Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.
Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.
Uppskrift:
- 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
- 1 bréf parmaskinka
- ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
- 1 knippi ferskt rósmarín
- 1 knippi fersk salvía
- 1 dl ólífuolía
- 1 dl balsamedik
- flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
- grófmalaður svartpipar