Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

  • 1 kúrbítur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 egg
  • 1/2 msk husk
  • 1 dl rifinn parmesan
  • chiliflögur
  • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Hrökkkex með kúmeni og piparosti


Hrökkbrauð með kúmeni og piparostiÉg fékk uppskrift að dásamlega góðu hrökkkexi frá vinkonu minni sem er heimilisfræðikennari og snillingur í eldhúsinu. Mér finnst ofsalega gott að grípa í hrökkkex með góðum ostum eða öðru áleggi og þá er ekki slæmt að hafa svona góðan kost í kexi. Þetta kex er sykur- og hveitilaust og er stútfullt af hollum og bragðgóðum fræjum. Mér finnst kúmenið setja punktinn yfir i-ið í þessu kexi. Það þarf aðeins að prófa sig áfram með vatnið,  magnið fer eftir því hvaða tegund af huski er notuð. Svo virðist eins og að grófara husk þurfi minna vatn en ef það er duftkennt þarf að nota allt að tvo desilítra af vatni.

Uppskrift: 

  • 2 dl eggjahvítur
  • 2 msk chiafræ
  • 1 ½ dl hörfræ
  • 1 dl graskersfræ
  • 2 dl sesamfræ
  • 1 dl hörfræmjöl (Golden Flax Seed meal)
  • ½ dl husk
  • 1 tsk salt
  • 3 msk kúmen
  • ½ piparostur, rifinn
  • 1-2 dl heitt vatn

IMG_3425Aðferð:

Ofn hitaður í 120 gráður á blæstri. Þeytið eggjahvíturnar lauslega og bætið chiafræunum við, látið standa í ca 10 mínútur eða þangað til fræin hafa blásið út. Blandið síðan öllum þurrefnunum ásamt ostinum út í og hrærið. Vatninu er því næst bætt út þar til deigið er hæfilega blautt. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, leggið aðra pappírsörk yfir deigið og fletjið út með kökukefli, fjarlægið pappírinn. Bakið við 120°c og blástur í 35 mínútur, takið hrökkbrauðið út og hvolfið því. Skerið með pizzahníf og bakið áfram á hinni hliðinni í 35 mínútur.

IMG_3430

Pizza með hakkbotni


Pizza með nautahakksbotniÞar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni.  Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt!  Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið! Chili Explotion

Uppskrift f. ca. 4

  • 8-900 g. nautahakk
  • 2 egg
  • 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
  • salt og pipar
  • chili explosion
  • sveppir, skornir í sneiðar
  • rauð paprika, skorin í bita
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
  • parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)

Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna.IMG_3223 Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.IMG_3225 Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.

IMG_3233 Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.

IMG_3245 IMG_3251 IMG_3260

Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese


Hakkpanna með eggjumÉg hef tekið eftir því að á hverjum einasta sunnudegi eru mest skoðuðu uppskriftirnar á Eldhússögum hægeldaða lambalærið og pönnukökurnar hennar ömmu. Augljóslega eru hefðirnar sterkar hjá mörgum, pönnukökur í sunnudagskaffinu og svo lambalæri í sunnudagsmatinn. 🙂 Enda getur sunnudagurinn ekki klikkað með svona góðum mat.

Í dag set ég hins vegar inn ótrúlega fljótlega og auðvelda uppskrift með nautahakki. Hún byggist á ítalskri fyrirmynd, „Uova al Purgatorio“ en það er réttur þar sem egg eru soðin á pönnu í tómatsósu. Ekki nóg með það heldur reyndi ég að gefa uppskriftinni ítalskan titil þrátt fyrir að ég kunni ekki stakt orð í ítölsku – jamm, hér er metnaður á ferðinni skal ég segja ykkur! 😉 Ég bætti sem sagt nautahakki við þessa klassísku ítölsku uppskrift og úr varð dýrindismáltíð á örskömmum tíma. Þessi uppskrift passar afar vel við LKL (lágkolvetna lífstílinn) en fyrir okkur hin á kolvetnakúrnum þá er dásamlega gott að borða með réttinum gott nýbakað brauð. Mér finnst eiginlega enn betra að rista brauðið með réttinum.

Hakkpanna með eggjum

Uppskrift:

  • 1 stór laukur, saxaður smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 100 g sveppir, saxaðir smátt
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • ca 900 g nautahakk
  • salt & pipar
  • chiliflögur eða duft
  • góð ítölsk kryddblanda (ég notaði Best á allt frá Pottagöldrum)
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 dósir tómatar í dós (400 g dósin – ég notaði tómata með chili)
  • 6-8 egg
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • ferskar kryddjurtir, t.d. basilika eða flatblaða steinselja, saxað

IMG_0717

Laukur, hvítlaukur og sveppir steikt á pönnu. Þegar laukurinn hefur mýkst og sveppirnir tekið lit er hakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Kryddað með salti, pipar, chili, ítölsku kryddi og nautakrafti. Þegar hakkið er steikt er tómötunum bætt út á pönnuna og látið malla í um það bil 5 mínútur, hrært í öðru hvoru. Þá eru gerðar litlar holur í hakkið hér og þar og eitt egg sett í hverja holu. Hitinn er lækkaður og allt látið malla í ca. 5-8 mínútur undir loki. Áður en hakkpannan er borinn fram er stráð vel yfir af grófmöluðum svörtum pipar, parmesan osti og ferskum kryddjurtum. Borið fram með auka rifnum parmesan osti og nýju góðu brauði eða ristuðu brauði.
IMG_0681IMG_0708

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku


Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basiliku

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift inn fyrr í vikunni en þurfti að leysa úr dálitlu vandamáli áður. Vandamál sem var fyrirsjáanlegt um leið og ég eignaðist nýju Canon EOS 7D myndavélina mína sem er dásamleg í alla staði. Ég var samt ekkert svo glöð þegar ég sá að í þessum vélum er ný tegund af minniskortum sem passa ekki í kortalesarann á tölvunni. Ég vissi að fyrr en seinna myndi ég mæta því vandamáli að finna ekki snúruna á milli myndavélar og tölvu og það var einmitt það sem gerðist núna í vikunni. Snúran týndist, aðrar snúrur virkuðu ekki, og ég gat ekki sett myndirnar inn á tölvuna. Ótrúlega pirrandi því ég var einmitt svo spennt að deila með mér þessari uppskrift. Það væri gaman að heyra frá þeim sem eru með svipaðar myndavélar hvort að utanáliggjandi kortalesarar séu kannski málið?

