Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Fetaosts- og chilisósa


Þessi kalda sósa er upplögð með allskyns grillmat. Hér notaði ég hana með grilluðum kjúklingabringum með þessari heimatilbúnu grillsósu.

Uppskrift:

  • 200 gr fetaostur (kubbur, ekki þessi í olíu)
  • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • ca ¼-½ rauður chili, saxaður
  • dálítið af steinselju, söxuð
  • 2-3 msk sýrður rjómi

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og blandið vel. Setjið í skál og skreytið gjarnan með chili og steinselju. Berið fram með grillmat.