Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese


Hakkpanna með eggjumÉg hef tekið eftir því að á hverjum einasta sunnudegi eru mest skoðuðu uppskriftirnar á Eldhússögum hægeldaða lambalærið og pönnukökurnar hennar ömmu. Augljóslega eru hefðirnar sterkar hjá mörgum, pönnukökur í sunnudagskaffinu og svo lambalæri í sunnudagsmatinn. 🙂 Enda getur sunnudagurinn ekki klikkað með svona góðum mat.

Í dag set ég hins vegar inn ótrúlega fljótlega og auðvelda uppskrift með nautahakki. Hún byggist á ítalskri fyrirmynd, „Uova al Purgatorio“ en það er réttur þar sem egg eru soðin á pönnu í tómatsósu. Ekki nóg með það heldur reyndi ég að gefa uppskriftinni ítalskan titil þrátt fyrir að ég kunni ekki stakt orð í ítölsku – jamm, hér er metnaður á ferðinni skal ég segja ykkur! 😉 Ég bætti sem sagt nautahakki við þessa klassísku ítölsku uppskrift og úr varð dýrindismáltíð á örskömmum tíma. Þessi uppskrift passar afar vel við LKL (lágkolvetna lífstílinn) en fyrir okkur hin á kolvetnakúrnum þá er dásamlega gott að borða með réttinum gott nýbakað brauð. Mér finnst eiginlega enn betra að rista brauðið með réttinum.

Hakkpanna með eggjum

Uppskrift:

  • 1 stór laukur, saxaður smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 100 g sveppir, saxaðir smátt
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • ca 900 g nautahakk
  • salt & pipar
  • chiliflögur eða duft
  • góð ítölsk kryddblanda (ég notaði Best á allt frá Pottagöldrum)
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 dósir tómatar í dós (400 g dósin – ég notaði tómata með chili)
  • 6-8 egg
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • ferskar kryddjurtir, t.d. basilika eða flatblaða steinselja, saxað

IMG_0717

Laukur, hvítlaukur og sveppir steikt á pönnu. Þegar laukurinn hefur mýkst og sveppirnir tekið lit er hakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Kryddað með salti, pipar, chili, ítölsku kryddi og nautakrafti. Þegar hakkið er steikt er tómötunum bætt út á pönnuna og látið malla í um það bil 5 mínútur, hrært í öðru hvoru. Þá eru gerðar litlar holur í hakkið hér og þar og eitt egg sett í hverja holu. Hitinn er lækkaður og allt látið malla í ca. 5-8 mínútur undir loki. Áður en hakkpannan er borinn fram er stráð vel yfir af grófmöluðum svörtum pipar, parmesan osti og ferskum kryddjurtum. Borið fram með auka rifnum parmesan osti og nýju góðu brauði eða ristuðu brauði.
IMG_0681IMG_0708

17 hugrenningar um “Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese

    • Sæl Bylgja. Eggjarauðan hjá mér var soðin í gegn, þ.e. lak ekki, en var samt enn mjúk – ekki svona hörð eins og hún verður í harðsoðnu eggi.

      • Takk, þetta hljómar mjög vel fyrir mitt eggjaheimili. Finnst þessi síða æði og búin að prófa ansi margt 😉

  1. Bakvísun: Dagur 4 | Mín reynsla af carb nite

  2. Þessi er rosalega góður, fljótlegur og hollur 🙂
    Takk fyrir frábærar uppskriftir!
    Kv. Dagrún

  3. Hæhæ! Ég var að spá hvað þú héldur að þetta myndi duga fyrir marga? 🙂 Langar að prófa þettan er krónískt hrædd við að gera ekki nógu mikið haha!

    • Sæl Jenný! Ég skil hræðslu þín vel, sjálf elda ég alltaf eins og fyrir hálft þorp þar sem ég óttast alltaf að maturinn muni ekki duga! 🙂 Ég myndi sjálf elda þessa uppskrift fyrir fjóra en ég veit hins vegar að það er mjög ríflega áætlað.

  4. Hæ 🙂

    Takk fyrir frábæra síðu, hjálpar svona órfumlegri konu einsog mér sem þykir þó mjög gaman að elda 😀

    Ég var að spá hvar þú færð tómata í dós með chilli??

    Kveðja

    Elísabet

    • Takk fyrir það Elísabet! 🙂 Ég hef keypt tómatana í bæði Krónunni og Bónus. Hér sérðu hvernig dósirnar líta út. http://www.hunts.com/products/tomatoes/diced-tomatoes
      Ef það er ekki til með chili þá getur þú keypt með t.d. hvítlauk eða kryddjurtum og kryddað svo réttinn sjálf til aukalega með þeim kryddum sem þér hugnast best! 🙂

  5. Rosalega góður réttur, svo gaman að gera svona öðruvísi hakkrétt og einmitt svo gott að hafa eggin 😉

  6. Hæ Dröfn, heldurðu að það virki ekki að hafa ærhakk í þessum rétti?

    Bestu þakkir fyrir allar frábæru uppskriftirnar þínar.

    Kveðja,
    Ingibjörg

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.