Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

  • 300 g tagliatelle
  • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • 2 msk rautt pestó
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • 1 msk þurrkað oregano
  • salt og pipar
  • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Rjómalagaður kjúklingapottréttur


Rjómalagaður kjúklingapottrétturÞessi pottréttur er frábærlega bragðgóður og mikið lostæti. Það er einstaklega einfalt að búa hann til, allt fer á pönnuna og hér um bil eldar sig sjálft. Þetta er tilvalinn laugardagsréttur. Hvítvínsflaskan opnuð fyrir matargerðina og svo er hægt að njóta þess að dreypa á restinni af víninu með matnum. 🙂

Rjómalagaður kjúklingapottréttur f. 3-4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • ólífuolía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 1½ dl hvítvín (eða mysa)
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt & pipar

IMG_6651

Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur. Því næst er kjúklingi og sveppum bætt út á pönnuna og steikt þar til hvort tveggja hefur tekið góðan lit. Þá er tómötunum, kjúklingakraftinum, hvítvíninu, rjómanum og kryddunum bætt út í og látið malla í ca. 10-15 mínútum. Smakkað til og kryddað meira við þörfum. Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum, gott er að blanda Tilda basmati hrísgrjónunum við Tilda vilt hrísgrjón.

IMG_6647

Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884

Tælenskur kjúklingur í grænu karrí


Ég er að berjast við löngunina að skrifa ekki karrí með ý! Karrí er víst skrifað með venjulegu i í íslensku en einhvern vegin finnst mér karrý líta betur út á prenti, ætli það sé ekki enskuvæðingunni að kenna! En burtséð frá því þá er tælenskur kjúklingur í grænu karrí ákaflega góður réttur! 🙂 Þó svo að ég leitist yfirleitt við að elda allan mat frá grunni þá er ég líka alltaf á höttunum eftir fljótlegum, einföldum og góðum matréttum eins og örugglega flestar aðrar uppteknar fjölskyldur. Sérstaklega þessa dagana þegar ég er að skrifa ritgerðina mína bókstaflega dag og nótt. Ég ákvað að prófa green curry mix frá Santa Maria og blanda því við kjúkling, bætti svo bara við lauk, hvítlauk og papriku ásamt kókosmjólk. Gæti ekki verið einfaldara og rétturinn sló í gegn hér heima. Það sem kom mér mest á óvart var að yngstu krakkarnir hámuðu í sig matinn og fannst hann svo góður! Rétturinn er bragðmikill en samt ekki of sterkur. Ég spurði þau einmitt hvort þeim þætti hann ekkert of sterkur, en svo var ekki! Það er líka til rautt karrí mix sem ég ætla að prófa næst.

Uppskrift:

  • 3-4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • 1 bréf Green Curry Spice Mix
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/2 -1 laukur, saxaður í þunnar sneiðar
  • 1 rauð paprika, söxuð í þunnar sneiðar
  • smjör til steikingar

Laukur, hvítlaukur og paprika steikt upp úr smjörinu í þar til það verður mjúkt. Þá er kjúklingnum bætt út í og hann steiktur á öllum hliðum. Því næst er kryddinu bætt út í blandað vel. Þá er kókosmjólk hellt út á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum.

Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni


Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni

 

Um daginn gerði ég mangókjúkling með kasjúhnetum og kókos. Hann er afar gómsætur en tekur smá tíma að útbúa. Í kvöld þurfti ég að búa til eitthvað fljótlegt og fyrir valinu varð réttur sem ég sá inni á sænsku matarbloggi. Sósan er ekkert ósvipuð í grunninn og sú í mangókjúklingaréttinum en þessi réttur er mun einfaldari og afskaplega fljótgerður. Í hann er notaður tilbúinn grillaður kjúklingur og í sósuna eru notuð frekar fá hráefni. Þó það sé ekkert dúllað við að rista kókoshnetur og kókos í þessum rétti er hann samt afar bragðgóður. Ef maður fær ekki tilbúinn kjúkling út í búð (hann á það oft til að vera búinn einmitt þegar maður er seint á ferðinni og þarf að gera eitthvað fljótlegt í matinn!) þá er hægt að kaupa einn bakka af kjúklingabringum, skera þær niður í bita og snöggsteikja. Ég átti svo mikið af gulrótum að ég ákvað að prófa að gera uppskrift sem ég sá á netinu um daginn, að karamellusera gulræturnar upp úr smjöri og hrásykri með ferskum, rifnum engifer. Það var afskaplega gott en passar örugglega enn betur með til dæmis með lambalæri.

