
Harissa er afar ljúffengt kryddmauk upprunnið frá Norður Afríku. Það er búið til meðal annars úr chili, hvítlauk, cumin fræjum, kúmen fræjum, fennel fræjum, kóríander fræjum, grilluðum paprikum og ólífuolíu. Það kunn vera best heimatilbúið en ég á eftir að prófa það. Harissa er hægt að nota á margskonar hátt. Til dæmis út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, í pottrétti eða út í kúskús. Ég hef fengið Harissa maukið í Hagkaup og Nettó en það fæst örugglega víðar. Hér bjó ég til dásamlega góðan grillsósu fyrir kjúkling úr maukinu, mæli með þessu! 🙂
Grillaðar Harissa kjúklingabringur
- 6 kjúklingabringur
- 2/3 krukka Harissa
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 hvitlauksrif, hökkuð smátt
- 1 msk. ólífuolía
Blandið saman hráefnunum og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið þeim vel upp úr sósunni og geymið í kæli. Því lengur því betra en yfirleitt liggur manni á (allavega mér!) þannig að 10-15 mínútur duga alveg! 🙂 Grillið svo á útigrilli þar til bringurnar eru tilbúnar. Einnig hægt að setja bringurnar inn í ofn í eldföstu móti því þá nýtist sósan enn betur þar sem að sósan verður eftir á botni mótsins. Hitið þá við 200 gráður í 30-35 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.

Kúskús
Ég kaupi oft hreint kúskús, það er án krydds. Ég elda þá kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakkanum en í stað þess að bæta við smjöri í lok eldunartímans eins og sagt er til um þá nota ég kryddolíu af fetaosti, helli vænni bunu af henni út i kúskúsið og hræri. Þannig fær kúskúsið bæði olíu og krydd.
Salat með bökuðum kokteiltómötum
- 1 askja kokteiltómatar
- 2 msk. Harissa
- 1 msk. ólífuolía
- 1 msk. balsamedik
- maldon salt og pipar
Hitið bakarofn í 80 gráður. Setjið tómatana í lítið eldfast mót. Blandið Harissa, ólífuolíu, balsamedik saman, hellið yfir tómatana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Kryddið með salti og pipar. Setjið í ofn í 35-40 mínútur.
Blandið heitum tómötunum saman við blandað salat, klettasalat og fetaost.
Harissa er frekar bragðsterkt en samt ekki of, börnin eru til dæmis mjög hrifin af þessum rétti. En það er afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með réttinum milda og frískandi myntujógúrtsósu en uppskrift af henni er að finna hér (gleymdist að setja sósuna á diskinn í myndartökunni!). Með þessu bar ég einnig fram grillaða sveppi á teini. Mæli alveg með þessum rétti! 🙂

Líkar við:
Líkar við Hleð...