Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi


Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi

Þó svo að það hafi verið ákaflega kalt undanfarna daga þá verð ég að viðurkenna að snjórinn og kuldinn gerir allt svo mikið jólalegra en ella. Ég tók þessar myndir í vikunni fyrir utan húsið mitt eftir snjókomuna. Þó svo að ég hafi sett „dash“ af gervisnjó og glimmer á kransinn minn þá er enn fallegra þegar á hann snjóar ekta snjó.

IMG_1753Mikið vona ég að það snjói svona fallega á jólunum líka.

IMG_1769

Við fjölskyldan áttum saman ljúfan laugardag í dag sem byrjaði með jólatónleikum barnanna á vegum tónlistarskólans þeirra. Vilhjálmur spilaði flókið verk á píanó og Jóhanna var að spila á rafmagnsgítar á sínum fyrstu tónleikum. Þau stóðu sig ofsalega vel og við foreldrarnir vorum að vonum afar stolt. Því næst var jólatréð valið af kostgæfni en við þurftum að fara á nokkra staði áður en nægilega fallegt jólatré fannst. Þá tók við dálítið búðarráp sem endaði með notalegri stund á veitingastað og loks endað á ísbúð Vesturbæjar eftir góðan dag.

Ég hef sett inn nokkuð margar uppskriftir að eftirréttum hér á síðuna að undanförnu og nú bætist enn ein uppskriftin við. Mér finnst bara svo dæmalaust skemmtilegt að útbúa eftirrétti og ennþá skemmtilegra að borða þá! Pannacotta er einn einfaldasti og ljúffengasti eftirrétturinn sem hægt er að gera, afar fljótlegur og hægt að útbúa hann með fyrirvara sem er góður kostur fyrir matarboð. Um daginn þegar ég var með matarboð fyrir fjölskylduna bjó ég til súkkulaðipannacotta með karamellu sem ömmu fannst vera besti eftirréttur sem hún hafði bragðað. Í síðustu viku komu amma og afi aftur til okkar í mat og ég ákvað að gera aðra útfærslu af pannacotta – ekki vildi ég valda ömmu vonbrigðum! Það er einmitt svo sniðugt hversu margar útfærslur er hægt að gera af þessum rétti. Að þessu sinni notaði ég niðursoðna sætmjólk í stað sykurs hún gerði pannacottað dásamlega karamellukennt og bragðgott. Ofan á dreifði ég heimatilbúnum hnetumulningi með hnetum og kornflexi sem velt var upp úr bræddu súkkulaði, dæmalaust gott! Mér skilst að það sé ekki hægt að fá niðursoðna sætmjólk lengur í Kosti en hún ætti að fást í asískum matvöruverslunum og í Kolaportinu. Mögulega á fleiri stöðum – einhver sem veit?

IMG_1713

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós niðursoðin sætmjólk (sweetened condensed milk- ca. 350 g)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 2 blöð matarlím (3 blöð fyrir þá sem vilja stífari búðing)
  • skreytt með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í allavega fimm mínútur. Rjómi og sætmjólk sett í pott og látið ná suðu. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og því bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi.

IMG_1738

Súkkulaði-hnetumulningur:

  • 1/2 dl heslihnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl macadamia hnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl kornflex
  • 50 g suðusúkkulaði

IMG_1726

Hnetur saxaðar og kornflex mulið. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hnetum og kornflexi bætt út í. Blöndunni er dreift á bökunarpappír og sett í frysti í minnst hálftíma. Rétt áður en pannacotta er borið fram er súkkulaði-hnetumulningurinn tekinn úr frystinum og saxað niður í smærri bita. Dreift yfir pannacotta.

IMG_1728

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Bismarkbaka með súkkulaðisósu


IMG_6924Mikið var gaman að sjá viðbrögðin við færslunni hér að neðan með uppáhaldseftirréttunum mínum en þetta innlegg var heimsótt 7 þúsund sinnum á bara einum degi. Flestir leggja mikið upp úr matnum á gamlárskvöld og greinilegt að margir eru að leita að góðum uppskriftum fyrir kvöldið.

