Grillgott með kókosbollum og karamellum


GrillgottMikið er dásamlegt að fá nokkra sólardaga svona síðsumars! Vissulega fengum við gott veður í Bandaríkjunum þó svo að það hafi reyndar verið óvenjukalt í Michigan miðað við árstíma. Það var þó yfirleitt heiðskýrt og þá fann maður hversu gott var að sjá heiðan himinn og fá ljúf sumarkvöld, nokkuð sem lítið hefur verið um í Reykjavík í sumar. Það er því eins gott að njóta góðu daganna sem við fáum nú og mér finnst grillmatur ómissandi á slíkum dögum. Ekki er síðra að grilla eftirréttinn og hér er ég með uppskrift að klassísku en ó svo góðu grillgotteríi!

IMG_6017

Uppskrift f. 4:

  • 1 stór banani, skorinn í sneiðar
  • 2 stórar perur, afhýddar og skorin í bita
  • 100 g vínber
  • 2-3 kíwi, skorin í bita
  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 4 kókosbollur

IMG_6016

Ávöxtunum er blandað saman og settir í álbakka. Karamellurnar eru klipptar eða skornar niður í þrjá bita hver og þeim dreift yfir ávextina. Kókosbollurnar eru skornar í tvennt langsum og þeim raðað yfir ávextina þannig að hvíta kremið vísi upp. Grillað við lágan til meðalhita í um það bil 8-10 mínútur eða þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hvíta kremið í kókosbollunum orðið stökkt. Borið fram strax með ís.

IMG_6022 IMG_6030

Kjúklingaspjót í tælenskri grillsósu


IMG_4400

Í dag fórum við í fermingarveislu til dóttur Önnu æskuvinkonu minnar, hennar Önnu Daggar.

Önnur Ég útbjó kjúkling fyrir veisluna og notaði uppskrift sem birtist frá mér í fermingarblaði Fréttatímans nýverið. Í þeirri uppskrift þræddi ég kjúklinginn upp á spjót og grillaði þau.

IMG_4382Fyrir fermingarveisluna í dag hafði ég bitana staka og eldaði þá í ofni. Svo voru bitarnir bornir fram stakir með pinnum í og heit sósan til að dýfa þeim í. Hafa ber í huga að þegar þessi uppskrift er margfölduð þá þarf ekki að margfalda magnið á sósunni jafnmikið. Til dæmis gerði ég fjórfalda sósuuppskrift (og hefði getað haft þrefalda) fyrir veisluna í dag en sjöfaldaði magnið af kjúklingnum. Ég notaði sem sagt sex kíló af kjúklingbringum frá Rose Poultry sem gaf mér um það bil 320 fremur stóra bita.

ferming

Veislan í dag var frábær, góðar veitingar og fallega skreyttur salurinn. Fermingarstúlkan, Anna Dögg, er bæði í handbolta og skátum og þau áhugamál hennar komu inn sem þema í veisluna. Hún er líka búin að vera í myndlistaskóla og eftir hana liggja mörg leirlistaverk sem skreyttu gestaborðin.

borðin Það var mjög sniðugt að Anna Dögg valdi sér og pantaði m&m frá Bandaríkjunum í sérstökum litum með áritunum. Það kom skemmtilega út og Rice krispies kransakakan var skreytt með því. Hér er hægt að panta svona skemmtileg M&M en ég held að þeir sendi ekki til Íslands, Anna lét senda þetta til ættingja sinna sem búa í Bandaríkjunum (tók ca. 1 viku).

kaka

Anna vinkona hefur verið ótrúlega öflug í gegnum tíðina að búa til minningabækur fyrir börnin sín. Ég held að fáir komist með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum! 🙂

albúmEn hér er uppskriftin af gómsæta kjúklingnum.

Uppskrift (um það bil 14 grillspjót með 4-5 bitum hvert):

  • 4 msk Huntz tómatpúrra
  • 4 msk púðursykur
  • 4 msk Blue Dragon sojasósa
  • 2 tsk cumin (krydd)
  • 2 tsk saxað kóríander í krukku frá Blue Dragon
  • 4 msk Blue Dragon sweet chilli sósa
  • 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 dós Blue Dragon kókosmjólk (400 ml)
  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry
  • grillspjót (tréspjót þarf að leggja í bleyti í 30 mínútur fyrir notkun)

Öllum hráefnunum í sósuna, fyrir utan hvítlauk og kókosmjólk, er blandað saman í pott. Á meðan suðan kemur upp er hrært stöðugt í blöndunni þar til púðursykurinn er búinn að leysast upp. Þá er hvítlauknum og kókosmjólkinni bætt út pottinn og sósan látin ná suðu. Því næst er potturinn tekinn af hellunni og sósan látin kólna.

Kjúklingabringurnar eru skornar niður í hæfilega stóra bita. Kjúklingabitunum er blandað saman við tæplega helminginn eða 2/3 af sósunni og sett í kæli í nokkrar klukkustundir, helst yfir nóttu. Kjúklingabitarnir eru því næst þræddir upp á grillspjót og þau grilluð við meðalháan hita í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjötið er grillað í gegn – tíminn er breytilegur eftir grillum. IMG_4366  Það er líka hægt að grilla kjúklingaspjótin í bakarofni við 225 gráður. Spjótin eru borin fram heit eða köld með restinni af heitri sósunni.

IMG_4408

Grilluð tikka masala kjúklingapizza


Grilluð tikka masala pizza

Ég er ákaflega spennt að setja inn þessa uppskrift en í henni mætast tveir gómsætir matarheimar, sá ítalski annars vegar og hins vegar sá indverski. Þeir sem hafa prófað að grilla venjulega pizzu á útigrilli vita hversu góðar slíkar pizzur eru. Hér nota ég naan-brauð sem botn og ofan á þennan indversk ættaða pizzubotn bjó ég til gómsæta indversk/ítalska pizzusósu og  karamelluseraðan lauk. Einnig setti ég á naan-pizzuna papriku, mozzarella ost og tikka masala kjúkling auk tandoori kjúklings. Með þessum fáu hráefnum og einföldu matargerð skapaði ég himneskar naan-pizzur sem bæði börn og fullorðnir á heimilinu kolféllu fyrir. Naan pizzurnar eru ljúfengar á bragðið og það kemur á óvart hversu vel passar að nota naan brauðin sem pizzubotn. Með því að grilla brauðin fæst gómsætur botn sem er passlega mjúkur í miðjunni, með mátulega stökkum köntum og smellpassar við áleggið. Ég prófaði að nota bæði tikka masala kjúkling og tandoori kjúkling.

IMG_1573Hráefnið í Tandoori pizzuna

Hvor tveggja var ákaflega gott, mér fannst fyrrnefnda útgáfan aðeins betri en það voru skiptar skoðanir í fjölskyldunni hvor sósan væri betri. Það tekur smá tíma að karamellusera laukinn en það er alveg þess virði, bragðið af honum verður svo sætt og gott.

IMG_1632Tandoori kjúklingapizza

Ég er mikið búin að nota innfluttan frosinn kjúkling frá Rose Poultry undanfarið. Þegar ég bjó í Svíþjóð notaði ég alltaf frystan kjúkling og fannst hann afar bragðgóður en umfram allt meyr. Mér finnst kjúklingurinn frá Rose Poultry í sambærilegum gæðaflokki, hann er ofsalega mjúkur og meyr. Svo finnst mér æðislega þægilegt að eiga alltaf frystar kjúklingalundir, úrbeinuð innanlæri eða aðra kjúklingabita tilbúna í frystinum. Kjúklingalundirnar þiðna á örskömmum tíma og þær smellpassa á þessar gómsætu naan-pizzur.

kjúklingur1

Uppskrift fyrir 4-5:
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði 1 poka af frystum kjúklingalundum frá Rose Poultry)
  • 1/2 krukka Tandoori paste eða Tikka masala paste frá Patak’s
  • 1/2 dós grísk jógúrt (eða ca. 170 g)
  • ca 1 1/2 msk ólífuolía
  • 2/3 tsk salt
  • 1 stór laukur
  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar (ca. 200 g)
  • 1/2 rauð paprika
  • ca. 200 g rifinn mozzarella ostur
  • 3 Naan brauð (ég notaði „garlic & coriander“ naan brauð frá Patak’s)
  • ólífuolía til að pensla naan brauðið
Kjúklingalundirnar eru afþýddar og skornar í hæfilega stóra bita. Tandoori eða tikka masala maukið og gríska jógúrtin eru hrærð saman í skál og kjúklingnum blandað út í. Látið standa við stofuhita á meðan laukurinn er skorinn í sneiðar og paprikan skorin í fremur þunna strimla. Ólífuolía er sett á pönnu eða í pott við meðalhita og lauknum og saltinu bætt út í. Laukurinn er látinn malla við vægan hita í ca. 20-30 mínútur. Lauknum er snúið reglulega, hann á að brúnast en ekki brenna. Olíu er bætt við ef með þarf og jafnvel örlitlu vatni. Á meðan laukurinn mallar er kjúklingurinn í sósunni steiktur upp úr ólífuolíu á pönnu þar til hann er steiktur í gegn. Þá er kjúklingurinn veiddur af pönnunni en eins mikið af sósunni og hægt er, skilin eftir á pönnunni. Tómötunum er bætt út á pönnuna og þeir hrærðir vel saman við sósuna. Sósan er látin malla við meðalhita í nokkrar mínútur þar til hún hefur þykknað dálítið. Naan brauðið er smurt með ólífuolíu á báðum hliðum og sett á grillið í 2-3 mínútur á hvora hlið við góðan hita eða þar til grillrenndur eru komnar í brauðið.
Þá er brauðið tekið af grillinu og það er smurt með sósunni. Því næst er sett dálítið af rifnum osti, þá er kjúklingnum dreift yfir, því næst lauki og papriku og endað á rifna ostinum.
Naan-bauðið er sett aftur á grillið og slökkt undir þeim brennara sem er beint undir brauðinu en annar og/eða þriðji brennarinn stilltur á fremur háan hita. Grillinu er lokað og naan-pizzan grillað í um það bil 8-10 mínútur. Fylgast þarf með hitanum og færa bauðið til ef það fer að verða of dökkt. Njótið!
IMG_1650
Tikka masala kjúklingapizza
Hér er smá myndasería af pizzugerðinni:
IMG_1583
Naan-brauðið grillað
IMG_1596
Smurt með tikka masala sósu
IMG_1584eða tandoori sósu
IMG_1605
Rifnum osti dreift yfir sósuna og því næst kjúklingnum
IMG_1607Þá er lauk og papriku dreift yfir (gott að hafa meiri lauk en á myndinni).
IMG_1593Það er endað á rifnum osti
IMG_1645
Grillað við óbeinan hita í ca. 10 mínútur
IMG_1658
Njótið vel!

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Ananas- og tómatsalsa


Ananas- og tómatsalsa

Núna er frábærri helgi að ljúka. Eins og fylgjendur Eldhússagna á Instagram hafa séð þá erum við hjónin í Stokkhólmsferð yfir helgina. Við vorum viðstödd dásamlegt brúðkaup í gær. Veislan hefur hér um bil staðið yfir í sólarhring því þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni í kampavínsmorgunverð með brúðhjónunum og gestum.

BrúðkaupÞað er alltaf svo gott að koma „heim“ til Stokkhólms og ég hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur í borginni en við fljúgum heim í kvöld. Hér hefur verið dásamlegt veður og mér skilst að veðrið heima á Íslandi í dag sé álíka frábært. Það er því vel við hæfi að setja inn uppskrift af meðlæti með grillmat. Ég legg mig fram við að finna reglulega nýtt meðlæti með grillmatnum. Það vill nefnilega stundum verða þannig að maður festist í sama meðlætinu. Að þessu sinni bjó ég til salsa úr ferskum ananas, tómötum og kóríander, frábær og fersk blanda, þið verðið bara að prófa! Ég fékk lakkríssalt frá Saltverki og prófaði að nota það í þessa salsablöndu, það kom mjög skemmtilega út!

