, því næst blandað saman við pastað. Borið fram með salati og góðu brauði.

Pasta með ricotta- og spínatsósu


Ég er mjög hrifin af ítölskum mat og matarmenningu. Á ferðalögum erlendis heimsækjum við alltaf allavega einn ítalskan veitingastað. Mig dreymir um að fara í menningar-, matar-, og vínferð til Ítalíu en þangað hef ég enn ekki komið. Þar til sá draumur rætist æfi ég mig í eldhúsinu og reyni við ítölsku stemmninguna! 🙂 Hér er einn góður pastaréttur:

Spínat- og ricotta sósa

  • 2 msk smjör
  • ca 300 gr spínat
  • 200 gr ricotta ostur
  • 2 dl rjómi
  • 1 tsk múskat
  • 12 koteiltómatar, skornir í tvennt.
  • 200 gr sveppir, sneiddir
  • salt og pipar

Pasta og með því

  •  pasta, soðið eftir leiðbeiningum (ég notaði ferskt pasta)
  • parmaskinka eða önnur góð skinka
  • ferskur parmesan, rifinn
  • nýmalaður svartur pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum. Hreinsið spínatið og hristið af vatnið. Steikið sveppi í smjöri, kryddið með salti og pipar, takið sveppina til hliðar. Grófsaxið spínatið og snöggsteikið í djúpri pönnu eða potti . Hrærið saman ricotta og rjóma og blandið út í spínatið. Látið sósuna malla í nokkrar mínútur og bætið við tómötum og sveppunum. Kryddið með múskati, salti og pipar.

Blandið sósunni saman við pastað og berið fram með skinkunni og rifnum parmesan. Bætið við ferskmöluðum pipar eftir smekk. Berið fram með góðu brauði.