
Fyrr í sumar, á einum af þeim alltof fáu sólardögum sem við fengum, var ég með matarboð úti á palli fyrir vini sem eru á LKL matarræðinu. LKL þýðir lágkolvetnis lífstíl og gengur út á að lágmarka kolvetni verulega mikið í matarræðinu.

Mér finnst lítið mál að finna matrétti sem henta LKL. Þar sem fæðið á að vera fituríkt þá er hægt að gera svo margt gott sem byggir á fitu og próteini. Hins vegar er aðeins flóknara að búa til eftirrétti fyrir LKL. Sykurinn er útilokaður í þessum lífsstíl en hann er jú að finna í flestum hefðbundnum eftirréttum. Hins vegar má nota rjóma og ákveðnar tegundir af berjum og 70% súkkulaði (í hófi). Ég bjó til LKL eftirrétt um daginn sem var ákaflega góður og einfaldur, súkkulaðifrauð, uppskriftin er hér. Að þessu sinni bjó ég til pannacotta sem er eftirréttur upprunninn frá Ítalíu.

Pannacotta er vanillubúðingur en nafnið þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó, súkkulaði eða kardimommu. Kjúklingarétturinn sem ég gerði fyrir matarboðið var samrunni nokkurra kjúklingarétta héðan af síðunni sem heppnaðist býsna vel.
Hindberjapannacotta f. 4-6
- 5 dl rjómi
- 1 vanillustöng
- 2 blöð matarlím
- ½ dl sukrin sætuefni (fæst í Krónunni m.a)
Hindberjasósa:
- 200 g hindber (ég notaði frosin)
- 1 msk vatn
- 3 tsk sukrin
- örlítill sítrónusafi (ein sprauta úr gulu sítrónubrúsunum) – má sleppa

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í 5 mínútur. Vanillustöngin er klofin og fræin sett í pott ásamt stönginni og rjómanum. Blandan er soðin í 1-2 mínútur án þess að rjóminn brenni við. Þá er potturinn tekinn af hellunni. Mesta bleytan er kreist úr matarlíminu og því bætt út í pottinn ásamt sukrini. Hrært þar til hvor tveggja er uppleyst, þá er vanillustönginn veidd upp úr og blöndunni er hellt í 4-6 skálar. Látið kólna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hindberasósan er sett á.
Hindberjasósan: Hindberin (afþýdd) eru sett í pott ásamt sukrin og vatni, blandan látin ná suðu, hrært vel á meðan. Sítrónusafa bætt út í. Það er hægt að gera sósuna sléttari með því að nota töfrasprota. Ef maður vill þá er hægt að sigta sósuna til þess að losna við hindberjafræin. Sósan er látin kólna dálítið og henni er því næst hellt yfir pannacotta búðinginn og sett í ísskáp í dálitla stund áður en rétturinn er borinn fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og myntublöðum.

Beikonvafinn kjúklingur í bergmyntusósu LKL
- ca. 900 g kjúklingabringur eða úrbeinuð kjúklingalæri
- ólífuolía og smjör til steikingar
- 1 bréf beikon
- 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
- 3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
- 250 g sveppir, skornir í sneiðar
- 3 hvítlauksgeirar
- 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
- 4 dl rjómi
- 2 tsk kjúklingakraftur
- 30 g fersk bergmynta (oregano), blöðin söxuð smátt
- 1 msk. balsamic edik
- salt og pipar
- Best á allt frá Pottagöldrum
- oregano krydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, Best á allt og oregano. Því næst er hann vafinn með beikoni og steiktur á pönnu þar til beikonið hefur náð ágætum lit. Því næst er kjúklingurinn færður í eldfast mót. Ólífuolíu og/eða smjöri er bætt á pönnuna. Þá er sveppum og lauk bætt á pönnuna og steikt í smástund, hvítlauk bætt við. Því næst er rjóma bætt út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, balsamic edik og bergmyntunni. Leyft að malla í 1-2 mínútur og smakkað til með kryddunum. Að lokum er sósunni hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu og hitað við 200 gráður í ca. 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Ég bar kjúklinginn fram með blómkáls- og brokkolígratíni, uppskriftin er hér.

Auk þess smjörsteikti ég spínat, sú uppskrift er hér.
Njótið! 🙂

Líkar við:
Líka við Hleð...