Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.
Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!
Uppskrift:
- 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
- 100 g rifinn parmesan ostur
- ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
- 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
- ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
- ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
- salt & pipar
- 2 egg, pískuð saman með gaffli
- ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
- smjör til steikingar
Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.
Þetta lítur vel út verð að prófa þetta fljótlega. Kveðja Magni
Þakka þér fyrir Magni, ég vona að þér líki vel! 🙂
Ætla að prófa á morgun 🙂
Bakvísun: Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku | Eldhússögur
Frábær réttur. Mun pottþétt gera hann aftur við tækifæri. Svo einfaldur og fljótlegur. Takk fyrir að deila þessari uppskrift með okkur hinum 🙂
Kæra þakkir Halldóra, gaman að þér líkaði rétturinn! 🙂
Sló þvílíkt í gegn á heimilinu ! Næst ætla ég að prófa hann með spagettí – held það passi vel með honum. Takk fyrir aldeilis flottar uppskriftir 🙂
Gaman að heyra Anna! Spaghettí hljómar mjög vel! 🙂