Rækjur (eða humar) með klettasalatspestó


,,Grænar rækjur“ eru uppáhaldsmaturinn hennar Jóhönnu Ingu! Þetta eru rækjur með heimatilbúnu klettasalatspestói. Í raun er humar í uppskriftinni og mér finnst uppskriftin auðvitað best með humar eða jafnvel með risarækjum. Þá ber ég réttinn fram sem forrétt með ristuðu brauði. En hversdags er hægt að nota rækjur í réttinn og hafa hann þá sem aðalrétt.

Humar / rækjur með klettasalatspestói

  • 600 g humarhalar skelflettir (eða rækjur)
  • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk steinselja, smátt söxuð
  • 2 msk olífuolía
  • 1/3 -1/2 poki ferskt spínat

Kryddið humarinn með hvítlauk, steinselju, salti, pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í eina mínútu. Bætið þá við spínatinu og klettasalatpestóinu (sjá uppskrift að neðan) á pönnuna og blandið vel saman (hafið bara örstutt á pönnunni, ca. 1-2 mín).

Klettasalatpestó 

  • 2/3 poki klettasalat
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur
  • 2 msk. parmesan ostur, ferskur
  • 1 msk ljóst balsamedik
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

 

Berið strax fram t.d. með hrísgrjónum, salati og brauði.

Kjúklingur með heimagerðu pestói í pönnukökum


Þetta er einn af fáum réttum sem er í uppáhaldi hjá öllum fjölskyldumeðlimum, þar með talin afkvæmin fjögur frá 7-24 ára en það er býsna óvenjulegt að þeim öllum líki sami rétturinn!

Hugmyndina fékk ég frá uppskrift í Gestgjafanum en hef breytt henni töluvert.

Hráefni:

  • Kjúklingabringur (kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum).
  • Tortillur
  • Ferskur Mozzarella ostur
  • Sveppir
  • Rauðlaukur
  • Rauð paprika
  • Spínat
  • Klettasalat (Ruccola)
  • Basilika
  • Steinselja
  • Hvítlaukur
  • Ólivuolía
  • Furhnetur (eða kasjúhnetur)
  • Salt og Pipar

Aðferð:

Rauðlaukur, sveppir og paprika skorin niður, krydduð með pipar og salti og steikt á pönnu eða grilluð. Ég er með sérstaka grillgrind fyrir grænmeti sem ég nota mikið í stað þess að steikja grænmeti á pönnu.

Kjúklingabringur kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum, uppáhalds kjúklingakryddinu mínu! En þetta er blanda af meðal annars salti, pipar, kryddjurtum og smá púðursykri sem ég held að geri gæfumuninn! Kjúklingurinn er grillaður en það má líka hita bringurnar í ofni. Ég grilla bringurnar á háum hita, í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Tek þær svo af grillinu rétt áður en þær eru tilbúnar, vef inn í álpappír og leyfi þeim að klára að eldast í eigin hita, þannig verða þær lungnamjúkar

Pestó útbúið, hráefni sett í matvinnsluvél. Ég nota oftast nær blöndu af ferskri basiliku, steinselju, spínati og klettasalati og prófa mig bara áfram hvaða magn ég nota af hverju. En fyrir 8 tortillur nota ég oftast 2/3 af spínatpoka, hálfan klettasalatpoka, nokkra steinseljukvisti og 2/3 af basiliku í boxi, 3-4 hvítlauksrif, 1 til 1 ½ dl. ólivuolíu, 4 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur ásamt salti og pipar. Strangt til tekið á að vera ferskur Parmesan ostur í heimatilbúnu Pestói (ca. 4 msk fyrir þessa uppskrift) en ég sleppi honum oft fyrir þennan rétt og finnst það eiginlega bara betra.

Mozzarellaostur er skorinn niður í sneiðar auk þess sem kjúklingurinn er skorinn niður í sneiðar þegar hann hefur fengið að jafna sig í nokkrar mínútur eftir eldun. Það er líka hægt að nota venjulegan rifinn ost í stað Mozzarella, eitt barnanna minna til dæmis kann ekki gott að meta og vill ekki Mozzarella! 🙂

Þá er komið að því að útbúa pönnukökurnar. Pestói er smurt á hálfa Tortilla köku, kjúklingi raðað á pönnukökuna, því næst er Mozzarella osti raðað á kjúklinginn og að lokum sett grillað grænmeti yfir og pönnukökunni lokað.

Pönnukökurnar settar á ofnplötu og hitaðar í ofni við 180 gráður í ca. 7-8 mínútur eða þar til að osturinn er farin að bráðna og Tortilla kakan farin að taka smá lit. Það er líka hægt að grilla pönnukökuna á útigrilli, nokkrar mínútur á hvorri hlið en ég er farin að nota auðveldu leiðina og skelli þeim bara öllum í ofninn!

Borið fram strax með fersku salati.