Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum


Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum

Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.

vG+DBhSNTnSEuK0REuAUKAÉg er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt! Collages9 Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂

Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!

Uppskrift:

  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 7 dl rjómi
  • 2 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
  • ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.

IMG_3964

Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.

IMG_3962 Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.

IMG_3976 Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.

IMG_3978Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. IMG_3991IMG_4013

Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
  • 1 vanillustöng
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

  • 5 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 150 g Toblerone
  • 3 matarlímsblöð
  • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806

Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi


Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi

Þó svo að það hafi verið ákaflega kalt undanfarna daga þá verð ég að viðurkenna að snjórinn og kuldinn gerir allt svo mikið jólalegra en ella. Ég tók þessar myndir í vikunni fyrir utan húsið mitt eftir snjókomuna. Þó svo að ég hafi sett „dash“ af gervisnjó og glimmer á kransinn minn þá er enn fallegra þegar á hann snjóar ekta snjó.

IMG_1753Mikið vona ég að það snjói svona fallega á jólunum líka.

IMG_1769

Við fjölskyldan áttum saman ljúfan laugardag í dag sem byrjaði með jólatónleikum barnanna á vegum tónlistarskólans þeirra. Vilhjálmur spilaði flókið verk á píanó og Jóhanna var að spila á rafmagnsgítar á sínum fyrstu tónleikum. Þau stóðu sig ofsalega vel og við foreldrarnir vorum að vonum afar stolt. Því næst var jólatréð valið af kostgæfni en við þurftum að fara á nokkra staði áður en nægilega fallegt jólatré fannst. Þá tók við dálítið búðarráp sem endaði með notalegri stund á veitingastað og loks endað á ísbúð Vesturbæjar eftir góðan dag.

Ég hef sett inn nokkuð margar uppskriftir að eftirréttum hér á síðuna að undanförnu og nú bætist enn ein uppskriftin við. Mér finnst bara svo dæmalaust skemmtilegt að útbúa eftirrétti og ennþá skemmtilegra að borða þá! Pannacotta er einn einfaldasti og ljúffengasti eftirrétturinn sem hægt er að gera, afar fljótlegur og hægt að útbúa hann með fyrirvara sem er góður kostur fyrir matarboð. Um daginn þegar ég var með matarboð fyrir fjölskylduna bjó ég til súkkulaðipannacotta með karamellu sem ömmu fannst vera besti eftirréttur sem hún hafði bragðað. Í síðustu viku komu amma og afi aftur til okkar í mat og ég ákvað að gera aðra útfærslu af pannacotta – ekki vildi ég valda ömmu vonbrigðum! Það er einmitt svo sniðugt hversu margar útfærslur er hægt að gera af þessum rétti. Að þessu sinni notaði ég niðursoðna sætmjólk í stað sykurs hún gerði pannacottað dásamlega karamellukennt og bragðgott. Ofan á dreifði ég heimatilbúnum hnetumulningi með hnetum og kornflexi sem velt var upp úr bræddu súkkulaði, dæmalaust gott! Mér skilst að það sé ekki hægt að fá niðursoðna sætmjólk lengur í Kosti en hún ætti að fást í asískum matvöruverslunum og í Kolaportinu. Mögulega á fleiri stöðum – einhver sem veit?

IMG_1713

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós niðursoðin sætmjólk (sweetened condensed milk- ca. 350 g)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 2 blöð matarlím (3 blöð fyrir þá sem vilja stífari búðing)
  • skreytt með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í allavega fimm mínútur. Rjómi og sætmjólk sett í pott og látið ná suðu. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og því bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi.

IMG_1738

Súkkulaði-hnetumulningur:

  • 1/2 dl heslihnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl macadamia hnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl kornflex
  • 50 g suðusúkkulaði

IMG_1726

Hnetur saxaðar og kornflex mulið. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hnetum og kornflexi bætt út í. Blöndunni er dreift á bökunarpappír og sett í frysti í minnst hálftíma. Rétt áður en pannacotta er borið fram er súkkulaði-hnetumulningurinn tekinn úr frystinum og saxað niður í smærri bita. Dreift yfir pannacotta.

IMG_1728

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum


Einfaldur Snickerseftirréttur með perumÉg ætla að vera ákaflega snögg að setja inn þessa uppskrift – sem er nú reyndar létt verk því uppskriftin er afar einföld. Við hjónin erum nefnilega að drífa okkur í bíó í tilefni dagsins. Í dag eru einmitt 22 ár síðan við fórum á okkar fyrsta stefnumót en þá var 11/11 einmitt líka mánudagur og við fórum í bíó! Eftir þetta stefnumót var ekki aftur snúið og tveimur mánuðum seinna vorum við farin að búa saman! 🙂

En ef ég sný mér að uppskriftinni þá er hún að afar einföldum og góðum eftirrétti. Ég gef upp uppskrift með Snickersi og perum en eins og sjá má á myndunum þá er hægt að nota margt annað. Á myndinni hér nota ég Remi myntukex og apríkósur.

Ég prófaði reyndar líka litlu Lindubuffin en það er ekki nógu vel heppnað þar sem að þau verða of hörð, ég er alltaf hrifnust af því að nota Snickers eða Mars ásamt perum. Mikið er ég annars ánægð með nýju Kitchen aid hrærivélaskálina mína úr gleri! 🙂

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Uppskrift:

  • 500 ml rjómi
  • 1 pakki með 4 litlum Mars súkkulaðistykkjum (eða Snickers – annað gott súkkulaði)
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (eða apríkósur)
  • 1 marengsbotn (hvítur eða brúnn með púðursykri)

Perurnar eru þerraðar vel og skornar í litla bita, Snickersið er skorið í litla bita og marengsinn er mulinn niður. Rjóminn er þeyttur og öllu ofangreindu blandað út í rjómann. Hellt í eldfast mót og fryst. Tekinn út úr frysti um það bil klukkutíma áður en rétturinn er borinn fram. Rétturinn á að vera farinn að bráðna þannig að hann sé eins og mjúkur rjómaís.

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Mascarpone þeytingur með berjum og Toffypops


Í gærkvöldi hittist matarklúbburinn okkar sem er alltaf tilhlökkunarefni. Eitt af því dásamlega við þennan klúbb, fyrir utan frábæra félagsskapinn, er að strákarnir elda og skipuleggja allt, við konurnar mætum bara og látum dekstra við okkur með mat og víni! 🙂 Þeir koma alltaf jafnmikið á óvart og galdra fram hvern gómsæta réttinn á fætur annars í hverju boði. Í gær kom það í hlut Elfars að gera eftirréttinn. Hann kom heim frá Stokkhólmi seinni partinn í gær og réðst strax í eftirréttagerð. Þessi eftirréttur heppnaðist svo rosalega vel hjá honum að rétturinn fær klárlega sína eigin færslu hér á blogginu!

Uppskrift f. 8-10:

  • 750 g mascarpone ostur
  • 6 dl rjómi, þeyttur
  • 300 g flórsykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, klofin á lengdina og kornin skafin úr
  • 3 pakkar Toffypops kex
  • ber til skreytingar t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber og ástaraldin.

Rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Toffypops kexið er saxað niður og það sett í botninn á eldföstu móti. Örlítið af kexinu tekið til hliðar til að dreifa yfir réttinn í blálokin. Mascarpone ostinum, flórsykri, vanillusykri og vanillukornum blandað saman og þeytt þar til blandan verður létt. Þeytta rjómanum bætt varlega út í með sleikju. Rjómaostakremið smurt yfir Toffytops kexið. Skreytt með berjum og restinni af kexinu stráð yfir.