Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

  • 1 kúrbítur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 egg
  • 1/2 msk husk
  • 1 dl rifinn parmesan
  • chiliflögur
  • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Sætar kartöflur með jurtasalti og blóðbergssírópi


IMG_4803*Í samstarfi við Urtu*

Í vor vann ég nokkrar uppskriftir fyrir fyrirtækið Urtu Islandica. Þau eru gera ákaflega spennandi hluti! Þau nota íslenskar jurtir og ber til að framleiða meðal annars salt, síróp og te. Ég hvet ykkur til að kíkja til þeirra í fallega húsið þeirra í Hafnarfirði, Gömlu matarbúðina við Austurgötu, og skoða þetta skemmtilega fjölskyldufyrirtæki og framleiðsluna þeirra. Vörurnar fást að auki í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4811

Ég hreinlega elska sætar kartöflur! Ég fæ ekki nóg af þeim en því miður eru börnin ekki eins hrifin, elsta dóttirin segist hafa borðað yfir sig af þeim og gefur þar með í skyn að móðirin hafi boðið aðeins of oft upp á sætar kartöflur sem meðlæti í gegnum tíðina .. sem ég bara skil ekki! 😉 Ég gæti nefnilega grínlaust borðað sætar kartöflur í hvert mál. Mér finnst mikilvægt að leyfa sætu kartöflunum að njóta sín í einfaldleika sínum þegar þær eru matreiddar og hér bjó ég til uppskrift þar sem mér finnst sætu kartöflurnar njóta sín fullkomlega. Ég notaði þær með ljúffengum fiskrétti (uppskrift kemur á bloggið innan skamms) og fannst þessi réttur algjört hnossgæti. Það væri örugglega dásamlega gott líka að nota þær með t.d. kjúklingi eða grillmat.

IMG_4775

Uppskrift:

  • 900 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar bita
  • 3 msk ólífuolía
  • svartur pipar
  • ca. 30 ml blóðbergssíróp
  • 100 g pekanhnetur
  • öræfa jurtasalt
  • fersk steinselja

Ofn hitaður í 210 gráður við undir- og yfirhita. Ólífuolíu, svörtum pipar og blóðbergssírópi blandað saman og dreift á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 210 gráður í 25-30 mínútur. Þá eru sætu kartöflurnar teknar úr ofninum, pekan hnetunum blandað saman við þær ásamt öræfa jurtasalti og ferskri steinselju.

IMG_4791

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu og ofnbökuðum kryddjurtakartöflum


IMG_0430Síðastliðinn mánuður hefur verið afar annasamur því um síðustu mánaðarmót fluttum við í nýja húsið okkar sem við höfum verið að gera upp síðan í byrjun desember. Það gekk mikið á í flutningunum. Það kom ákkurat leiðindarveður með roki og hláku þannig að elsta dóttir okkar datt og fótbrotnaði, það kom gat á vatnsleiðslu í gólfi og allskonar önnur ævintýri gerðust í kringum flutningana. Ofan á allt saman var húsið ekki alveg tilbúið þannig að við höfum búið við fremur frumstæðar aðstæður fram að þessu með iðnaðarmenn, endalaust ryk og óupptekna kassa um allt hús. Núna er hins vegar farið að sjást fyrir endan á þessu öllu og páskafríið verður nýtt út í hið ýtrasta til að koma okkur fyrir. Nýja eldhúsið er komið í gagnið og ég er afskaplega ánægð með það. Ég held að ég muni hreinlega blogga alveg sérstaklega um það við fyrsta tækifæri. Nú þegar framkvæmdum fer að ljúka get ég loksins farið að snúa mér að fullum krafti í matargerðina og fyrst á dagskrá verða auðvitað góðar páskamáltíðir. Ég veit að ég er búin að setja inn margar uppskriftir að hægelduðu kjöti undanfarið en ég er bara svo hrifin af því! Hér bætist enn ein í safnið og að þessu sinni hægeldað kálfakjöt. Eftir Ítalíuferðina, þar sem ég fékk mér kálfakjöt við hvert tækifæri á veitingastöðum, hef ég uppgötvað að það fæst ákaflega gott frosið kálfakjöt (ég fékk mitt í Bónus Ögurhvarfi) hér heima, merkt Ekro, einstaklega meyrt og ljúffengt. Við það að hægelda kjötið þá varð það meyrt eins og smjör, það þurfti varla hníf til þess að skera það! Ég er líka ofsalega hrifin af meðlætinu með kjötinu, það passar vel við aðrar tegundir af kjöti líka.

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu (fyrir 5)

  • 1 kíló Ekro kálfa ribeye
  • 1-2 msk smjör
  • 1 msk ólífuolía
  • salt & nýmalaður svartur pipar
  • plastfilma

Rauðvínssósa

  •  2-3 stórir skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 msk smjör
  • 4 dl rauðvín
  • 500 ml nautasoð
  • 100 g rjómaostur
  • salt og pipar

Kjötið er látið þiðna í ísskáp í minnst einn sólarhring. Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp, snyrt við þörfum og látið ná stofuhita. 1 msk ólífuolía og 1 msk smjör er sett á pönnu og látið hitna vel. Þá er kjötið kryddað með pipar og steikt við háan hita í ca. 2 mínútur á öllum hliðum. Því næst er það látið kólna í um það bil 5-10 mínútur. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita. Nú er kjötinu vafið þétt inn í plastfilmu nokkra vafninga. Kjötmæli er stungið í kjötið (í gegnum plastið) og það sett inn í 60 gráðu heitan ofn í um það bil 3 ½ – 4 tíma eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60 gráðum (það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að setja plastið inn í ofn því það hvarfast engin efni úr því við 60 gráðu hita).

IMG_0377

Skarlottulaukurinn er steiktur í 2-3 mínútur á sömu pönnu og kjötið var steikt á, smjöri bætt við ef þarf. Svo er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt 1 msk af smjöri, kryddað með salti og pipar eftir smekk og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Rauðvíninu er þá hellt út á pönnuna og sósan látin malla þar til hún hefur soðið niður allavega um 2/3. Því næst er nautasoðinu bætt út á pönnuna og sósan látin malla þar til hún fer að þykkjast. Að lokum er rjómaosti bætt út í og sósan krydduð meira ef með þarf.

IMG_0384

Þegar kjötið hefur náð 60 gráðu kjarnhita er það tekið út úr ofninum, plastið tekið af og kjötið steikt örstutta stund upp úr smjöri og ólífuolíu á heitri pönnu á öllum hliðum, kryddað með salti og meiri pipar ef með þarf. Að lokum er kjötið látið hvíla undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið niður. Óhætt er að láta kjötið bíða í klukkustund undir álpappír og handklæði.

Borið fram með rauðvínssósu, ofnbökuðum kryddjurtakartöflum og steiktri grænmetisblöndu.

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

IMG_0379

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

Steikt spergilkál og kúrbítur með spínati

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 500 g spergilkál
  • 1 meðalstór kúrbítur
  • 1 gulur laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 200 g spínat
  • salt og pipar
  • chili flögur

Spergilkálið er skorið niður í bita ásamt kúrbítnum. Laukurinn skorin í litla bita og hvítlaukur saxaður fínt. Panna hituð með smjöri og olíu. Kúrbítur, spergilkál, hvítlaukur og laukur steikt á pönnunni við meðalhita í um það bil 10 mínútur þar til að grænmetið er orðið mjúkt. Kryddað með salti, pipar og chili flögum. Þegar um það bil 1 mínúta er eftir af steikingartímanum er spínatinu bætt út í.

Wyndham-Sævar Már vínþjónn mælir með rauðvíninu Wyndham Bin 555 Shiraz með þessum rétti. Því er lýst á eftirfarandi hátt: Dökkkirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Höfugt. Dökk ber, minta.

IMG_0421

Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu


KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu

Milli þess sem ég skipulegg fermingarveisluna sem nálgast óðfluga þarf víst fjölskyldan að borða líka. Í kvöld langaði mig að hafa það sem Kaninn kallar ”comfort food”. Ég er ekki hrifin af KFC en samt er eitthvað ávanabindandi við þann kjúkling, allavega fæ ég stundum löngun í KFC þó svo að ég viti innst inni að mér finnist eiginlega ekkert varið í hann – skrítið! Ég gerði í kvöld mikið betri kjúkling sem fær samt að heita KFC – „Kleifarsels Fried Chicken”. Kjúklingurinn var ákaflega meyr og bragðgóður og féll sannarlega vel í kramið hjá öllum í fjölskyldunni. Ég ætlaði að hafa sætkartöflu franskar með kjúklingnum en það breyttist á síðustu stundu í sætkartöflumús, ég er bara með æði fyrir henni þessa dagana! Það er svo lítið mál að búa hana til, að þessu sinni skrældi ég sætkartöflur og skar í bita. Sauð bitana í vatni þar til þeir voru orðnir mjúkir, stappaði og bætti smá naturel Philapelphia osti út í ásamt Philadelphia með sweet chili) og kryddaði með chiliflögum. Það er líka hægt að nota til dæmis smjör í stað rjómaosts.

