Rækjur (eða humar) með klettasalatspestó


,,Grænar rækjur“ eru uppáhaldsmaturinn hennar Jóhönnu Ingu! Þetta eru rækjur með heimatilbúnu klettasalatspestói. Í raun er humar í uppskriftinni og mér finnst uppskriftin auðvitað best með humar eða jafnvel með risarækjum. Þá ber ég réttinn fram sem forrétt með ristuðu brauði. En hversdags er hægt að nota rækjur í réttinn og hafa hann þá sem aðalrétt.

Humar / rækjur með klettasalatspestói

  • 600 g humarhalar skelflettir (eða rækjur)
  • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk steinselja, smátt söxuð
  • 2 msk olífuolía
  • 1/3 -1/2 poki ferskt spínat

Kryddið humarinn með hvítlauk, steinselju, salti, pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í eina mínútu. Bætið þá við spínatinu og klettasalatpestóinu (sjá uppskrift að neðan) á pönnuna og blandið vel saman (hafið bara örstutt á pönnunni, ca. 1-2 mín).

Klettasalatpestó 

  • 2/3 poki klettasalat
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur
  • 2 msk. parmesan ostur, ferskur
  • 1 msk ljóst balsamedik
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

 

Berið strax fram t.d. með hrísgrjónum, salati og brauði.