Kjúklingur með ostasnakki, sætum kartöflufrönskum og kryddjurtasósu með hvítlauki


IMG_1316

Ég rakst á ostasnakk inni í skáp hjá mér sem er skrítið þar sem að ég held að enginn í fjölskyldunni borði þannig snakk. Ég reyni hins vegar alltaf að nýta allt og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki notað það í eitthvað. Ég ákvað að reyna að búa til rasp úr ostasnakkinu fyrir kjúkling og úr varð, að mér fannst allavega, sjúklega góður kjúklingur með sósu og sætum frönskum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ég notaði heilar bringur því mér finnst þær vera safaríkastar. Ég prófaði bæði að steikja kjúklinginn á pönnu og baka í ofni og hélt fyrirfram að sá steikti yrði líklega betri en mér fannst eiginlega ofnbakaði kjúklingurinn betri. Sósan er einföld en hrikalega góð en Herbes de Provence kryddið er einmitt svo gott í svona sósur. Þegar ég var síðast í Stokkhólmi kom ég við í búðinni hjá Leila Lindholm, sem er þekktur sjónvarpskokkur þar í landi, og keypti meðal annars þessar sniðugu skálar og svo pappír til að leggja í þær. Það er alveg óskaplega gaman að bera fram heimagerðan skyndibita á svona skemmtilegan máta.

IMG_1321

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 dós jógúrt án ávaxta (180 g)
  • 1 eggjahvíta     snakk
  • 1 msk dijon sinnep
  • 60 g ostasnakk
  • 50 g kornflex
  • 1/2 tsk cayanne pipar
  • 1/2 hvítlaukskrydd
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1/2 tsk oregano
  • 1/2 tsk basilika
  • salt & pipar
  • ólífuolía
  • 500 g sætar kartöflur.

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður með ólífuolíu. Sætu kartöflurnar er skornar í hæfilega stóra bita líkt og franskar kartöflur. Þeim er velt upp úr ólífuolíu, salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. ítölsku kryddi. Því næst er þeim dreift yfir annan helming bökunarplötunnar.

IMG_1301

Kornflex og ostasnakk er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, salt, hvítlaukskrydd, paprikukrydd, oregano og basiliku. Í annarri skál er jógúrti, eggjahvítu, dijon sinnepi og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr ostasnakks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur ásamt sætu kartöflunum eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer eftir stærðinni á bringunum. Borið fram með kryddjurtasósu með hvítlauki.

Kryddjurtasósa með hvítlauki

  • 1 dós sýrður rjómi (t.d. 10% eða 18%)
  • ca. 2 tsk Herbes de Provence frá Pottagöldrum
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_1319

IMG_1328

Hér er svo kjúklingur steiktur.

IMG_1303

Kjúklingabringur fylltar með döðlum, beikoni og fetaosti


IMG_1246

Ég tók í mig fyrir nokkru að mig langaði svo mikið í einhverskonar kjúklingarétt með döðlum og beikoni. Síðan þá hef ég prófað mig áfram með nokkrar útgáfur. Til dæmis pófaði ég að vefja slíkri fyllingu upp í úrbeinuðum kjúklingalærum ásamt fleiri tilraunum. Það var ekki fyrr en að mér datt í hug að bæta við fetaosti og lauki við blönduna og setja hana inn í vasa á kjúklingabringu að mér fannst rétturinn smella saman. Satt best að segja finnst mér þetta einn besti kjúklingaréttur sem ég hef fengið lengi og vona að ég sé ekki ein um það! 🙂 Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa sætkartöflumúsina og fetaosta- og hvítlaukssósuna með réttinum, það setur punktinn yfir i-ið.

IMG_1254

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði Rose Poultry)
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 200 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Djúpur vasi er skorinn í kjúklingabringurnar og þess gætt að þær séu ekki gataðar. Bringurnar eru svo kryddaðar með salti, pipar og chiliflögum. Fyrir þá sem vilja er hægt að snöggsteikja bringurnar, ca. 1 mínútu á hvorri hlið á þessum tímapunkti, til þess að þær fái steikingarhúð.

Beikon er steikt á pönnu og þegar það nálgast að verða stökkt er lauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3-4 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Helmingurinn af blöndunni er tekinn af pönnunni, skipt á milli kjúklingabringanna og vasarnir á þeim fylltir. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki og paprikukryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni hellt í botninn á eldföstu móti og kjúklingabringunum raðað ofan á. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með sætkartöflumús og fetaosta- og hvítlaukssósu.

Fetaosta- og hvítlaukssósa:

  • 70 g fetaosturinn (restin af fetaostakubbinum)
  • 1 dós sýrður rjómi 18% (180 g)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllum hráefnunum er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkað til með salti og pipar.

IMG_1252IMG_1258

Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingur í osta- og tómatsósu


IMG_8389Kjúklingur er eitt af mínum uppáhaldshráefnum. Það er svo ótrúlega margt gott hægt að gera úr kjúklingi. Um daginn bjó ég til þennan rétt, Cacciatore kjúklingarétt, sem við vorum öll svo hrifin af. Núna gerði ég aðra útfærslu af svipuðum rétti. Að þessu sinni var papriku bætt út í tómatsósuna ásamt fersku chili. Auk þess er í réttinum ostasósa sem fór ákaflega vel með heimatilbúnu tómatsósunni. Þetta er einfaldur og ljúffengur réttur.

Uppskrift:

  • 800 g kjúklingabringur
  • kjúklingakrydd
  • smjör og/eða olía til steikningar

Tómatsósa:

  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 3 msk tómatpúrra
  • ½ gul paprika eða 1 lítil
  • ½ rauð paprika eða 1 lítil
  • ½ rautt chili, ferskt
  • 3 hvítlauksrif
  • salt & pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g rifinn ostur (bragðmikill)
  • salt & pipar

Að auki:

  • 2 st skarlottulaukar, saxaðir fínt
  • 1-2 dl kasjúhnetur (má sleppa)
  • 30 g fersk basilika, söxuð gróft

IMG_8382

Ofninn stilltur á 225 gráður undir/yfir hita.

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi. Þá er hann snöggsteiktur á pönnu í stutta stund (ekki eldaður í gegn heldur bara látinn taka smá lit). Kjúklingurinn er svo settur í eldfast mót, pannan er ekki þvegin. Því næst er paprikan skorin í bita, chili er fræhreinsað og saxað auk þess sem hvítlaukurinn er saxaður. Allt er sett í matvinnsluvél ásamt tómötunum og keyrt í ca. 10 sekúndur. Þá er tómatsósunni hellt á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á og henni leyft að malla á meðalhita í ca. 10 mínútur. Í lok tímans er 2/3 af basilikunni bætt út í tómatsósuna.

Á meðan tómatsósan mallar er ostasósan búin til. Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts. Osti bætt út í og allt hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með salti og pipar.

Þá er tómatsósunni hellt yfir kjúklingabitana og svo er ostasósunni hellt yfir tómatsósuna. Að lokum er skarlottulauknum og kasjúhnetunum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Restinni af basilikunni dreift yfir réttinn og hann borinn fram með til dæmis hrísgrjónum, kúskúsi eða pasta og fersku salati.

IMG_8384

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090