Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Sítrónubaka með marengs


Sítrónubaka með marengsMér finnst hinar ýmsu bökur (pæ) algjört hnossgæti og þar trónir eplabaka á toppnum. Mér finnst hins vegar líka allskonar sítrus eftirréttir góðir og ekki síst sítrusbökur. Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum hér á Eldhússögum er einmitt að slíkri böku, Key lime bökunni frægu, hér er linkur á þá uppskrift. Undanfarnar vikur hefur fylgt mér löngun á að gæða mér á ferskri sítrónuböku með marengs, ég veit ekki hvers vegna. Kannski er það vegna þess að Ítalíuferðin okkar alveg að bresta á og einhvern veginn finnst mér sítrónupæ minna mig á Ítalíu, ætli það séu ekki sítrónurnar, ég held til dæmis að flestir sem hafa komið til Ítalíu hafi smakkað á ítalska sítrónulíkjörnum, limonchello. Í gær var matarboð hjá foreldrum mínum og mér fannst upplagt að gera fjölskylduna að tilraunakanínum þegar ég prófaði mig áfram með sítrónubökuna í eftirrétt. Ég ákvað tvöfalda sítrónusultuna (lemon curd) og einnig þeytti ég fleiri eggjahvítur en þurfti fyrir bökuna. Þannig gat ég á einfaldan og fljótlegan hátt líka búið til Pavlovu með sítrónusultu, rjóma og berjum. Ólíkir eftirréttir en þó mikið til með sömu hráefnin. 11328799_10152962203577993_1632395666_n Mér fannst sítrónubakan ofboðslega góð, þetta fullkomna hlutfall milli þess sæta og súra gerir sítrónuböku að himneskum eftirrétti í mínum bókum. Ég held að fjölskyldan hafi verið sammála mér þó kannski ekki öll börnin, bakan er meira svona „fullorðins“eftirréttur. Það lítur kannski út fyrir að vera erfitt að búa þennan eftirrétt til en svo er alls ekki. Það þarf til dæmis ekki að sprauta marengsinum á bökuna, það er líka hægt að dreifa bara úr honum með sleikju. Bökuformið mitt er mjög stórt, 30 cm, ég ætla að gefa upp minni uppskrift sem passar í form sem eru ca. 24 cm, sem er algengari stærð.

Uppskrift (í ca. 24-26 cm bökurform):   Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 130 g smjör (kalt)
  • 3-4 msk kalt vatn

Sítrónusulta (lemon curd):

  • 2 dl sykur
  • 4 dl vatn
  • 2-3 sítrónur (fer eftir stærð og styrkleika)
  • 1 dl maísenamjöl
  • 4 eggjarauður
  • 20 g smjör

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur

IMG_8896 Botn: Ofn hitaður í 150 gráður við undir- og yfirhita. 24-26 cm bökuform smurt að innan. Hveiti, smjör og vatn (gæti þurft meira vatn en gefið er upp) er hnoðað saman í deig. Best er að gera það í höndunum og þá er gott að skera smjörið niður í litla bita og eins er gott að mynda holu í hveitið fyrir vatnið. Þegar deigið er orðið að góðum klumpi er því þrýst ofan í bökuform (deigið þarf ekki að hvíla áður). Fallegt er að láta deigið ná upp á kantana á forminu. Þá er notaður gaffall til að stinga götum á botninn hér og þar. Bakað í ofni við 150 gráður í 15 mínútur.

Á meðan er sítrónusultan útbúin: Sítrónurnar er þvegnar vel og því næst er safinn pressaður úr þeim. Sítrónuhýðið er þá rifið niður með fínu rifjárni, gætið þess að nota bara gula hlutann af hýðinu. Vatn, sykur og 2/3 hlutar af sítrónusafanum er sett í pott ásamt maísenamjöli og suðan látin koma upp, hrært í stöðugt á meðan. Blandan er smökkuð til og restinni af  sítrónusafanum er bætt út í eftir smekk. Þegar blandan er orðin hæfileg þykk er potturinn tekin af hellunni og blöndunni leyft að kólna dálítið. Því næst er eggjarauðum, rifna sítrónuhýðinu og smjöri bætt út í og suðan aftur látin koma upp, hrært í á meðan. Blöndunni er að lokum helt ofan á kaldan bökubotninn.

Marengs: eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Marengsinum er dreift yfir sítrónusultuna, annað hvort með spaða eða sprautað með sprautupoka. Að lokum er bakan sett inn í ofn við 175 gráður í 8-10 mínútur. Í lokin er fallegt að stilla ofninn á grill og leyfa marengsinum að brúnast passlega. Nauðsynlegt er þó að fylgjast stöðugt með bökunni þar sem marengsinn brúnast hratt. Vel er hægt að gera bökuna daginn áður en hún er borin fram og geyma hana í kæli. Gott er að bera bökuna fram með þeyttum rjóma eða vanilluís. IMG_8903 11311859_10152962204277993_1860247481_n

Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum


Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! 🙂

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! 🙂 Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! 🙂

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052

Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Pavlova í formi með lakkrískurli og súkkulaðirúsínum


IMG_6151Gleðilega hátíð! 🙂 Þessi 17. júní var ansi blautur og hráslagalegur en á þjóðhátíðardaginn fyrir tveimur árum var ég nýfarin að blogga og þá skrifaði ég þessa færslu. Sá þjóðhátíðardagur var það hlýr og góður að við gátum borðað kvöldmatinn úti en sumarið 2012 var reyndar óvenju þurrt og hlýtt. Í kvöld voru sem sagt engar aðstæður til þess að grilla eða borða úti en samt sem áður snæddum við afar ljúffenga máltíð sem ég ætla að setja hér inn á bloggið sem allra fyrst.