Við stórfjölskyldan verðum enn og aftur saman á gamlárskvöld, við fáum greinilega ekki nóg af hvert öðru yfir hátíðarnar! Að þessu sinni verðum við enn fleiri en á aðfangadagskvöld og verðum heima hjá foreldrum mínum. Í forrétt verður grafin nautalund með piparrótarsósu (hér er uppskrift af sósunni), í aðalrétt verður kalkúnn með dásamlega góðu meðlæti en ég mun svo sjá um eftirréttinn. Ég ætla ekki að hafa neinn af eftirréttunum 15, þó þeir séu allir afskaplega góðir. Ég ætla að hafa eftirrétt sem ég hef ekki enn sett inn uppskrift af hér á bloggið. Þetta er Bismarkbaka með súkkulaðisósu sem ég gerði í fyrsta sinn fyrir jólin í fyrra, sá eftirréttur komst strax í uppáhald hjá fjölskyldunni enda afskaplega jólalegur og góður. Ég sendi uppskriftina meira að segja í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus í fyrra, fullviss um þessi dásemd myndi myndi rústa keppninni ….  sem hún gerði svo reyndar ekki! 🙂 Ég efast því eiginlega um að Nói og félagar hafi prófað uppskriftina því hún er svo hrikalega góð! 😉 Þessi eftirréttur er afskaplega einfaldur og þægilegur að gera, það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara og setja í frysti. Súkkulaðisósuna er líka hægt að gera áður og hita hana svo bara aftur upp rétt áður en hún er borin fram.

fluff1Eina sem gæti verið snúið við þessa uppskrift er að nálgast marshmallow-fluff-234x300Marshmallow fluff sem er sykurpúðakrem. Það er oftast til í Hagkaup en þó ekki alltaf. Það hefur alltaf verið til á Amerískum dögum en stundum líka þess á milli. Ég keypti það í Hagkaup núna rétt fyrir jól og reikna því með að það sé til enn. En svo ætti nú líka að vera hægt að nálgast það í Kosti. Tegundin sem ég keypti í Hagkaup núna lítur út eins og þessi til vinstri, „Jet-Puffed marshmallow creme“ en dósirnar geta líka litið út eins og þessi til hægri, „Marshmallow Fluff“

IMG_6891

Botn

  • 20 kexkökur með súkkulaði (ég nota súkkulaði Maryland kex, fyrir Oreoaðdáendur er t.d. hægt að nota Oreokex)
  • 2 msk. kakó
  • 25 g brætt smjör

Kexið er maukað fínt i matvinnsluvél ásamt kakói og smjöri, blandað vel saman. Fóðrið botninn á 24-26 cm smellumóti með smjörpappír. Þrýsitð kexmylsnunni vel í niður á botninn í forminu og setjið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós Marshmellow krem (Marshmallow fluff eða Marshmallow creme)
  • nokkrir dropar piparmintu Extract
  • nokkrir dropar rauður matarlitur
  • 1 dl  Bismark brjóstsykur frá Nóa og Siríus (+ til skreytingar)

Þeytið rjómann og blandið Marshmellowkreminu varlega saman við með sleikju. Passið samt að leyfa kreminu að halda „fluffinu“, þ.e. Marshmellowkremið á að vera í „klumpum“ í rjómanum. Bætið við Piparmintu extract eftir smekk (gætið þess samt að nota ekki of mikið af því, bara örfáa dropa). Setjið 1/3 af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Brjótið Bismark brjóstykurinn í morteli eða í matvinnsluvél. Blandið saman við stærri hluta kremsins og setjið ofan á botninn.

Takið afganginn af kreminu og setjið nokkra dropa af rauðum matarlit saman við það. Setjið nú rauða kremið ofan á það hvíta.

Setjið í frysti í minnst fimm tíma og takið út ca. einum tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með Bismark brjóstsykri.

Súkkulaðisósa

  • 125 g suðusúkkulaði
  • 75 g smjör
  • ½ dl. sykur
  • ½ dl síróp
  • ½ dl. vatn

Hitið súkkulaði, smjör, sykur, vatn og síróp saman í potti við hægan hita. Hrærið í öðru hverju þar til blandan er orðin slétt og samfelld. Berið fram heita með Bismarkbökunni.

IMG_6894