IMG_4533

Uppskrift:

  • 6 -7  kjúklingabringur (ég nota kjúkling frá Rose Poultry)
  • ca. 24 Ritz kex kökur
  • 2 bollar Corn Flakes
  • 2 msk sesamfræ
  • 1/4 -1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 2 eggjahvítur
  • 1 dós jógúrt án ávaxta
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk salt
  • ólífuolía

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður eða spreyjaður með ólífuolíu. Kornflex og Ritzkex er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, hvítlaukskryddið og sesamfræin. Í annarri skál er eggjahvítum, dijon sinnepi, jógúrti og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr kornfleks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á bringunum, ef þær eru litlar þarf jafnvel að taka þær út fyrr. Borið fram með sætkartöflu frönskum eða sætkartöflumús og sinnepsjógúrtssósu.

IMG_4539

Sinnepsjógúrtsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt
  • ca. 1 msk dijon sinnep
  • ca. 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 1.5 tsk hunang

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_4532

 

 

 

Heimalagað rauðkál


IMG_2588Það er bara einn ókostur við jólin, þau eru of stutt og líða alltof hratt! Við höfum átt afar notalega jóladaga. Elfar var í fríi um þessi jól en það er alltaf svo gott þegar hann fær hátíðardagana óskerta með okkur fjölskyldunni án þess að þurfa að fara á sjúkrahúsið. Við vorum hér heima á aðfangadagskvöld með foreldrum mínum og ömmu og afa. Það má með sanni segja að allir hafi fengið góðar gjafir og börnin voru himinlifandi og þakklát fyrir allt sem þau fengu. Það var svolítið gaman að því að Eldhússögur fengu jólagjöf í ár! 🙂

IMG_2539

Anna Sif vinkona útbjó þennan sniðuga hitaplatta úr vintöppum og að auki fylgdi með heimatilbúin chili/sólberjasulta. Eldhússögur þakka fyrir þessa frábæru gjöf! 🙂

IMG_2445Yngstu börnin á aðfangadagskvöld

Á jóladag hittist stórfjölskyldan í ljúffengum brunch heima hjá mömmu og pabba. Hér er hægt að sjá fleiri myndir frá Eldhússögum á Instagram. Það er alltaf mjög afslappað í jóladagsboðinu, til dæmis mættu mín börn í náttfötunum og Bára litla frænka kom í prinsessubúningi. Ég er eiginlega að hugsa um að leggja fram þá tillögu að allir mæti bara í náttfötunum eða í prinsessubúningum að ári! Næsta jólaboð er ekki fyrr en á sunnudaginn þannig að við áttum daginn í gær alveg fyrir okkur. Það var því bara sofið, spilað, lesið, leikið með jólagjafirnar og seinnipartinn fórum við niður á tjörn á skauta og höfðum með okkur heitt kakó.

IMG_2549 Um kvöldið fengum við okkur hangikjöt sem ég eldaði í ofninum. Hér er hægt að sjá uppskriftina. Með hangikjötinu finnst mér alveg nauðsynlegt að hafa grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, laufabrauð og kartöfluuppstúf ásamt jólaöli.

IMG_2619

Eftir matinn var haldið áfram með afslöppun við kertaljós og kósýheit. Öll fjölskyldan horfði á kvikmyndina Hobbitann þar sem að bíóferð á Hobbitann 2 er í bígerð um helgina.

IMG_2632

En víkjum að rauðkálinu með hangikjötinu – það er ekkert erfitt að útbúa eigið rauðkál. Eini ókosturinn er að lyktin sem kemur þegar það er búið til er ekkert sérlega góð – en góða bragðið bætir hana upp! 🙂 Það er svo mikill munur á heimalögðuðu rauðkáli og því tilbúna að þessu tvennu er ekki saman að jafna.

Uppskrift:

  • 1 miðlungsstór rauðkálshaus, kjarninn fjarlægður og kálið sneitt fínt.
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
  • 2/3 dl rauðvínsedik,
  • 1 dl sykur
  • 2/3 dl óblönduð sólberjasaft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk smjör
  • til hátíðarbrigða er hægt að sjóða rauðkálið með 2-3 negulnöglum eða stjörnuanís ásamt 1-2 kanilstöngum.

Látið allt saman í stóran pott og hitið rólega upp, látið sjóða við vægan hita í einn og hálfan til tvo tíma. Smakkið til þegar helmingur er liðinn af suðutíma, ef kálið er of súrt þá er sykri bætt við en ef það er of sætt þá þarf að bæta við aðeins meira af edik eða sólberjasaft. Nauðsynlegt er að smakka til rauðkálið á þessum tímapunkti, þ.e. eftir hálfan suðutíma til þess að það verði gott. Þegar suðu lokið er kálið sett í krukkur, leyft að kólna aðeins og svo sett ísskáp.IMG_2590

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650

Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki


Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmaukiUm helgina bjó ég til súpergott meðlæti með sunnudagssteikinni. Mér finnst sætar kartöflur svo góðar og mig langaði að búa til eitthvað nýtt úr þeim. Úr varð að ég gerði sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki. Mér fannst það koma svo vel út að ég hefði alveg getað haft þær í aðalrrétt! 🙂

IMG_0632

Uppskrift

  • 700 g sætar kartöflur (gott að reyna að velja fremur ílangar til að sneiðirnar verði fleiri og minni)
  • 2 msk púðursykur
  • 1 tsk sjávarsalt (t.d. frá Saltverk)
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk paprika
  • 1 tsk chili flögur eða duft (ég notaði chili explosion)
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • ca 1/2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 3 msk smjör, brætt
  • 3 msk olía

 Sætu kartöflurnar eru skrældar og skornar í sneiðar, ca 1 og 1/2 cm á þykkt. Vatn er sett í pott, saltað og suðan látin koma upp. Þá eru sætu kartöflusneiðarnar settar út í og látnar sjóða þar til þær fara að mýkjast, í ca. 10-12 mínútur. Ofn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum ásamt púðursykrinum er blandað saman í litla skál. Brædda mjörinu og olíunni er blandað saman. Þegar kartöflusneiðarnar eru farnar að mýkjast eru þær veiddar upp úr pottinum, gott að raða þeim á grind, þeim leyft að kólna aðeins og þerraðar með eldhúspappír (þær þurfa að vera þurrar til að karamellíserast í ofninum).

IMG_0600

Kartöfluskífunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, hliðin sem snýr upp á skífunum er smurð vel með helmingnum af smjör-olíublöndunni. Því næst er helmingnum af kryddblöndunni dreift yfir kartöfluskífurnar og þrýst dálítið ofan í smjörblönuna. Þá er skífunum snúið við og þetta endurtekið á þeirri hlið með afgangnum af smjör- og kryddblöndunni.

IMG_0611

Sett inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan hefur tekið góðum lit og er farin að karamellíseras. Þá er platan tekin út, kartöfluskífunum snúið við og sett aftur inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan þeim megin hefur einnig tekið lit og bráðnað vel. Borið fram sem meðlæti með til dæmis grilluðu lambakjöti, kjúklingi eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0624Ekki verra að bera þær fram með grilluðum lambalundum með bearnaise sósu.

IMG_0642

Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi


IMG_0431

Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.

IMG_0485Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.

IMG_0457Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.

IMG_0467

Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!

IMG_0474 IMG_0476Gott að bera smjör á heitt brauðið

Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!

IMG_0448Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.

Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.

IMG_0424

Ferskt og gott hráefni

Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar –  þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.

IMG_0488

Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂

IMG_0497

Auður Ögn, Shabana og ég

Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.

IMG_0483

Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.

Korma kjúklingur:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
  • olía til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4-5 cm bútur engifer
  • 8 stórir hvítlauksgeirar
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli AB-mjólk
  • 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
  • salt eftir smekk

Kryddblanda:

  • 2 msk kóríander duft
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
  • 1 tsk Garam Masala
  • 1 tsk chiliflögur eða duft
  • 1 tsk svartur pipar

Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.

Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauðiraita sósu og banana og gúrkusalati.

IMG_0499

Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)

  • 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
  • 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
  • 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
  • 25 g gróft malaðar hnetur
  • 1-2 tsk kókos
  • 1/2 – 1 tsk sykur
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.

Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.

IMG_0436

Blómkáls- og kartöfluréttur: 

  • 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
  • 300 g kartöflur
  • olía til steikingar
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
  • 1 msk heil cummin fræ
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk turmerik
  • 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
  • 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
  • salt og pipar eftir smekk
  • ferskt kóríander

Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.

Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast,  því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.

Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.

IMG_0482

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658