Uppskrift f. 3-4:

  • 1 grillaður kjúklingur, kjötið hreinsað af beinunum og skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur smátt
  • smjör til steikingar
  • 3 dl matargerðarjómi eða kaffirjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2-3 msk mango chutney
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • salt & pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur lagður í eldfast mót. Púrrlaukur steiktur í smjöri þar til hann er orðinn mjúkur. Mango chutney, rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og nautakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp og sósan smökkuð til með salti og pipar. Sósunni síðan hellt yfir kjúklinginn og hitað í ofni í 15-20 mínútur þar til rétturinn er orðinn heitur í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

 

img_9796

Kjúklingur í himneskri sósu


Ég bjó eiginlega til þennan rétt með hálfum hug. Ég er nefnilega ekkert of hrifin af sólþurrkuðum tómötum, finnst þeir bara góðir ef þeir eru ekki of afgerandi í uppskriftunum. Þetta er afsakaplega einfaldur réttur, mjög fljótlegt að búa hann til og það kom mér síðan skemmtilega á óvart hvað hann var góður! Elfari fannst hann afar góður líka en það sem kom kannski mest á óvart var að Alexander fannst þetta vera besti rétturinn sem ég hef nokkurn tíma gert! Það er reyndar býsna auðvelt að elda fyrir hann, honum finnst allt gott sem ég geri! 🙂 En sósan var sem sagt sú bragðbesta sem hann hefur borðað hingað til, ekki slæm einkunn það! Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að nota krydd sem heitir ungversk paprika, það er sætara paprikukrydd en þetta hefðbundna. Það er til frá Pottagöldrum en ég átti það ekki til og notaði því bara hefðbundið paprikukrydd.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • ungversk paprika eða venjulegt paprikukrydd

sósa:

  • 6-8 sólþurrkaðir tómatar + 2 msk af olíunni
  • 1-2 dl vatn
  • 1 msk balsamedik
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari (eða maizenamjöl)
  • 1/2- 2/3 poki af ferskri steinselju

Kjúklingabringurnar eru skornar í 3 bita og kryddaðar paprikukryddi, salti og pipar. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu upp úr smjöri og olíu þar til að þeir hefur náð lit á öllum hliðum. Kjúklingurinn er því næst veiddur af pönnunni og vatninu þeytt saman við feitina, sem eftir var á pönnunni, með písk. Sólþurrkuðu tómatarnir saxaðir smátt og bætt út á pönnuna ásamt tveimur matskeiðum af olíunni af sólþurrkuðu tómötunum. Því næst er tómatpúrru, sojasóusu, nautakrafti, sýrðum rjóma og rjóma bætt út í og sósan smökkuð til með salti, pipar og paprikukryddi. Dálítið af sósujafnara bætt út í til að þykkja sósuna. Kjúklingurinn er nú settur aftur út í sósuna (og safinn sem mögulega hefur runnið af honum á meðan hann beið) og látið malla í 10-15 mínútur. Steinselja er söxuð smátt og bætt út í rétt áður en rétturinn er borinn fram.  Ég bar fram með réttinum ofnsteiktar kartöflur og sætar kartöflur ásamt fersku salati. Það er örugglega líka gott að bera fram hrísgrjón eða kúskús með réttinum.