Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni


IMG_8668Síðastliðnum dögum, eiginlega vikum, hef ég eytt fyrir framan tölvuna við að finna hús á leigu í Toskana á Ítalíu. Minn elskulegi eiginmaður á stórafmæli í júní og við ákváðum að vera ekki með neina veislu af því tilefni, heldur fara með börnin okkar fjögur og tengdadóttur til Toskana og láta þar með gamlan Ítalíu-draum rætast. Það er óhætt að segja að ég taki svona skiplagningu fyrir sumarfrí af mikilli festu og alvöru. Mér finnst mjög mikilvægt að velja rétta húsið fyrir fjölskylduna og ég held að ég geti fullyrt að eftir þessa leitartörn sé ég farin að þekkja Toskana eins og handarbakið á mér og öll þau ótal hús sem þar eru í boði! 🙂 Mér finnst „örfá“ *hóst, hóst* atriði afar mikilvæg: Að húsið hafi nægilega mörg svefnherbergi þannig að allir fái sitt eigið athvarf: Að það sé sundlaug. Að húsið sé hlýlegt að innan (sum hús í Toskana eru aðeins of „rustic“ að innan fyrir minn smekk) og með góðri aðstöðu í eldhúsinu. Að það sé góð aðstaða í garðinum með nægilega mörgum og góðum húsgögnum (nenni ekki að sitja á lélegum plaststólum eða að sólbekkirnir dugi ekki fyrir alla). Að það sé pizzu-eldofn úti, ekki skilyrði en svo sannarlega kostur. Að það sé dásamlegt útsýni frá húsinu. Að eigendurnir leggi greinilega rækt við húsið, garð og gesti sína. Það var ekki ósjaldan sem ég sá dóma gesta um hús þar sem þeir lýstu frábærum húseigendum sem færðu þeim ólífuolíu, grænmeti og ávexti úr garði sínum og jafnvel voru með kennslu í ítalskri matargerð – hljómar svo dásamlega! Síðast en ekki síst þarf allt þetta að vera á viðráðanlegu verði en leiguverð á húsum í Toskana eru ótrúlega misjöfn. Til að gera langa sögu stutta og eftir leit á netinu sem jafngildir örugglega hátt í vinnuviku þá erum við að fara að baka pizzur í þessum dásamlega eldofni í sumar:

10868226_355078474663195_398201459447046442_n

Svamla í þessari sundlaug á daginn:

c5og sitjum hér með drykk í hönd og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Toskana á kvöldin:

483318_141976005973444_1940797105_n

Maður minn hvað það verður mikið borðað af góðum ítalskum mat og honum skolað niður með ljúffengum vínum úr nærliggjandi héruðum! 🙂

En að uppskrift dagsins. Ég gerði svo góðan kjúklingarétt í vikunni sem mig langar að halda til haga hér á síðunni. Í þessum rétti er bæði rjómi og feitur sýrður rjómi og ég veit að það eru margir sem forðast slíkt í matargerð, vilja nota matreiðslurjóma eða aðrar fitulitlar mjólkurvörur. Ég er hins vegar inn á sömu línu og Læknirinn í eldhúsinu. Þetta skrifar hann frábærri matreiðslubók sem kom út fyrir jólin þegar hann skýrir út af hverju hann notar smjör og rjóma í eldamennskunni: „Samband milli fitu og sjúkdóma er með öllu ósannað og meint tengsli eru úr lausu lofti gripin. Fita orsakar ekki offitu, sykursýki, háþrýsting eða hjarta- og æðasjúkdóma. Því fer meira að segja fjarri. Og mettuð fita er líka hættulaus. Þessi þráhyggja um að fita, mettuð sem ómettuð, orsaki sjúkdóma hefur sennilega þvert á móti átt stóran þátt í því að orskaka þann stórkostlega faraldur offitu og sykursýki sem nú blasir við. Með því að fjarlægja fitu úr matnum tökum við burtu það sem gefur honum góða bragðið og fyllinguna. Í stað fitunnar setjum við svo ýmislegt sem við ættum að borða sem minnst af, eins og sykur og allskonar sykurafleiður, auk ótal gerviefna sem betra væri að vera laus við!“ Amen! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja

IMG_8664

Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_8672

 

