Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Oregano kjúklingaréttur með perlukúskús


Þegar ég bjó í Svíþjóð verslaði ég alltaf í ICA matvöruversluninni. Ohh, hvað ég sakna þess, vöruúrvalið var svo mikið! Hér þarf maður alltaf að fara í nokkrar verslanir til að fá þær vörur sem mann vantar og margt fæst alls ekki. Ísland hefur þó lambakjötið og sérstaklega fiskinn fram yfir Svíþjóð. En aftur að ICA! Verslunin sendi vikulega viðskiptavinum sínum heim tímarit um mat. Þar var meðal annars dálkur þar sem nokkrar fjölskyldur prófuðu tvær uppskriftir og gáfu álit sitt á þeim. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska allskonar dóma, einkunnir og gagnrýni! 🙂 Ég myndi til dæmis aldrei fara á hótel eða veitingastað sem ekki fær góða gagnrýni og háa einkunn frá gestunum! Allavega, þessi þáttur í blaðinu var í uppáhaldi hjá mér, ég klippti samviskusamlega út allar uppskriftir sem féllu fjölskyldunum vel í geð og setti í uppskriftabókina mína. Ég held að þessi kjúklingauppskrift sé mín uppáhalds úr þessum hópi uppskrifta.

Það sem mér finnst ótrúlegast og best við þessa uppskrift er hvað það þarf fá hráefni til að skapa ljúfengan rétt. Svo er þetta líka fljótlagaður og einfaldur réttur.

Í upphaflegu uppskriftinni eru hvorki sveppir né gulrætur en ég bæti þeim við. Eins er mælt með í uppskriftinni að hafa ofnsteika kartöflubáta sem meðlæti en mér finnst mikið betra að hafa hrísgrjón eða kúskús, þá nýtist bragðgóða sósan mikið betur. Hér notaði ég perlukúskús í fyrsta sinn (fæst í Hagkaup og í versluninni Tyrkneskur bazar). Það sló alveg í gegn, sérstaklega hjá krökkunum, ég mun nota það oftar. Það getur verið erfitt að fá ferskt oregano (bergmyntu). Ég kíki eiginlega alltaf eftir því í verslunarferðum og ef það er til, þá laga ég þennan rétt um kvöldið! Verið óhrædd að nota mikið af bergmyntunni, dragið laufin af stilknum og fínhakkið.

Uppskrift

  • 5 kjúklingabringur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 500 ml. matargerðarjómi
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • Nokkrar greinar af fersku Oregano (bergmyntu)
  • 1 1/2-2 msk. balsamic edik
  • Sveppir og gulrætur eftir smekk
  • Salt og pipar

Aðferð

  1. Skerið hverja kjúklingabringu á lengdina í þrjá bita. Hakkið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppi og gulrætur í bita. Hakkið oregano smátt (dragið blöðin af stilknum), í upprunalega uppskriftinni er talað um 3 matskeiðar af fersku oregano en mér finnst gott að nota mikið meira af því.
  2. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar (ég krydda auðvitað líka með uppáhalds kjúklingakryddinu mínu, Best á allt frá Pottagöldrum!) og steikið upp úr smjörinu og ólífuolíunni þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit. Bætið þá út í hvítlauk, sveppum og gulrótum og steikið í 2-3 mínútur í viðbót.
  3. Bætið út í rjóma, kjúklingakrafti, oregano og balsamic edik. Látið sjóða í 5-8 mínútur (undir loki ef þið eigið það til á pönnuna) eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til sósuna og bætið við salti, pipar eða jafnvel oregano kryddi við þörfum. Ef ég á ferska steinselju og/eða basiliku þá bæti ég því stundum í sósuna. Ef mér finnst of lítið af sósu drýgi ég hana með smá mjólk. Einnig er hægt að nota sósujafnara ef maður vill hafa sósuna þykkari.
  4. Berið fram með perlukúskús (eða hrísgrjónum) og salati eftir smekk.