Pönnukökur eins og hjá ömmu


Í gær kom vinkona Jóhönnu með henni heim úr skólanum. Þeim stöllum var svo mikið niðri í fyrir að þær hringdu í mig þegar þær voru eiginlega rétt fyrir utan húsið. Ástæðan var einföld, þær langaði svo ægilega mikið í pönnukökur! Ég gat ekki annað en orðið við bón þeirra, þær voru svo mikil krútt!

Ég man vel þegar ég fékk uppskriftina af pönnukökunum. Þá var ég rúmlega tvítug, nýflutt til Stokkhólms og hafði fengið pönnukökupönnu í jólagjöf. Ég hringdi heim til Íslands í ömmu til að fá uppskriftina. Ömmu vafðist nú tunga um tönn, enda búin að baka pönnukökur í hálfa öld og löngu hætt að styðjast við uppskrift. En eftir nokkrar útlistingar hafði ég skrifað niður uppskrift af gómsætum ömmu-pönnukökum sem ég hef svo notast við síðastliðin 20 ár. Þessi uppskrift gefur gróflega reiknað 10-14 pönnukökur.

Uppskrift:

  • 200 gr. hveiti
  • 2 msk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • ca. 1/2 líter mjólk
  • 50 gr smjör

Sykri, salti og matarsóda er blandað saman við hveitið ásamt hluta af mjólkinni. Þeytt saman þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjum bætt út í, vanilludropum og restinni af mjólkinni. Að lokum er smjörið brætt og bætt út í. Ef deigið er of þykkt er meiri mjólk bætt út í deigið. Deiginu er hellt mjög þunnt á pönnu og steikt báðum megin. Pönnukökurnar bornar fram heitar með rjóma og sultu eða sykri. Jóhanna segir að best sé að nota mjög mikið af bláberjasultu og rjóma! 🙂

18 hugrenningar um “Pönnukökur eins og hjá ömmu

  1. Buin ad profa tessa ömmuuppskrift og var vooooda god. Mer finnst tetta blogg alveg storkostlegt. Fekk supu hja Brynju um daginn i saumaklubb og svo bar hun fram desert ( eh dödludesert) sem eg mundi vel eftir ad m langadi ad profa lika og hann var AAAGALEGA godur, bjarni hefur eldad nudlurettina tina sem voru aedi!! Buin ad senda mömmu lika vwfsidurnar ykkar svövu!!!!

  2. Bakvísun: Uppáhalds í eldhúsinu | Eldhússögur

  3. Æðisleg pönnuköku-uppskrift 🙂 ég náði alveg 25 pönnsum 🙂 takk fyrir mig og kallarnir glaðir í morgunkaffinu á bóndadaginn 🙂

    • Takk fyrir það Halla! 🙂 Það er naumast að þú er flink í pönnukökubakstrinum! Ég hef það sem markmið næst að ná 25 pönnsum líka út úr þessari uppskrift! 🙂

  4. Bakvísun: Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese | Eldhússögur

  5. Bakvísun: Kjúklinga “stir fry” með kasjúhnetum | Eldhússögur

  6. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

  7. Stelpan mín prófaði þessar pönnu kökur með pabba sínum, en þau notuðu möndlumjólk og voru þær svakalega góðar.

  8. ég elska matarbloggið þitt! ef ég þarf að leita að svona ekta heimilismat þá byrja ég alltaf a tjékka á hér!

  9. Nú eru ömmupönnsurnar þínar orðnar ömmupönnsurnar mínar. Æðislega góðar og ömmustrákarnir mínir elska þær og verða alltaf að fá þær á afmælinu sínu.:)

  10. Allrabesta pönnukökuuppskriftin. Dugar ekki minna en tvöföld uppskrift, búin að komast að því að 60 gr. smjör er nægjanlegt í hana 🙂 Takk fyrir mig

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.