Kjúklingur með ostasnakki, sætum kartöflufrönskum og kryddjurtasósu með hvítlauki


IMG_1316

Ég rakst á ostasnakk inni í skáp hjá mér sem er skrítið þar sem að ég held að enginn í fjölskyldunni borði þannig snakk. Ég reyni hins vegar alltaf að nýta allt og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki notað það í eitthvað. Ég ákvað að reyna að búa til rasp úr ostasnakkinu fyrir kjúkling og úr varð, að mér fannst allavega, sjúklega góður kjúklingur með sósu og sætum frönskum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ég notaði heilar bringur því mér finnst þær vera safaríkastar. Ég prófaði bæði að steikja kjúklinginn á pönnu og baka í ofni og hélt fyrirfram að sá steikti yrði líklega betri en mér fannst eiginlega ofnbakaði kjúklingurinn betri. Sósan er einföld en hrikalega góð en Herbes de Provence kryddið er einmitt svo gott í svona sósur. Þegar ég var síðast í Stokkhólmi kom ég við í búðinni hjá Leila Lindholm, sem er þekktur sjónvarpskokkur þar í landi, og keypti meðal annars þessar sniðugu skálar og svo pappír til að leggja í þær. Það er alveg óskaplega gaman að bera fram heimagerðan skyndibita á svona skemmtilegan máta.

IMG_1321

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 dós jógúrt án ávaxta (180 g)
  • 1 eggjahvíta     snakk
  • 1 msk dijon sinnep
  • 60 g ostasnakk
  • 50 g kornflex
  • 1/2 tsk cayanne pipar
  • 1/2 hvítlaukskrydd
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1/2 tsk oregano
  • 1/2 tsk basilika
  • salt & pipar
  • ólífuolía
  • 500 g sætar kartöflur.

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður með ólífuolíu. Sætu kartöflurnar er skornar í hæfilega stóra bita líkt og franskar kartöflur. Þeim er velt upp úr ólífuolíu, salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. ítölsku kryddi. Því næst er þeim dreift yfir annan helming bökunarplötunnar.

IMG_1301

Kornflex og ostasnakk er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, salt, hvítlaukskrydd, paprikukrydd, oregano og basiliku. Í annarri skál er jógúrti, eggjahvítu, dijon sinnepi og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr ostasnakks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur ásamt sætu kartöflunum eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer eftir stærðinni á bringunum. Borið fram með kryddjurtasósu með hvítlauki.

Kryddjurtasósa með hvítlauki

  • 1 dós sýrður rjómi (t.d. 10% eða 18%)
  • ca. 2 tsk Herbes de Provence frá Pottagöldrum
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_1319

IMG_1328

Hér er svo kjúklingur steiktur.

IMG_1303

Kjúklingabringur fylltar með döðlum, beikoni og fetaosti


IMG_1246

Ég tók í mig fyrir nokkru að mig langaði svo mikið í einhverskonar kjúklingarétt með döðlum og beikoni. Síðan þá hef ég prófað mig áfram með nokkrar útgáfur. Til dæmis pófaði ég að vefja slíkri fyllingu upp í úrbeinuðum kjúklingalærum ásamt fleiri tilraunum. Það var ekki fyrr en að mér datt í hug að bæta við fetaosti og lauki við blönduna og setja hana inn í vasa á kjúklingabringu að mér fannst rétturinn smella saman. Satt best að segja finnst mér þetta einn besti kjúklingaréttur sem ég hef fengið lengi og vona að ég sé ekki ein um það! 🙂 Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa sætkartöflumúsina og fetaosta- og hvítlaukssósuna með réttinum, það setur punktinn yfir i-ið.

IMG_1254

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði Rose Poultry)
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 200 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Djúpur vasi er skorinn í kjúklingabringurnar og þess gætt að þær séu ekki gataðar. Bringurnar eru svo kryddaðar með salti, pipar og chiliflögum. Fyrir þá sem vilja er hægt að snöggsteikja bringurnar, ca. 1 mínútu á hvorri hlið á þessum tímapunkti, til þess að þær fái steikingarhúð.

Beikon er steikt á pönnu og þegar það nálgast að verða stökkt er lauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3-4 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Helmingurinn af blöndunni er tekinn af pönnunni, skipt á milli kjúklingabringanna og vasarnir á þeim fylltir. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki og paprikukryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni hellt í botninn á eldföstu móti og kjúklingabringunum raðað ofan á. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með sætkartöflumús og fetaosta- og hvítlaukssósu.

Fetaosta- og hvítlaukssósa:

  • 70 g fetaosturinn (restin af fetaostakubbinum)
  • 1 dós sýrður rjómi 18% (180 g)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllum hráefnunum er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkað til með salti og pipar.

IMG_1252IMG_1258

Rjómalagaður kjúklingapottréttur


Rjómalagaður kjúklingapottrétturÞessi pottréttur er frábærlega bragðgóður og mikið lostæti. Það er einstaklega einfalt að búa hann til, allt fer á pönnuna og hér um bil eldar sig sjálft. Þetta er tilvalinn laugardagsréttur. Hvítvínsflaskan opnuð fyrir matargerðina og svo er hægt að njóta þess að dreypa á restinni af víninu með matnum. 🙂

Rjómalagaður kjúklingapottréttur f. 3-4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • ólífuolía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 1½ dl hvítvín (eða mysa)
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt & pipar

IMG_6651

Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur. Því næst er kjúklingi og sveppum bætt út á pönnuna og steikt þar til hvort tveggja hefur tekið góðan lit. Þá er tómötunum, kjúklingakraftinum, hvítvíninu, rjómanum og kryddunum bætt út í og látið malla í ca. 10-15 mínútum. Smakkað til og kryddað meira við þörfum. Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum, gott er að blanda Tilda basmati hrísgrjónunum við Tilda vilt hrísgrjón.

IMG_6647

Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku


Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku

Mér líður eins og það hafi liðið heil helgi síðan ég var í vinnunni í gær. Ég held að það sé vegna þess að í dag var Elfar aldrei þessu vant í fríi líka og svo gerðum við líka svo margt skemmtilegt. Í gærkvöldi fórum við í glæsilegt stórafmæli með fjórrétta máltíð og skemmtun fram á nóttu. Þeir sem eru fylgjendur Eldhússagna á Instagram gátu einmitt séð myndir frá afmælinu. Í dag erum við búin að njóta góða veðursins, dunda okkur við ýmiss verkefni hérna heima og enduðum á kvöldsundi.

Ég er enn að prófa mig áfram með parmesan, brauðteninga, mozzarella og kryddjurta kjúkling! Þetta er bara svo óskaplega gott hráefni og hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr því! Ég hef gert þessa tvo rétti sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, parmesan- kryddjurtakjúklingur og ítalskan parmesankjúkling. Að þessu sinni ákvað ég að nota úrbeinað kjúklingalæri og bæta við parmaskinku. Þessi réttur sló algjörlega í gegn. Heimilisfólkið sagði að þetta væri „Kentucy Fried Chicken mætir ostafylltum kjúklingabringum“! Ég reyndi að útfæra réttinn á sem auðveldasta hátt þannig að hann yrði eins fljótlegur og hægt er. Úrbeinuð kjúklingalæri eru fremur þunn og henta vel til þess að rúlla upp án þess að þurfa að fletja þau út sérstaklega. Rúllan helst þó ekkert sérstaklega vel saman, þess vegna lagði ég þær beint í eldfasta formið og stráði brauðteninga/parmesan mylsnunni yfir í stað þess að velta þeim sérstaklega upp úr mylsnunni. Þetta gerði réttinn afar fljótlegan að útbúa. Útkoman var frábær og þetta er klárlega réttur sem ég mun gera reglulega.

IMG_9507

  • 1200 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • parmaskinka (ég notaði hálfa parmaskinkusneið á hvert læri)
  • ca. 2 dl rifinn mozzarellaostur
  • 1 stk oregano
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dl vatn
  • 50 g smjör
  • 2 hvítlauksrif
  • ca 80 g brauðteningar með osti og hvítlauk
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 teskeið paprikukrydd
  • maldon salt og ferskmalaður svartur pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingalærin eru lögð á bretti (það er hægt að fletja þær aðeins út – banka með kökukefli – ef maður vill þær þynnri) og þau krydduð vel með salti, pipar og oregano. Ofan á hvert læri er svo lögð parmaskinka og rifinn mozzarellaostur. Lærunum er svo rúllað varlega upp og rúllurnar lagðar í smurt eldfast mót með samskeytin niður. Vatn, kjúklingateningur og smjör sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðnað og tengingurinn leystur upp. Blöndunni er hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu. Brauðteningar eru muldir í matvinnsluvél og rifna parmesanostinum er blandað saman við brauðteningamylsnuna ásamt paprikukryddinu, salti og pipar. Þessari blöndu er dreift vel yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_9500

IMG_9502

IMG_9504

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490