Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti


Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti

Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.

En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.

IMG_9175

Uppskrift f. ca 3-4

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • ca 140 g beikon
  • ca 4 stór græn epli
  • 1/2 lítill laukur
  • salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
  • gott krydd (ég notaði Best á allt)
  • 1 tsk nautakraftur
  • smjör til steikingar

Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.

IMG_9168

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • örfáir dropar Tabasco sósa

Öllu blandað vel saman með gaffli.

IMG_9172

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Laxaborgarar með mangósósu og sætum frönskum kartöflum


Fyrir löngu síðan fór ég með nokkrum frábærum stelpum úr líkamsræktarhópnum mínum í kraftgöngu vestur á Seltjarnarnes sem endaði svo með notalegri máltíð á Nauthól. Þá voru þeir með á matseðlinum gómsæta laxaborgara með ,,sætkartöflufrönskum“! Þetta var svo ljúffengur matur að ég hef oft hugsað um að endurgera réttinn heima og lét loksins verða af því í kvöld. Namm namm … þetta var svo gott! Meira að segja krakkarnir elskuðu þennan rétt. Það er mjög fljótgert að búa til borgarana, ég setti bara allt hráefnið í matvinnsluvél. En ef maður vill grófari borgara er hægt að mauka hráefnið saman með gaffli. Ég las mér til í sænskri uppskriftabók að það væri mikið betra að sjóða laxinn örstutt áður en búnir eru til borgarar úr þeim, þannig héldust þeir safaríkari. Ég gerði það og borgararnir voru afar safaríkir en ég hef svo sem ekkert viðmið. Ég bar laxaborgarana fram í hamborgarabrauði en þess þarf ekkert endilega. Það er líka gott að bera þá fram með grænmeti, sósu og sætkartöflufrönskum og þá er hægt að kalla þetta laxabuff! Sósan var rosalega góð, ég notaði blöndu af frosnu og fersku mangói en það er hægt að nota bara annað hvort. Þessa sósu er örugglega gott að nota líka með til dæmis grilluðum kjúklingi. En laxaborgararnir og meðlæti er ofsalega ferskur og bragðgóður réttur, mæli með honum!

Laxaborgarar (ca 5-6 borgarar, fer eftir stærð):

  • 1 kíló laxaflök
  • 1/2 – 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dl brauðmylsna
  • 2 egg
  • 1 tsk Sambal Oelek (chilimauk) eða 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað smátt (meira ef maður vill sterka borgara)
  • 1 dl ferskt kóríander, saxað (hægt að nota steinselju í staðinn)
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • börkur af einni límónu (lime), gróft rifinn
  • salt og pipar

Aðferð:

Léttsaltað vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Laxinn soðinn í ca. 4 mínútur, síðan er hann veiddur upp úr og roðið tekið af. Öll hráefnin í borgarana sett í matvinnsluvél og keyrt þar til blandan er maukuð saman, ekki of lengi samt, best er að hafa hráefnið í borgarana gróft og ef hráefnið er hrært of lengi geta þeir orðið seigir. Það má líka píska hráefnin saman með gaffli, þá verða borgararnir grófari. Olía og smá smjör sett á pönnu og borgararnir steiktir í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Borið fram með laxaborgurunum:

  • hamborgarabrauð
  • klettasalat
  • salat
  • gúrka
  • tómatar
  • avókadó
  • mangósósa
  • sætar franskar kartöflur

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (hægt að nýta límónuna úr laxaborgara uppskriftinni)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Sætar franskar kartöflur:

Sætar kartöflur skornar í aflangar sneiðar eins og franskar kartöflur. Þeim er svo velt upp úr ólífuolíu, maldon salti, grófum pipar og góðri kryddjurtablöndu, til dæmis Best á allt frá Pottagöldrum. Kartöflurnar bakaðar við 220 gráður í ca. 30 mínútur.