Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Tvenns konar jógúrtsósur


Það er hægt að gera margskonar góðar jógúrtsósur en þær henta sérstaklega vel með grilluðum mat, til dæmis með fiski, kjöti og grænmeti. Ég nota helst gríska jógúrt eða tyrkneska jógúrt en hægt er að fá hina síðarnefndu í versluninni Tyrkneskur bazar, Síðumúla 17. Hér að neðan gef ég uppskriftir af afbrigði af tzatziki sósu annars vegar og myntusósu hins vegar.

Tzatziki sósa með engifer

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvitlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 2 msk. engifer, rifið smátt
  • 1 msk. ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni og rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram með til dæmis kjúklingi, kjöti eða fiski. Hentar sérstaklega vel með grilluðum mat.




Myntujógúrtsósa

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 gott búnt af ferskri myntu, söxuð smátt
  • 1 msk. sítrónusafi
  • salt og nýmalaður pipar

Öllu blandað saman og kælt í ísskáp. Sósan er góð með margskonar réttum, til dæmis kjúklingi og fiski og á vel við grillaðan mat og kryddsterkan. Hér er svo enn ein útgáfan af tzatziki sósu en hún er með gulrótum.