Caprese kjúklingur


img_3587

Í þessu vorveðri sem ríkt hefur undanfarið höfum við fjölskyldan verið upptekin af því að hugleiða hvernig við viljum verja sumarfríinu. Það varð ofan á að prófa húsaskipti. Við höfum reyndar gert húsaskipti allavega sex sinnum áður en þá alltaf við vinafólk. Núna skráðum við okkur á alþjóðlega húsaskiptasíðu. Þegar við skoðuðum heimilin á síðunni, sem eru út um allan heim, þá leið okkur dálítið eins og að koma að hlaðborði sem svignar af kræsingum. Það var um svo ótal margt að velja, marga áfangastaði og margskonar hús. Ég lá yfir síðunni kvöld eftir kvöld, skoðaði og spekúleraði. Eftir að hafa spáð í flug og fleira fórum við að senda öðrum fjölskyldum boð um skipti. Eftir ýmisskonar samningaviðræður enduðum við á því að festa húsaskipti við indæla fjölskyldu í Montpellier í Suður-Frakkalandi. Við munum eyða þar rúmum tveimur vikum í fallegu húsi með sundlaug. Á leiðinni heim ætlum við að stoppa nokkra daga í París og erum búin að bóka Airbnb íbúð þar. Við erum ákaflega spennt fyrir væntanlegu ferðalagi og hlökkum mikið til! 🙂

En að uppskrift dagsins sem er ofsalega einfaldur og góður kjúklingaréttur. Caprese er þekktur ítalskur réttur, oftast forréttur, með ferskum mozzarellaosti, tómötum, basiliku, ólífuolíu, salti og pipar. Hér eru þessi hráefni notuð með kjúklingi og úr verður fljótgerður og gómsætur kjúklingaréttur.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • Pasta Rossa krydd frá Santa Maria (eða annað gott krydd)
  • salt & pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 4 hvítlauksrif (pressuð)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • 1 msk balsamedik
  • ca. 20-30 g fersk basilika, laufin söxuð gróft.
  • 240 g ferskur mozzarella ostur (2 kúlur), skorinn í fremur þunnar sneiðar

Kjúklingabringurnar kryddaðar með pastakryddinu, salti og pipar. Um það bil 1 msk af olíu er hituð á pönnunni og kjúklingurinn steiktur báðum megin þar til hann hefur fengið góða steikingarhúð og er hér um bil steiktur í gegn. Þá eru kjúklingabringurnar veiddar af pönnunni og settar til hliðar. Því næst er 1 msk af olíu bætt á pönnuna og tómatar og hvítlaukur látið malla í ca. 5 mínútur ásamt balsamediki. Nú er basiliku bætt á pönnuna auk þess sem kjúklingabringurnar eru settar aftur á pönnuna. Mozzarellasneiðunum er raðað ofan á kjúklingabringurnar. Lok er sett á pönnuna og öllu leyft að malla í nokkrar mínútur þar til að kjúklingurinn er fulleldaður og osturinn hefur bráðnað. Saltað og piprað við þörfum.

img_3572img_3583img_3591

 

Beikonvafin kjúklingalæri fyllt með mozzarella og basiliku


Beikonvafinn mozzarella og basiliku kjúklingur Það þarf vart annað en að lesa nafnið á þessari uppskrift til þess að vita að hún sé góðgæti! Kjúklingaréttir sem í er mozzarella og fersk basilika geta hreinlega ekki klikkað og þegar beikon hefur bæst í hópinn þá er dýrðin innsigluð! Einföld og bragðgóð sósan kórónar þennan dásemdar kjúklingarétt. Það er svo þægilegt og auðvelt að setja fyllingu í úrbeinuð kjúklingalæri enda tekur örskamma stund að útbúa þennan rétt fyrir ofninn.

IMG_6685

 Uppskrift f. 4

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2 tsk þurrkuð basilika
  • 120 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum)
  • ca 15 g fersk basilika
  • 7 sneiðar beikon eða sem samsvarar fjölda kjúklingalæra
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 100 g Philadelphia hreinn rjómaostur
  • 1 dl vatn
  • 2 1/2 msk sojasósa

IMG_6675IMG_6679

Ofninn er stilltur á 225 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti, pipar og basiliku kryddi. Mozzarella osturinn er skorin í jafn margar sneiðar og kjúklingalærin segja til um. Ein sneið af mozzarella osti ásamt blöðum af basiliku eftir smekk eru lögð inn í hvert læri. Þeim er svo lokað með því að vefja beikonsneið utan um lærið. Þau eru því næst sett í eldfast mót með samskeitin niður. Sýrðum rjóma, rjómaosti, vatni og soyjasósu er hrært saman og hellt í formið. Bakað í ofni við 225 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og beikonið hefur tekið góðan lit. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskúsi og fersku salati.

IMG_6690Green gate matarstell frá Cup Company.

Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884