Rjómalagaður kjúklingapottréttur


Rjómalagaður kjúklingapottrétturÞessi pottréttur er frábærlega bragðgóður og mikið lostæti. Það er einstaklega einfalt að búa hann til, allt fer á pönnuna og hér um bil eldar sig sjálft. Þetta er tilvalinn laugardagsréttur. Hvítvínsflaskan opnuð fyrir matargerðina og svo er hægt að njóta þess að dreypa á restinni af víninu með matnum. 🙂

Rjómalagaður kjúklingapottréttur f. 3-4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • ólífuolía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 1½ dl hvítvín (eða mysa)
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt & pipar

IMG_6651

Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur. Því næst er kjúklingi og sveppum bætt út á pönnuna og steikt þar til hvort tveggja hefur tekið góðan lit. Þá er tómötunum, kjúklingakraftinum, hvítvíninu, rjómanum og kryddunum bætt út í og látið malla í ca. 10-15 mínútum. Smakkað til og kryddað meira við þörfum. Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum, gott er að blanda Tilda basmati hrísgrjónunum við Tilda vilt hrísgrjón.

IMG_6647

Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090

Kjúklingur í sweet chili sósu


Það er gott að vera komin heim og í rútínu. Eða reyna að komast í rútínu allavega, ég er greinilega ekki alveg komin í gírinn! Mig langaði að elda kjúklingarétt með sweet chilisósu í kvöldmat í gærkvöldi og skoðaði ótal slíkar uppskriftir. Ég fann nokkrar sem mér leist vel á og ákvað að slá saman því besta úr þremur uppskriftum og búa til mína eigin. Ég skrifaði samviskusamlega innkaupalista en kom svo heim með bara hluta af því sem ég ætlaði að kaupa, heilinn enn í sumarfríi! Það átti því sér stað enn meiri spuni í eldhúsinu í gærkvöldi en áætlað var frá upphafi. Hins vegar lukkaðist þetta bara ljómandi vel og úr varð hinn ágætis kjúklingaréttur! Ég stefni hins vegar á að vera skipulagðari í matseðlagerð fyrir vikuna og í innkaupum. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð skipulagði ég alltaf vikumatseðil og verslaði inn fyrir vikuna. Hér á Íslandi er ég óduglegri við það. Ég held að það sé aðallega útaf tvennu, fjölskyldan er orðin svo stór (og það er seint hægt að segja að við séum matgrönn!) að vikuinnkaup kæmust aldrei fyrir í ísskápnum! Að auki þá kaupi ég allt öðruvísi inn hér en úti. Hér fer ég í fiskbúð einu sinni eða tvisvar í viku, kaupi kjöt í kjötbúðum og svo þarf ég oft að fara í margar verslanir til að fá þær vörur sem mig vantar. En ég reyni þó oftast að kaupa inn fyrir tvær eða þrjár kvöldmáltíðir í einu. Fyrstu sjö árin okkar í Svíþjóð vorum við blönk og áttum ekki bíl. Þá þurftu matarinnkaupin að komast í fjóra poka (svo allt kæmist undir barnavagninn), maturinn duga í viku og ekki kosta meira en 500 sek! 🙂 Það var mjög góður skóli í sparnaði og útsjónarsemi! Ég ætla sem sagt að hrista rykið af þeirri lexíu og markmiðið fyrir veturinn verður að skipuleggja matarinnkaupin betur!

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur eða einn teningur
  • 1 rauðlaukur, skorin smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • engifer, rifið, ca. 5 cm bútur
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 kúrbítur, skorinn í bita
  • 3-4 gulrætur, sneiddar
  • 2 dl sweet chilisósa
  • 1 tsk chilimauk
  • 1 ferna matargerðarjómi
  • 1 dós sýrður rjómi

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu, bætið við kjúklingakrafti, salti og pipar. Bætið lauk og hvítlauk út í ásamt papriku, kúrbít og gulrótum, chilimauki og engifer og steikið áfram. Þegar kjúklingur og grænmetið hefur tekið lit er hvor tveggja fært yfir í stóran pott (nema notuð sé þess stærri panna). Þá er matargerðarjóma, sýrðum rjóma og chilisósu bætt út í. Leyfið réttinum að malla í 15 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús.