Chilikartöflur með papriku


Þessar chili-papriku kartöflur passa ákaflega vel með grillmat. Ég vil oft festast í þeirri gildru að hafa alltaf sama meðlætið með grillmat og reyni því meðvitað að prufa reglulega eitthvað nýtt. Þetta er meðlæti sem ég mun örugglega gera aftur og reglulega, ofsalega gott!

Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

Þessar kartöflur er svolítið sterkar en samt mátulegar finnst mér allavega! 🙂 Afar góðar með öllum grillmat, hvort sem um er að ræða dökkt eða ljóst kjöt.

Grillaðar Harissa kjúklingabringur með kúskúsi, salati með bökuðum kokteiltómötum og myntujógúrtsósu


Harissa er afar ljúffengt kryddmauk upprunnið frá Norður Afríku. Það er búið til meðal annars úr chili, hvítlauk, cumin fræjum, kúmen fræjum, fennel fræjum, kóríander fræjum, grilluðum paprikum og ólífuolíu. Það kunn vera best heimatilbúið en ég á eftir að prófa það. Harissa er hægt að nota á margskonar hátt. Til dæmis út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, í pottrétti eða út í kúskús. Ég hef fengið Harissa maukið í Hagkaup og Nettó en það fæst örugglega víðar. Hér bjó ég til dásamlega góðan grillsósu fyrir kjúkling úr maukinu, mæli með þessu! 🙂

Grillaðar Harissa kjúklingabringur

  • 6 kjúklingabringur
  • 2/3 krukka Harissa
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 hvitlauksrif, hökkuð smátt
  • 1 msk. ólífuolía

Blandið saman hráefnunum og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið þeim vel upp úr sósunni og geymið í kæli. Því lengur því betra en yfirleitt liggur manni á (allavega mér!) þannig að 10-15 mínútur duga alveg! 🙂 Grillið svo á útigrilli þar til bringurnar eru tilbúnar. Einnig hægt að setja bringurnar inn í ofn í eldföstu móti því þá nýtist sósan enn betur þar sem að sósan verður eftir á botni mótsins. Hitið þá við 200 gráður í 30-35 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.

Kúskús

Ég kaupi oft hreint kúskús, það er án krydds. Ég elda þá kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakkanum en í stað þess að bæta við smjöri í lok eldunartímans eins og sagt er til um þá nota ég kryddolíu af fetaosti, helli vænni bunu af henni út i kúskúsið og hræri. Þannig fær kúskúsið bæði olíu og krydd.

Salat með bökuðum kokteiltómötum

  • 1 askja kokteiltómatar
  • 2 msk. Harissa
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 msk. balsamedik
  • maldon salt og pipar

Hitið bakarofn í 80 gráður. Setjið tómatana í lítið eldfast mót. Blandið Harissa, ólífuolíu, balsamedik saman, hellið yfir tómatana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Kryddið með salti og pipar. Setjið í ofn í 35-40 mínútur.

Blandið heitum tómötunum saman við blandað salat, klettasalat og fetaost.

Harissa er frekar bragðsterkt en samt ekki of, börnin eru til dæmis mjög hrifin af þessum rétti. En það er afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með réttinum milda og frískandi myntujógúrtsósu en uppskrift af henni er að finna hér (gleymdist að setja sósuna á diskinn í myndartökunni!). Með þessu bar ég einnig fram grillaða sveppi á teini. Mæli alveg með þessum rétti! 🙂

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Tvenns konar jógúrtsósur


Það er hægt að gera margskonar góðar jógúrtsósur en þær henta sérstaklega vel með grilluðum mat, til dæmis með fiski, kjöti og grænmeti. Ég nota helst gríska jógúrt eða tyrkneska jógúrt en hægt er að fá hina síðarnefndu í versluninni Tyrkneskur bazar, Síðumúla 17. Hér að neðan gef ég uppskriftir af afbrigði af tzatziki sósu annars vegar og myntusósu hins vegar.

Tzatziki sósa með engifer

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvitlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 2 msk. engifer, rifið smátt
  • 1 msk. ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni og rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram með til dæmis kjúklingi, kjöti eða fiski. Hentar sérstaklega vel með grilluðum mat.




Myntujógúrtsósa

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 gott búnt af ferskri myntu, söxuð smátt
  • 1 msk. sítrónusafi
  • salt og nýmalaður pipar

Öllu blandað saman og kælt í ísskáp. Sósan er góð með margskonar réttum, til dæmis kjúklingi og fiski og á vel við grillaðan mat og kryddsterkan. Hér er svo enn ein útgáfan af tzatziki sósu en hún er með gulrótum.

Amerísk bananakaka


Þessi uppskrift af bananköku hefur fylgt okkur fjölskyldunni í 20 ár eða frá því að við hjónin fórum að búa! Hún er alltaf jafn vinsæl og ég held að það hafi aldrei gerst að hún hafi verið til í meira en sólarhring á heimilinu! Þetta er uppáhaldskaka eiginmannsins og eina kakan sem hann bakar! 🙂


Uppskrift

  • 150 gr. mjúkt smjör (eða smjörliki)
  • 3 dl. sykur
  • 2 egg
  • 5 dl. hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 1/2 tsk. negull
  • 1/2 tsk. múskat (má sleppa)
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 bananar (vel þroskaðir)

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykri hrært saman mjög vel. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefni blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og settir út í. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 45 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.

Hasselback kartöflur


Hasselback kartöflur eru upprunnar frá Stokkhólmi þar sem þær voru fyrst bornar á borð á samnefndum veitingastað. Það eru til nokkrar uppskriftir af þessum kartöflum. Í viðbót við það sem ég geri hér að neðan bæta sumir við brauðmylsnu og parmesan osti eða bara hinu síðarnefnda. Mér finnst hins vegar einfalda uppskriftin langbest, með bara smjöri og salti. Hasselback kartöflur er einfalt að útbúa og þær eru afar gómsætar. Ég á sérstakt bretti til að skera þær á sem fæst meðal annars í Kokku en látið ekki stoppa ykkur þó þið eigið ekki slíkt bretti. Það er hægt að notast við sleif, stóra skeið eða til dæmis undirskál sem hjálpartæki svo ekki sé skorið of djúpt í kartöflurnar.

Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólívuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Berjabaka – Jóhanna Inga 7 ára gestabloggar!


Jóhanna Inga hefur nú lokið vikulöngu matreiðslunámskeiði. Hún gaf námskeiðinu hæstu einkunn en það er afar góður vitnisburður þar sem að þessi unga stúlka er kröfuhörð! 🙂 Þau fengu að gera alls 16 rétti, meðal annars pottrétt, pönnukökur, pæ, ís, salat, brauð, kökur, fiskrétt og súpu. Allt voru þetta mjög góðir og girnilegir réttir. Í lokin fengu þær vinkonurnar kokkahúfur! 🙂

Jóhanna Inga, Gyða Dröfn og Hrefna Rós:

Jóhanna Inga ætlar að gefa uppskrift af einum rétti sem hún útbjó. Þó svo að allir réttirnir hafi verið góðir var þetta eitthvað sem öllum í fjölskyldunni fannst afar ljúffengt. Hún segir að það sé mjög auðvelt að búa til þennan rétt! 🙂

Berjapæ

  • 2 dl. hveiti
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 dl. sykur
  • 1/2 tsk. kanill
  • 1/4 tsk. salt
  • 2 dl. haframjöl
  • 100 gr. smjör
  • 4 dl. ber (hægt að nota frosna berjablöndu)
  • 1 epli, afhýdd og skorið í bita
  • 2 dl. sykur
  • 2 msk. maísmjöl

Aðferð:

  1. Blandaðu saman fyrstu 7 hráefnunum. Smjörið á að vera kalt.
  2. Myldu saman öll hráefnin þar til blandan minnir á haframjöl. Gættu þess að mylja ekki of mikið því þá bráðnar smjörið.
  3. Blandaðu eplunum, berjum, sykrinum og maísmjölinu saman.
  4. Settu berjablönduna í eldfast mót og stráðu svo hveitiblöndunni yfir.
  5. Settu í 180 gráðu heitan ofn í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan bubblar upp um hliðarnar.
  6. Berið fram heitt með ís eða rjóma.
Hér er berjapæið hennar Jóhönnu ásamt heimatilbúna ísnum sem hún útbjó. Jóhanna vill koma því á framfæri að það hentar mjög vel líka að nota nýtínd bláber í þessa berjaböku! 🙂

Fljótlegt fimmkornabrauð


Þetta brauð er afar fljótlegt þar sem það þarf bara að hefa sig í 10-15 mínútur. Þetta er því upplagt brauð til að hafa með kvöldmatnum án þess að baksturinn krefjist mikillar skipulagningar eða tíma. Ég hnoða það ekkert með höndunum, læt það bara hnoðast í Kitchen Aid. Ég hef deigið líka það blautt að ég get lítið mótað það, helli því bara á ofnplötuna! Sem sagt afar fljótlegt en gott brauð. Í upphaflegu uppskriftinni er bara heilhveiti og hveiti, ég bætti við fimmkornablöndu. En það er líka hægt að sleppa henni. Eins er hægt að hafa bara hveiti, þá er komið voða gott hvítt brauð en auðvitað ekki eins hollt.


