Ég er að berjast við löngunina að skrifa ekki karrí með ý! Karrí er víst skrifað með venjulegu i í íslensku en einhvern vegin finnst mér karrý líta betur út á prenti, ætli það sé ekki enskuvæðingunni að kenna! En burtséð frá því þá er tælenskur kjúklingur í grænu karrí ákaflega góður réttur! 🙂 Þó svo að ég leitist yfirleitt við að elda allan mat frá grunni þá er ég líka alltaf á höttunum eftir fljótlegum, einföldum og góðum matréttum eins og örugglega flestar aðrar uppteknar fjölskyldur. Sérstaklega þessa dagana þegar ég er að skrifa ritgerðina mína bókstaflega dag og nótt. Ég ákvað að prófa green curry mix frá Santa Maria og blanda því við kjúkling, bætti svo bara við lauk, hvítlauk og papriku ásamt kókosmjólk. Gæti ekki verið einfaldara og rétturinn sló í gegn hér heima. Það sem kom mér mest á óvart var að yngstu krakkarnir hámuðu í sig matinn og fannst hann svo góður! Rétturinn er bragðmikill en samt ekki of sterkur. Ég spurði þau einmitt hvort þeim þætti hann ekkert of sterkur, en svo var ekki! Það er líka til rautt karrí mix sem ég ætla að prófa næst.
Uppskrift:
- 3-4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
- 1 bréf Green Curry Spice Mix
- 1 dós kókosmjólk
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 1/2 -1 laukur, saxaður í þunnar sneiðar
- 1 rauð paprika, söxuð í þunnar sneiðar
- smjör til steikingar
Laukur, hvítlaukur og paprika steikt upp úr smjörinu í þar til það verður mjúkt. Þá er kjúklingnum bætt út í og hann steiktur á öllum hliðum. Því næst er kryddinu bætt út í blandað vel. Þá er kókosmjólk hellt út á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum.
Áttu fleyri tælenska rétti í fórum þínum sem þú hefur eldað og getur með góðri samvisku deilt ? því með okkur hinum 🙂 ég nefnilega elska tælenskan mat ..en þori ekki að prófa fyr en einhver annar hefur prófað og veit hvenig þetta er gert 🙂
Sæl Selma. Ég elda ekkert rosalega oft tælenskt en ég skal setja inn uppskrift um leið og ég get! 🙂
takk 🙂
Hvað helduru að þetta sé fyrir marga ? 🙂
Reiknaðu allavega með einni kjúklingabringu á mann Bára Mjöll! 🙂