Það þarf vart annað en að lesa nafnið á þessari uppskrift til þess að vita að hún sé góðgæti! Kjúklingaréttir sem í er mozzarella og fersk basilika geta hreinlega ekki klikkað og þegar beikon hefur bæst í hópinn þá er dýrðin innsigluð! Einföld og bragðgóð sósan kórónar þennan dásemdar kjúklingarétt. Það er svo þægilegt og auðvelt að setja fyllingu í úrbeinuð kjúklingalæri enda tekur örskamma stund að útbúa þennan rétt fyrir ofninn.
Uppskrift f. 4
- 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
- maldon salt
- grófmalaður svartur pipar
- 2 tsk þurrkuð basilika
- 120 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum)
- ca 15 g fersk basilika
- 7 sneiðar beikon eða sem samsvarar fjölda kjúklingalæra
- 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
- 100 g Philadelphia hreinn rjómaostur
- 1 dl vatn
- 2 1/2 msk sojasósa
Ofninn er stilltur á 225 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti, pipar og basiliku kryddi. Mozzarella osturinn er skorin í jafn margar sneiðar og kjúklingalærin segja til um. Ein sneið af mozzarella osti ásamt blöðum af basiliku eftir smekk eru lögð inn í hvert læri. Þeim er svo lokað með því að vefja beikonsneið utan um lærið. Þau eru því næst sett í eldfast mót með samskeitin niður. Sýrðum rjóma, rjómaosti, vatni og soyjasósu er hrært saman og hellt í formið. Bakað í ofni við 225 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og beikonið hefur tekið góðan lit. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskúsi og fersku salati.
Green gate matarstell frá Cup Company.