Sítrónubaka með marengs


Sítrónubaka með marengsMér finnst hinar ýmsu bökur (pæ) algjört hnossgæti og þar trónir eplabaka á toppnum. Mér finnst hins vegar líka allskonar sítrus eftirréttir góðir og ekki síst sítrusbökur. Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum hér á Eldhússögum er einmitt að slíkri böku, Key lime bökunni frægu, hér er linkur á þá uppskrift. Undanfarnar vikur hefur fylgt mér löngun á að gæða mér á ferskri sítrónuböku með marengs, ég veit ekki hvers vegna. Kannski er það vegna þess að Ítalíuferðin okkar alveg að bresta á og einhvern veginn finnst mér sítrónupæ minna mig á Ítalíu, ætli það séu ekki sítrónurnar, ég held til dæmis að flestir sem hafa komið til Ítalíu hafi smakkað á ítalska sítrónulíkjörnum, limonchello. Í gær var matarboð hjá foreldrum mínum og mér fannst upplagt að gera fjölskylduna að tilraunakanínum þegar ég prófaði mig áfram með sítrónubökuna í eftirrétt. Ég ákvað tvöfalda sítrónusultuna (lemon curd) og einnig þeytti ég fleiri eggjahvítur en þurfti fyrir bökuna. Þannig gat ég á einfaldan og fljótlegan hátt líka búið til Pavlovu með sítrónusultu, rjóma og berjum. Ólíkir eftirréttir en þó mikið til með sömu hráefnin. 11328799_10152962203577993_1632395666_n Mér fannst sítrónubakan ofboðslega góð, þetta fullkomna hlutfall milli þess sæta og súra gerir sítrónuböku að himneskum eftirrétti í mínum bókum. Ég held að fjölskyldan hafi verið sammála mér þó kannski ekki öll börnin, bakan er meira svona „fullorðins“eftirréttur. Það lítur kannski út fyrir að vera erfitt að búa þennan eftirrétt til en svo er alls ekki. Það þarf til dæmis ekki að sprauta marengsinum á bökuna, það er líka hægt að dreifa bara úr honum með sleikju. Bökuformið mitt er mjög stórt, 30 cm, ég ætla að gefa upp minni uppskrift sem passar í form sem eru ca. 24 cm, sem er algengari stærð.

Uppskrift (í ca. 24-26 cm bökurform):   Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 130 g smjör (kalt)
  • 3-4 msk kalt vatn

Sítrónusulta (lemon curd):

  • 2 dl sykur
  • 4 dl vatn
  • 2-3 sítrónur (fer eftir stærð og styrkleika)
  • 1 dl maísenamjöl
  • 4 eggjarauður
  • 20 g smjör

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur

IMG_8896 Botn: Ofn hitaður í 150 gráður við undir- og yfirhita. 24-26 cm bökuform smurt að innan. Hveiti, smjör og vatn (gæti þurft meira vatn en gefið er upp) er hnoðað saman í deig. Best er að gera það í höndunum og þá er gott að skera smjörið niður í litla bita og eins er gott að mynda holu í hveitið fyrir vatnið. Þegar deigið er orðið að góðum klumpi er því þrýst ofan í bökuform (deigið þarf ekki að hvíla áður). Fallegt er að láta deigið ná upp á kantana á forminu. Þá er notaður gaffall til að stinga götum á botninn hér og þar. Bakað í ofni við 150 gráður í 15 mínútur.

Á meðan er sítrónusultan útbúin: Sítrónurnar er þvegnar vel og því næst er safinn pressaður úr þeim. Sítrónuhýðið er þá rifið niður með fínu rifjárni, gætið þess að nota bara gula hlutann af hýðinu. Vatn, sykur og 2/3 hlutar af sítrónusafanum er sett í pott ásamt maísenamjöli og suðan látin koma upp, hrært í stöðugt á meðan. Blandan er smökkuð til og restinni af  sítrónusafanum er bætt út í eftir smekk. Þegar blandan er orðin hæfileg þykk er potturinn tekin af hellunni og blöndunni leyft að kólna dálítið. Því næst er eggjarauðum, rifna sítrónuhýðinu og smjöri bætt út í og suðan aftur látin koma upp, hrært í á meðan. Blöndunni er að lokum helt ofan á kaldan bökubotninn.

Marengs: eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Marengsinum er dreift yfir sítrónusultuna, annað hvort með spaða eða sprautað með sprautupoka. Að lokum er bakan sett inn í ofn við 175 gráður í 8-10 mínútur. Í lokin er fallegt að stilla ofninn á grill og leyfa marengsinum að brúnast passlega. Nauðsynlegt er þó að fylgjast stöðugt með bökunni þar sem marengsinn brúnast hratt. Vel er hægt að gera bökuna daginn áður en hún er borin fram og geyma hana í kæli. Gott er að bera bökuna fram með þeyttum rjóma eða vanilluís. IMG_8903 11311859_10152962204277993_1860247481_n