Um síðustu helgi var matarboð hjá foreldrum mínum þar sem við systkinin lögðum til nokkra rétti. Ég tók að mér eftirréttinn eins og oft áður, mér finnst ofsalega gaman að búa til eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni prófaði ég mig áfram með Pavlovu í formi. Það er rosalega þægilegt að gera Pavlovu í eldföstu móti, bæði fljótlegt og einfalt. Að þessu sinni setti ég allskonar gúmmelaði saman við réttinn sem kom afar vel út. Ég átti kassa með súkkulaðirúsínum og salthnetum og sá í hendi mér að það færi vel út í rjómann. Hins vegar er litla frænka mín með bráðaofnæmi fyrir salthnetum þannig að ég notaði bara súkkulaðirúsínurnar að sinni en ætla að prófa að hafa líka salthneturnar næst. Uppskriftin er stór en það er ekkert mál að helminga hana og nota þá minna eldfast mót.

IMG_6149

IMG_6152

Uppskrift (f. 8 – 10)

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik (t.d. borðedik eða hvítvínsedik)
  • 1 poki Nóa lakkrískurl (150 g)
  • 1/2 líter rjómi
  • 150 g Nóa og Siríus súkkulaðirúsínur
  • 1 pakki kókosbollur (4 stykki), skornar fremur smátt
  • 100 gr Siríus suðusúkkulaði + 1-2 msk rjómi eða mjólk
  • Ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, hindber, blæjuber, kíwi, vínber og ástaraldin

IMG_6125

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt ediki og salti. Að síðustu er lakkrískurlinu bætt út í. Marengsinn settur í eldfast mót (mótið sem ég notaði er ca. 35×25 cm.) og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu, þó ekki nauðsyn. Rjóminn er þeyttur, Siríus súkkulaðirúsínum er því næst bætt út í ásamt kókosbollunum og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn.

IMG_6129Skreytt með berjum og ávöxtum. Ég notaði jarðarber (2 box), bláber (1 box), blæjuber (1 box) og 2 ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt, mjólk eða rjóma blandað saman við til að þynna blönduna og súkkulaðinu dreift yfir berin og ávextina.

IMG_6135

IMG_6142IMG_6156

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431

 

Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum


Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum

Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.

vG+DBhSNTnSEuK0REuAUKAÉg er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt! Collages9 Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂

Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!

Uppskrift:

  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 7 dl rjómi
  • 2 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
  • ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.

IMG_3964

Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.

IMG_3962 Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.

IMG_3976 Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.

IMG_3978Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. IMG_3991IMG_4013

Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
  • 1 vanillustöng
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

  • 5 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 150 g Toblerone
  • 3 matarlímsblöð
  • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum


Einfaldur Snickerseftirréttur með perumÉg ætla að vera ákaflega snögg að setja inn þessa uppskrift – sem er nú reyndar létt verk því uppskriftin er afar einföld. Við hjónin erum nefnilega að drífa okkur í bíó í tilefni dagsins. Í dag eru einmitt 22 ár síðan við fórum á okkar fyrsta stefnumót en þá var 11/11 einmitt líka mánudagur og við fórum í bíó! Eftir þetta stefnumót var ekki aftur snúið og tveimur mánuðum seinna vorum við farin að búa saman! 🙂

En ef ég sný mér að uppskriftinni þá er hún að afar einföldum og góðum eftirrétti. Ég gef upp uppskrift með Snickersi og perum en eins og sjá má á myndunum þá er hægt að nota margt annað. Á myndinni hér nota ég Remi myntukex og apríkósur.

Ég prófaði reyndar líka litlu Lindubuffin en það er ekki nógu vel heppnað þar sem að þau verða of hörð, ég er alltaf hrifnust af því að nota Snickers eða Mars ásamt perum. Mikið er ég annars ánægð með nýju Kitchen aid hrærivélaskálina mína úr gleri! 🙂

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Uppskrift:

  • 500 ml rjómi
  • 1 pakki með 4 litlum Mars súkkulaðistykkjum (eða Snickers – annað gott súkkulaði)
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (eða apríkósur)
  • 1 marengsbotn (hvítur eða brúnn með púðursykri)

Perurnar eru þerraðar vel og skornar í litla bita, Snickersið er skorið í litla bita og marengsinn er mulinn niður. Rjóminn er þeyttur og öllu ofangreindu blandað út í rjómann. Hellt í eldfast mót og fryst. Tekinn út úr frysti um það bil klukkutíma áður en rétturinn er borinn fram. Rétturinn á að vera farinn að bráðna þannig að hann sé eins og mjúkur rjómaís.

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum