Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

3 hugrenningar um “Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

  1. Bakvísun: GrillaA�ar sA�tar kartA�flur meA� lime og klettasalati | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.