Uppskrift f. 6:

  • 1 ferskur ananas
  • 6 tómatar
  • gott knippi af fersku kóríander, ca. 20 g
  • 1 rautt chili aldin
  • ca. 2 msk hunang, fljótandi
  • 3 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði lakkríssalt á hnífsoddi frá Saltverki)
  • ferskmalaður svartur pipar

IMG_0561

Ananansinn er afhýddur og skorin niður í bita. Tómatarnir eru skornir niður í bita og kóríander saxað fínt. Chili aldinið er fræhreinsað og saxað fínt. Öllu er svo blandað saman og smakkað til með salti, pipar og hunangi. Borið fram með grillmat.

IMG_0585

 

Grillaðar kjúklingabringur í úllalasósu


IMG_0583

Við eigum góð vinahjón í Grjótaþorpinu sem eru snillingar í eldhúsinu. Ég varð því mjög spennt þegar þau mæltu eindregið með sósunni hans Úlfars Finnbjörnssonar sem birtist uppskrift að í Fréttablaðinu um daginn. Ég prófaði að nota sósuna með grilluðu lambakjöti og hún var afar góð.

IMG_0592Með grillaða lambakjötinu bar ég fram æðislegan grillaðan beikonvafinn halloumi ost og gómsætt ananas/tómatsalsa

Það var hins vegar mikill afgangur af sósunni og ég lét því kjúklingabringur marínerast í sósunni. Daginn eftir grillaði ég svo kjúklinginn og bar afganginn af sósunni fram með honum. Sósan naut sín margfalt betur með kjúklingunum en lambinu fannst okkur, hún var dásamlega góð. Ósk var sérstaklega hrifin af þessari sósu, hún sagði bragðið vera alveg einstakt og nýtt. Ég mæli því eindregið með þessari sósu með kjúklingi, algjört hnossgæti! Ekki láta langan hráefnislista fæla ykkur frá, ég til dæmis átti allt hráefnið til heima.

IMG_0581Úllalasósan í fallegu Green gate skálinni frá Cup Company

Uppskrift:

  • 5 cm. bútur engiferrót, skræld
  • 1/2 -1 chili-aldin, fræhreinsað
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk. kóríanderfræ, má sleppa
  • 1 tsk. rósapipar, má sleppa
  • 1 tsk. milt karrí
  • 1 tsk paprikuduft
  • 2 msk. hunang
  • 2 msk. balsamedik
  • 3 msk. ostrusósa
  • 2 msk. tómatsósa
  • 2 msk. sætt sinnep
  • 2 msk. sérrí (ég sleppti því)
  • 2-3 dl. olía

IMG_0576

Setjið allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukið vel. Hellið þá olíunni saman við í mjórri bunu og látið vélina ganga á meðan. Ég notaði sex kjúklingabringur lagði þær í maríneringu í rúmlega helminginn af sósunni í yfir nóttu. Það er þó alveg nóg að hafa hana bara stutt, 30-60 mínútur. Með kjúklingnum bar ég fram grillaða maísstöngla, grillaðan ferskan ananas með karrí, kúskús og salat.

IMG_0596Ég forsauð maísstönglana og grillaði svo, bar þá fram með smjöri og örlitlu salti – úff, ég var búin að gleyma því hvað maísstönglar eru sjúklega góðir! 🙂

IMG_0594

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Marineraður sítrónukjúklingur


IMG_9351

Eftir að hafa eldað fyrir árshátíðina síðastliðinn laugardag þá langaði mig ekkert mikið til að standa í eldhúsinu á sunnudeginum. Ég átti afgang af kartöflugratíni, fetaostasósunni góðu auk þess sem ég átti ferskar kjúklingabringur. Þetta hráefni kallaði á afar einfalda eldamennsku af minni hálfu en með ljúffengri útkomu. Grillaðar kjúklingabringur í marineringu er skotheldur matur, einfaldur en dásamlega góður. Það er mikilvægt að ofgrilla ekki bringurnar, ég (eða réttara sagt læt grillmeistarann!) grilla þær þar til þær eru hér um bil tilbúnar. Þá tek ég þær af grillinu, vef ég þeim snöggt inn í álpappír og klára eldunina þannig í álpappírnum einum saman (ekki á grillinu). Það tryggir afar meyrar og safaríkar kjúklingabringur. Eina sem ég þurfti að gera var að búa til salat með þessum ljúffenga mat. Alltaf þægilegt að komast auðveldlega frá kvöldmatnum endrum og sinnum! 🙂 Ég missti mig aftur í að mynda fallega Green gate stellið. Þegar ég skoðaði myndirnar eftir á þá átti ég erfitt með að finna myndir sem sýndu matinn almennilega, þetta voru aðallega nærmyndir af fallega munstrinu á Dora white stellinu, elska’ða! 🙂

