Þegar ég bjó í Svíþjóð verslaði ég alltaf í ICA matvöruversluninni. Ohh, hvað ég sakna þess, vöruúrvalið var svo mikið! Hér þarf maður alltaf að fara í nokkrar verslanir til að fá þær vörur sem mann vantar og margt fæst alls ekki. Ísland hefur þó lambakjötið og sérstaklega fiskinn fram yfir Svíþjóð. En aftur að ICA! Verslunin sendi vikulega viðskiptavinum sínum heim tímarit um mat. Þar var meðal annars dálkur þar sem nokkrar fjölskyldur prófuðu tvær uppskriftir og gáfu álit sitt á þeim. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska allskonar dóma, einkunnir og gagnrýni! 🙂 Ég myndi til dæmis aldrei fara á hótel eða veitingastað sem ekki fær góða gagnrýni og háa einkunn frá gestunum! Allavega, þessi þáttur í blaðinu var í uppáhaldi hjá mér, ég klippti samviskusamlega út allar uppskriftir sem féllu fjölskyldunum vel í geð og setti í uppskriftabókina mína. Ég held að þessi kjúklingauppskrift sé mín uppáhalds úr þessum hópi uppskrifta.
Það sem mér finnst ótrúlegast og best við þessa uppskrift er hvað það þarf fá hráefni til að skapa ljúfengan rétt. Svo er þetta líka fljótlagaður og einfaldur réttur.
Í upphaflegu uppskriftinni eru hvorki sveppir né gulrætur en ég bæti þeim við. Eins er mælt með í uppskriftinni að hafa ofnsteika kartöflubáta sem meðlæti en mér finnst mikið betra að hafa hrísgrjón eða kúskús, þá nýtist bragðgóða sósan mikið betur. Hér notaði ég perlukúskús í fyrsta sinn (fæst í Hagkaup og í versluninni Tyrkneskur bazar). Það sló alveg í gegn, sérstaklega hjá krökkunum, ég mun nota það oftar. Það getur verið erfitt að fá ferskt oregano (bergmyntu). Ég kíki eiginlega alltaf eftir því í verslunarferðum og ef það er til, þá laga ég þennan rétt um kvöldið! Verið óhrædd að nota mikið af bergmyntunni, dragið laufin af stilknum og fínhakkið.
Uppskrift
- 5 kjúklingabringur
- 3 hvítlauksgeirar
- 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
- 500 ml. matargerðarjómi
- 1 teningur kjúklingakraftur
- Nokkrar greinar af fersku Oregano (bergmyntu)
- 1 1/2-2 msk. balsamic edik
- Sveppir og gulrætur eftir smekk
- Salt og pipar
Aðferð
- Skerið hverja kjúklingabringu á lengdina í þrjá bita. Hakkið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppi og gulrætur í bita. Hakkið oregano smátt (dragið blöðin af stilknum), í upprunalega uppskriftinni er talað um 3 matskeiðar af fersku oregano en mér finnst gott að nota mikið meira af því.
- Kryddið kjúklinginn með salti og pipar (ég krydda auðvitað líka með uppáhalds kjúklingakryddinu mínu, Best á allt frá Pottagöldrum!) og steikið upp úr smjörinu og ólífuolíunni þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit. Bætið þá út í hvítlauk, sveppum og gulrótum og steikið í 2-3 mínútur í viðbót.
- Bætið út í rjóma, kjúklingakrafti, oregano og balsamic edik. Látið sjóða í 5-8 mínútur (undir loki ef þið eigið það til á pönnuna) eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til sósuna og bætið við salti, pipar eða jafnvel oregano kryddi við þörfum. Ef ég á ferska steinselju og/eða basiliku þá bæti ég því stundum í sósuna. Ef mér finnst of lítið af sósu drýgi ég hana með smá mjólk. Einnig er hægt að nota sósujafnara ef maður vill hafa sósuna þykkari.
- Berið fram með perlukúskús (eða hrísgrjónum) og salati eftir smekk.
Bakvísun: Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu | Eldhússögur
Eldaði þennan rétt og lukkaðist mjög vel, notaði spice kúskús og fór það mjög vel.
Enfaldur og mjög góður!
Frábært að heyra Þórður, takk fyrir kveðjuna! 🙂