Fimmkornabrauð

  • 1 dl. fimmkornablanda
  • 5 dl. heilhveiti
  • 3 dl. hveiti
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk. salt
  • 3 tsk. sykur
  • 4½ dl. volgt vatn
  • 3/4 dl. matarolía

Aðferð:

1. Mælið vatn, olíu, þurrger og sykur og hrærið saman, látið bíða í 10 mín
2. Bætið þurrefnum út í og hnoðið (ég gerði það með hnoðara í hrærivél).
3. Látið deigið hefast í 10-15 mínútur (má auðvitað hefast lengur ef það er tími til þess)
4. Hnoðið deigið vel saman og setjið á ofnplötu.
5.Penslið brauðið með vatni (ég bætti við sesamfræum).
6. Bakið brauðið í 10-15 mínútur við 200 gráður.


Rækjur (eða humar) með klettasalatspestó


,,Grænar rækjur“ eru uppáhaldsmaturinn hennar Jóhönnu Ingu! Þetta eru rækjur með heimatilbúnu klettasalatspestói. Í raun er humar í uppskriftinni og mér finnst uppskriftin auðvitað best með humar eða jafnvel með risarækjum. Þá ber ég réttinn fram sem forrétt með ristuðu brauði. En hversdags er hægt að nota rækjur í réttinn og hafa hann þá sem aðalrétt.

Humar / rækjur með klettasalatspestói

  • 600 g humarhalar skelflettir (eða rækjur)
  • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk steinselja, smátt söxuð
  • 2 msk olífuolía
  • 1/3 -1/2 poki ferskt spínat

Kryddið humarinn með hvítlauk, steinselju, salti, pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í eina mínútu. Bætið þá við spínatinu og klettasalatpestóinu (sjá uppskrift að neðan) á pönnuna og blandið vel saman (hafið bara örstutt á pönnunni, ca. 1-2 mín).

Klettasalatpestó 

  • 2/3 poki klettasalat
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur
  • 2 msk. parmesan ostur, ferskur
  • 1 msk ljóst balsamedik
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

 

Berið strax fram t.d. með hrísgrjónum, salati og brauði.

Grænmetisræktun og nýr pallur


Grænmetisræktunin er komin ágætlega af stað hjá mér. Reyndar setti ég niður grænmetið aðeins seinna en venjulega vegna framkvæmda en við fengum nýjan og stærri pall. Pallurinn sem var fyrir var orðin lúin og svo var hann ansi lítill. Nýji pallurinn er stærri og rúmbetri en það besta er að hann er úr viðhaldsfríu plastefni. Það þarf því ekkert að bera á hann, pússa né annað slíkt, bara spúla hann við þörfum! 🙂

Fyrir:

Eftir:

Í ár setti ég niður allskonar forræktað salat og svo sáði ég fyrir fullt af spínati og klettasalati. Síðastliðin ár hef ég prófað mig áfram með allskonar grænmetisræktun. Ég sáði fyrir gulrótum nokkrum sinnum en er hætt því. Sama hvaða tegund ég notaði þá urðu þær svo litlar. Svo hef ég reyndar ekki mikla þolinmæði í  ræktun sem þarf að bíða fram á haust eftir uppskeru! 🙂 Mér hefur reynst langbest að kaupa forræktað salat, það kemur fljótt til og hægt að byrja nota það strax í júní. Ég nota spínat og klettasalat mikið í matargerð en það sprettur eins og arfi! Þess vegna sái ég miklu af því og bæti svo við sáninguna þegar líður á sumarið og elsta uppskeran fer að vaxa úr sér og blómstra.

Ég hef alltaf notað dúk yfir grænmetisbeðið fyrsta mánuðinn en í ár ákvað ég að prófa að sleppa því, mig langar að athuga hvort það muni einhverju.

Klettasalatið og spínatið er komið stutt á veg en það vex samt afar hratt, það eru bara tæpar tvær vikur síðan ég sáði fyrir því.

Á hverju sumri hefst bjórveisla í grænmetisbeðinu í byrjun júlí! Þá koma nefnilega oft sniglar í beðið. Þeir sækja mikið í salatið en fara hvorki í spínatið né klettasalatið. Það er hægt að útbúa bjórgildrur til að veiða þá. En mér finnst hreinlega best að fara út á kvöldin og tína þá! Mér hefur tekist að hafa stjórn á þessum óboðnu gestum hingað til, þeir hafa ekki náð að skemma salatið fyrir mér!

Varðandi kryddjurtir þá hef ég eins og áður sagði litla þolinmæði! Ég er löngu hætt að sá fyrir kryddjurtum (nema fyrir myntu, steinselju og graslauk sem spretta afar vel útivið). Langbest reynist mér að kaupa tilbúnar kryddjurtir og umpotta þeim. Þá spretta þær vel og duga lengi. Fljótlega á ég leið um Biskupstungur og ætla þá að koma við í Laugarási á garðyrkjustöðinni Engi. En þeir eru með lífrænan markað og selja þar meðal annars ótal tegundir kryddjurta. Markmiðið er að koma heim með ýmiskonar ilmandi kryddjurtir, umpotta þeim og halda þeim á lífi í sumar! 🙂