IMG_9343Ég hef gefið þessa uppskrift af fetaostasósunni ansi oft upp á síðkastið, en góð vísa er aldrei of oft kveðin! 🙂 Hér er uppskriftin!

IMG_9345Uppskrift:

  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 skarlottulaukur, fínsaxaður
  • 1/2 sítróna, safi og fínrifið hýði
  • 1/2 lime, safi og fínrifið hýði
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 1 tsk sinnep
  • pipar
  • ferskar kryddjurtir, t.d. steinselja, kóríander, timjan eða það sem hendi er næst, saxað fínt
  • 3-4 kjúklingabringur

Öllum hráefnunum í marineringuna blandað saman. Kjúklingabringurnar eru svo settar í góðan poka ásamt marineringunni og látið bíða í ísskáp í minnst 1 tíma, helst yfir nóttu.

IMG_9349

Tíu tillögur af páskamat


páskar1

Núna er páskarnir að bresta á og margir líklega farnir að huga að páskamatnum. Mér finnst páskarnir dásamleg hátíð, laus við kröfur og hefðir. Jólin geta verið svo mislöng, í versta falli bara tveir dagar. Páskarnir eru hins vegar alltaf fimm frábærir frídagar. Það fylgja páskunum engar kvaðir um miklar skreytingar, uppsetningu á útiseríum, jólatrjám og slíku, hvað þá gjafakaup og bakstur. Páskarnir skreyta sig að mestu sjálfir með vorsólinni og Krókusum sem gægjast upp úr moldinni. Glaðlegir páskaungar, heiðgular páskaliljur og túlípanar hér og þar í húsinu ásamt skreyttum páskagreinum að sjálfsögðu … voilà … páskaskreytingarnar eru í höfn! Ekki er verra að þetta er lögboðin „borða mikið súkkulaði“ hátíð, hvernig er ekki hægt að elska slíka hátíð?! 🙂

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Við höfum komið upp tveimur páskahefðum. Önnur er kannski svolítið skrítin en hún er sú að við opnum páskaeggin á föstudeginum langa. Okkur fannst svo leiðinlegt að opna ekki páskaeggin fyrr en á páskadag, næst síðasta frídaginn, í stað þess að geta notið þeirra yfir alla páskana. Við ákváðum því að breyta bara hefðinni! Hin hefðin er sú að ég hef páskamatinn í hádeginu á páskadag. Það er eitthvað svo hátíðlegt að borða páskamatinn í hádeginu með páskamessuna í útvarpinu og hækkandi vorsól á lofti fyrir utan gluggann. Það er engin regla hjá mér hvað ég hef í matinn á páskadag. Undanfarin ár hef ég þó haft kalkún, hann er svo góður og svo er ekki síðra að eiga afgang af honum á annan í páskum. Ég hef líka oft haft ýmisskonar lambakjöt og jafnvel grillað nautakjöt en það er þó sjaldgæfara. Í ár verður stórfjölskyldan í mat hjá foreldrum mínum á laugardeginum og við fáum lambakjöt, ég hallast því að því að hafa kalkún á páskadag. Mér finnst líka ofsalega gott að borða góðan fiskrétt á páskunum til þess að vega upp á móti kjötinu. Ég mun örugglega velja einn ljúffengan fiskrétt af listanum hér að neðan og elda hann á föstudaginn langa.

Hér eru tillögur af gómsætum páskamat (í engri sérstakri röð):

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

 

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

 

Roas beef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

 

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

 

IMG_2352

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu

 

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

 

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

 

IMG_1941

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu

 

IMG_4237

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa

 

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

 

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022