Kjúklinga „stir fry“ með kasjúhnetum


Kjúklinga "stir fry" með kasjúhnetumEnn ein helgin flogin hjá. Ég ætla að gera svo mikið um helgar en ég held að ég sé alltaf að misreikna hversu langar þær eru í raun og veru. Ég afrekaði þó ýmislegt skemmtilegt þessa helgina. Hún byrjaði með frábærri vasaljósagöngu seinnipartinn á föstudag þar sem bekkjarfélagar Jóhönnu Ingu ásamt foreldrum fóru upp á Vatnsenda í myrkrinu með vasaljós og krakkarnir leituðu að földum endurskinsmerkjum, drukku heitt kakó og borðuðu piparkökur. Um kvöldið þjófstörtuðum við aðventunni með jólamynd. Við fjölskyldan höfum þá hefð að horfa saman á jólabíómynd á föstudagskvöldum yfir aðventuna.

Aldrei þessu vant var Elfar í helgarfríi og í gær fórum í miðbæinn með krakkana og upplifðum jólastemmninguna þar. Ég var mjög spennt að komast í ráðhúsið á bókamessuna og skoða allar nýju barnabækurnar fyrir bókasafnið mitt. Jóhanna Inga var ekkert lítið glöð að hitta þar fyrir Gunnar Helgason og fá hjá honum áritað eintak af Rangstæður í Reykjavík. Þó svo að hún hafi engan áhuga á fótbolta þá finnst henni þessar bækur frábærar og hún hefur hlustað á hljóðbókina af Aukaspyrnu á Akureyri örugglega meira en tíu sinnum! Um kvöldið fór ég með vinkonum út að borða á Vegamót og svo sáum við leiksýninguna Hús Bernhörðu Ölbu.  Í dag fórum við í notalegt kaffiboð til ömmu og afa þar sem við fengum pönnukökurnar hennar ömmu, mæli með þeim! Sem sagt, margt skemmtilegt brallað um helgina á milli hefðbundnu heimilisverkanna.

Helginni var lokið með sérlega góðum kjúklingarétti. Mér finnst voðalega gott að fá mér svona „stir fry“ rétti á asískum stöðum með kjúklingi, fullt af grænmeti og kasjúhnetum. Í kvöld ákvað ég að reyna að búa til eigin útgáfu af slíkum rétti og mér fannst takast afar vel til. Fjölskyldan var voðalega ánægð með þennan rétt og lofaði hann bak og fyrir. Enn og aftur sannast að það þarf ekki að vera flókið að búa til holla, einfalda og ljúffenga rétti. Ég mæli með því að þið prófið þessa uppskrift við fyrsta tækifæri! 🙂

Uppskrift f. ca. 4-5

  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frystar frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsað og saxað smátt
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, skornir í sneiðar
  • 1 meðalstór haus brokkolí, skorið í bita
  • 1 meðalstór haus blómkál, skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur, skornar í sneiðar
  • 150 g kasjúhnetur
  • 1.5 dl hoisinsósa
  • 1 tsk fiskisósa
  • 1.5 dl vatn
  • salt & pipar
  • chili flögur (má sleppa)

Kasjúhneturnar eru ristaðar á heitri og þurri pönnu þar til þær fá lit og þær lagðar til hliðar. Kjúklingur er skorinn í bita. Góð sletta af ólífuolíu er sett á pönnu og hitað. Þá er chili og hvítlauk bætt út á pönnuna í stutta stund. IMG_1520 Því næst er kjúklingnum bætt við og hann steiktur í 3-4 mínútur, saltað og piprað.

IMG_1529 Svo er öllu grænmetinu bætt út á pönnuna (olíu bætt við ef þarf) og steikt þar til grænmetið fer að mýkjast, hrært í reglulega. Þá er hoisinsósu, fiskisósu og vatni bætt út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur. Að lokum er ristuðu kasjúhnetunum bætt út í réttinn. IMG_1536Ef maður vill hafa réttinn sterkari er hægt að krydda hann aukalega með chiliflögum. Borið fram með hrísgrjónum eða núðlum. Njótið!

IMG_1553

Tælenskur kjúklingur í grænu karrí


Ég er að berjast við löngunina að skrifa ekki karrí með ý! Karrí er víst skrifað með venjulegu i í íslensku en einhvern vegin finnst mér karrý líta betur út á prenti, ætli það sé ekki enskuvæðingunni að kenna! En burtséð frá því þá er tælenskur kjúklingur í grænu karrí ákaflega góður réttur! 🙂 Þó svo að ég leitist yfirleitt við að elda allan mat frá grunni þá er ég líka alltaf á höttunum eftir fljótlegum, einföldum og góðum matréttum eins og örugglega flestar aðrar uppteknar fjölskyldur. Sérstaklega þessa dagana þegar ég er að skrifa ritgerðina mína bókstaflega dag og nótt. Ég ákvað að prófa green curry mix frá Santa Maria og blanda því við kjúkling, bætti svo bara við lauk, hvítlauk og papriku ásamt kókosmjólk. Gæti ekki verið einfaldara og rétturinn sló í gegn hér heima. Það sem kom mér mest á óvart var að yngstu krakkarnir hámuðu í sig matinn og fannst hann svo góður! Rétturinn er bragðmikill en samt ekki of sterkur. Ég spurði þau einmitt hvort þeim þætti hann ekkert of sterkur, en svo var ekki! Það er líka til rautt karrí mix sem ég ætla að prófa næst.

Uppskrift:

  • 3-4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • 1 bréf Green Curry Spice Mix
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/2 -1 laukur, saxaður í þunnar sneiðar
  • 1 rauð paprika, söxuð í þunnar sneiðar
  • smjör til steikingar

Laukur, hvítlaukur og paprika steikt upp úr smjörinu í þar til það verður mjúkt. Þá er kjúklingnum bætt út í og hann steiktur á öllum hliðum. Því næst er kryddinu bætt út í blandað vel. Þá er kókosmjólk hellt út á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum.