Það er hægt að gera margskonar góðar jógúrtsósur en þær henta sérstaklega vel með grilluðum mat, til dæmis með fiski, kjöti og grænmeti. Ég nota helst gríska jógúrt eða tyrkneska jógúrt en hægt er að fá hina síðarnefndu í versluninni Tyrkneskur bazar, Síðumúla 17. Hér að neðan gef ég uppskriftir af afbrigði af tzatziki sósu annars vegar og myntusósu hins vegar.
Tzatziki sósa með engifer
- 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
- 1 agúrka
- 2-3 hvitlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
- 2 msk. engifer, rifið smátt
- 1 msk. ólífuolía
- nýmalaður pipar
- salt
Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni og rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram með til dæmis kjúklingi, kjöti eða fiski. Hentar sérstaklega vel með grilluðum mat.
Myntujógúrtsósa
350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
- 1 gott búnt af ferskri myntu, söxuð smátt
- 1 msk. sítrónusafi
- salt og nýmalaður pipar
Öllu blandað saman og kælt í ísskáp. Sósan er góð með margskonar réttum, til dæmis kjúklingi og fiski og á vel við grillaðan mat og kryddsterkan. Hér er svo enn ein útgáfan af tzatziki sósu en hún er með gulrótum.
Bakvísun: Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu | Eldhússögur
Bakvísun: Grillaðar Harissa kjúklingabringur með kúskúsi, salati með bökuðum kokteiltómötum og myntujógúrtsósu | Eldhússögur
Bakvísun: Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti | Eldhússögur