Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti


Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti

Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.

En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.

IMG_9175

Uppskrift f. ca 3-4

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • ca 140 g beikon
  • ca 4 stór græn epli
  • 1/2 lítill laukur
  • salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
  • gott krydd (ég notaði Best á allt)
  • 1 tsk nautakraftur
  • smjör til steikingar

Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.

IMG_9168

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • örfáir dropar Tabasco sósa

Öllu blandað vel saman með gaffli.

IMG_9172

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.

Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.

Grillaðar Harissa kjúklingabringur með kúskúsi, salati með bökuðum kokteiltómötum og myntujógúrtsósu


Harissa er afar ljúffengt kryddmauk upprunnið frá Norður Afríku. Það er búið til meðal annars úr chili, hvítlauk, cumin fræjum, kúmen fræjum, fennel fræjum, kóríander fræjum, grilluðum paprikum og ólífuolíu. Það kunn vera best heimatilbúið en ég á eftir að prófa það. Harissa er hægt að nota á margskonar hátt. Til dæmis út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, í pottrétti eða út í kúskús. Ég hef fengið Harissa maukið í Hagkaup og Nettó en það fæst örugglega víðar. Hér bjó ég til dásamlega góðan grillsósu fyrir kjúkling úr maukinu, mæli með þessu! 🙂

Grillaðar Harissa kjúklingabringur

  • 6 kjúklingabringur
  • 2/3 krukka Harissa
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 hvitlauksrif, hökkuð smátt
  • 1 msk. ólífuolía

Blandið saman hráefnunum og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið þeim vel upp úr sósunni og geymið í kæli. Því lengur því betra en yfirleitt liggur manni á (allavega mér!) þannig að 10-15 mínútur duga alveg! 🙂 Grillið svo á útigrilli þar til bringurnar eru tilbúnar. Einnig hægt að setja bringurnar inn í ofn í eldföstu móti því þá nýtist sósan enn betur þar sem að sósan verður eftir á botni mótsins. Hitið þá við 200 gráður í 30-35 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.

Kúskús

Ég kaupi oft hreint kúskús, það er án krydds. Ég elda þá kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakkanum en í stað þess að bæta við smjöri í lok eldunartímans eins og sagt er til um þá nota ég kryddolíu af fetaosti, helli vænni bunu af henni út i kúskúsið og hræri. Þannig fær kúskúsið bæði olíu og krydd.

Salat með bökuðum kokteiltómötum

  • 1 askja kokteiltómatar
  • 2 msk. Harissa
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 msk. balsamedik
  • maldon salt og pipar

Hitið bakarofn í 80 gráður. Setjið tómatana í lítið eldfast mót. Blandið Harissa, ólífuolíu, balsamedik saman, hellið yfir tómatana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Kryddið með salti og pipar. Setjið í ofn í 35-40 mínútur.

Blandið heitum tómötunum saman við blandað salat, klettasalat og fetaost.

Harissa er frekar bragðsterkt en samt ekki of, börnin eru til dæmis mjög hrifin af þessum rétti. En það er afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með réttinum milda og frískandi myntujógúrtsósu en uppskrift af henni er að finna hér (gleymdist að setja sósuna á diskinn í myndartökunni!). Með þessu bar ég einnig fram grillaða sveppi á teini. Mæli alveg með þessum rétti! 🙂

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Tvenns konar jógúrtsósur


Það er hægt að gera margskonar góðar jógúrtsósur en þær henta sérstaklega vel með grilluðum mat, til dæmis með fiski, kjöti og grænmeti. Ég nota helst gríska jógúrt eða tyrkneska jógúrt en hægt er að fá hina síðarnefndu í versluninni Tyrkneskur bazar, Síðumúla 17. Hér að neðan gef ég uppskriftir af afbrigði af tzatziki sósu annars vegar og myntusósu hins vegar.

Tzatziki sósa með engifer

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvitlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 2 msk. engifer, rifið smátt
  • 1 msk. ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni og rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram með til dæmis kjúklingi, kjöti eða fiski. Hentar sérstaklega vel með grilluðum mat.




Myntujógúrtsósa

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 gott búnt af ferskri myntu, söxuð smátt
  • 1 msk. sítrónusafi
  • salt og nýmalaður pipar

Öllu blandað saman og kælt í ísskáp. Sósan er góð með margskonar réttum, til dæmis kjúklingi og fiski og á vel við grillaðan mat og kryddsterkan. Hér er svo enn ein útgáfan af tzatziki sósu en hún er með gulrótum.