Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Rósmarínkjúklingur með parmaskinku


Rósmarínkjúklingur með parmaskinku

Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.

IMG_1733

Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.

Uppskrift: 

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
  • 1 bréf parmaskinka
  • ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
  • 1 knippi ferskt rósmarín
  • 1 knippi fersk salvía
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl balsamedik
  • flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
  • grófmalaður svartpipar

IMG_1709

 Ofn hitaður í 180 gráður. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti og pipar. Ein lítil grein af salvíu og ein lítil grein af rósmarín er lögð inn í hvert læri og lærið hálfvafið utan um kyddjurtirnar. Því næst er parmaskinku vafið utan um kjúklinginn. Kjúklingurinn eru lagður í eldfast mót. Þá er ólífuolíunni og balsamedik blandað saman. Ég notaði dálítið af olíunni sem hvítlaukurinn lá í á móti ólífuolíunni. Blöndunni er dreift yfir kjúklinginn og því næst er hvítlauknum dreift yfir. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
IMG_1734
Athugið að þegar kjúklingsins er neytt þá eru kryddjurtirnar teknar frá.