Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
  • 1 vanillustöng
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

  • 5 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 150 g Toblerone
  • 3 matarlímsblöð
  • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806

Súkkulaðipannacotta með karamellu


Súkkulaðipannacotta með karamellu

Síðastliðinn sunnudag komu foreldrar mínir í mat ásamt ömmu, afa og Ingu frænku. Ég gerði hægeldaða lambalærið. Klukkan ellefu um morguninn setti ég lærið inn í ofn ásamt kartöflum og grænmeti. Reyndar útbjó ég tvö læri, setti í sitt hvorn steikarpottinn og mamma stakk öðrum þeirra í ofninn hjá sér. Þetta er svo ótrúlega þægilegur matur til að bjóða gestum upp á. Lærið og meðlætið mallar bara í ofninum allan daginn og svo þarf ekkert að gera nema sósu og salat rétt áður en gestirnir koma, gæti hvorki verið einfaldra né betra.

En það sem ég ætlaði að færa hér inn í dag er uppskriftin að eftirréttinum sem ég bauð upp á þetta kvöld, Súkkulaðipannacotta með karamellu. Í honum eru einstaklega fá hráefni og hann tekur bara nokkrar mínútur að útbúa. Pannacotta er upprunninn frá Ítalíu og er nokkurskonar búðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Það er gott að bragðbæta pannacotta með til dæmis vanillu, súkkulaði, kaffi eða öðru. Þessi útgáfa er í miklu uppáhaldi hjá mér, Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini.

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini

Hér gerði ég hindberjapannacotta LKL-style, þ.e. með sætuefni í stað sykurs auk hindberjasósu.

Hindberjapannacotta

Að þessu sinni notaði ég Pipp súkkulaði með karamellu til þess að bragðbæta pannacotta. Ummæli gestanna lýsa best hvernig til tókst. Amma sagði einfaldlega að þetta væri besti eftirréttur sem hún hefði bragðað! Þá óskaði hún eftir því að ég hefði þennan rétt á aðfangadagskvöld. Ég hélt að amma væri nú bara að grínast því síðan ég man eftir mér hefur alltaf verið heimatilbúinn vanilluís hjá okkur á aðfangadagskvöldi! Amma var hins vegar ekkert að grínast og sagðist vilja fá þennan eftirrétt aftur sem fyrst. Allir voru sammála um að eftirrétturinn væri frábærlega góður en nokkrir lögðu fram lágvær mótmæli um að það ætti að breyta þessari áratugalöngu jólahefð. Þá var því slegið á föstu að þessi desert yrði í boði á gamlárskvöld. Amma hafði bara eina ósk um breytingu, að ég myndi ekki skammta svona nánasarlega á diskana næst, skammtinn mætti alveg tvöfalda! 🙂 Jóhanna Inga var þessu örugglega sammála því í lok máltíðar gekk hún á milli skála og náði sér í þær litlu dreggjar sem eftir voru. Sem sagt, einstaklega einfaldur en fyrst og fremst feykigóður eftirréttur. Stórfjölskyldan mælir með þessu, þá sér í lagi amma! 🙂IMG_1246

Uppskrift f. 4 (tvöfaldið ef þið bjóðið ömmu í mat! 😉 )

  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2 blöð matarlím
  • Skreytt með þeyttum rjóma og berjum

IMG_1212

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma og berjum. Einnig er gott að bera fram þeyttan rjóma aukalega með réttinum.

IMG_1250 IMG_1254

 

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin


Pannacotta er ljúffengur eftirréttur upprunninn frá Ítalíu. Þetta er nokkurskonar vanillubúðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Þetta er einfaldur eftirréttur, rjómi, sætuefni og vanilla er soðið saman ásamt matarlími og síðan kælt. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó eða kardimommu en hér nota ég hvítt súkkulaði. Þessi blanda, rjómi, ekta vanilla, hvítt súkkulaði og ástaraldin, gerir eftirréttinn skotheldan fyrir alla sælkera!

 Uppskrift f. 4

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 2 plötur matarlím
  • 4 ástaraldin (passion fruit)

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 3 klukkutíma. Áður en pannacottað er borið fram eru ástaraldinin skorin í tvennt, innvolsið skafið úr og dreift yfir.