En allavega, ræðum frekar um mat! Á nokkrum vikum hefur þessi nautahakksrúlla orðið hástökkvari á síðunni minni.

IMG_9626

Uppskriftin hefur verið skoðuð meira en 25 þúsund sinnum, er núna önnur mest skoðaða uppskriftin á Eldhússögum, Snickerskakan hefur þó enn vinninginn en naumlega þó. Það sem er svo skemmtilegt við þessa rúllu er að þarna er komin nýstárleg leið til að elda úr hakki og það er hægt að útfæra rúlluna á svo marga vegu. Ég hef sjálf bara eldað þessa rúllu einu sinni – ég er alltaf svo upptekin við að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Ég reyndar gerði aðra útfærslu af rúllunni hér sem var alveg jafngóð og þessi fyrsta, ef ekki betri. Eftir að hafa tekið eftir þvi að nautahakksrúllan tróndi vikum saman á toppnum yfir mest skoðuðu uppskriftirnar hjá mér varð ég ansi spennt að elda hana aftur sjálf og þá í nýrri útfærslu. Að þessu sinni gerði ég rúllu með mozzarella, basiliku og tómötum og maður minn hvað það var gott! Allir í fjölskyldunni borðuðu á sig gat og fannst þetta besta útfærslan hingað til. Þið ættuð að prófa! 🙂

IMG_0576

Uppskrift f 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 125 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum) – ekki verra að nota 2 kúlur
  • ca 3 stórir tómatar
  • ca 20 g fersk basilika
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Tómatar eru skornir í tvennt og innvolsið tekið úr þeim – það er ekki notað. Restin af tómötunum eru skornir niður í bita. Mozzarella osturinn er skorinn niður í þunnar sneiðar.  Mozzarella ostinum er raðað á nautahakkið, basilikublöðunum er raðað yfir ostinn. Því næst er tómötunum dreift yfir. Gott er að strá grófmöluðum svörtum pipar yfir allt í restina. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu.

IMG_0571

Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum eða blómkálshrísgrjónum* , salati og rifsberjahlaupi.

* Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram.

IMG_0585

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL


Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Fyrr í sumar, á einum af þeim alltof fáu sólardögum sem við fengum, var ég með matarboð úti á palli fyrir vini sem eru á LKL matarræðinu. LKL þýðir lágkolvetnis lífstíl og gengur út á að lágmarka kolvetni verulega mikið í matarræðinu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Mér finnst lítið mál að finna matrétti sem henta LKL. Þar sem fæðið á að vera fituríkt þá er hægt að gera svo margt gott sem byggir á fitu og próteini. Hins vegar er aðeins flóknara að búa til eftirrétti fyrir LKL. Sykurinn er útilokaður í þessum lífsstíl en hann er jú að finna í flestum hefðbundnum eftirréttum. Hins vegar má nota rjóma og ákveðnar tegundir af berjum og 70% súkkulaði (í hófi). Ég bjó til LKL eftirrétt um daginn sem var ákaflega góður og einfaldur, súkkulaðifrauð, uppskriftin er hér. Að þessu sinni bjó ég til pannacotta sem er eftirréttur upprunninn frá Ítalíu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Pannacotta  er vanillubúðingur en nafnið þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó, súkkulaði eða kardimommu. Kjúklingarétturinn sem ég gerði fyrir matarboðið var samrunni nokkurra kjúklingarétta héðan af síðunni sem heppnaðist býsna vel.

Hindberjapannacotta f. 4-6

  • 5 dl rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 2  blöð matarlím
  • ½ dl sukrin sætuefni (fæst í Krónunni m.a)

Hindberjasósa:

  • 200 g hindber (ég notaði frosin)
  • 1 msk vatn
  • 3 tsk sukrin
  • örlítill sítrónusafi (ein sprauta úr gulu sítrónubrúsunum) – má sleppa

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í 5 mínútur. Vanillustöngin er klofin og fræin sett í pott ásamt stönginni og rjómanum. Blandan er soðin í 1-2 mínútur án þess að rjóminn brenni við. Þá er potturinn tekinn af hellunni. Mesta bleytan er kreist úr matarlíminu og því bætt út í pottinn ásamt sukrini. Hrært þar til hvor tveggja er uppleyst, þá er vanillustönginn veidd upp úr og blöndunni er hellt í 4-6 skálar. Látið kólna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hindberasósan er sett á.

Hindberjasósan: Hindberin (afþýdd) eru sett í pott ásamt sukrin og vatni, blandan látin ná suðu, hrært vel á meðan. Sítrónusafa bætt út í. Það er hægt að gera sósuna sléttari með því að nota töfrasprota. Ef maður vill þá er hægt að sigta sósuna til þess að losna við hindberjafræin. Sósan er látin kólna dálítið og henni er því næst hellt yfir pannacotta búðinginn og sett í ísskáp í dálitla stund áður en rétturinn er borinn fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og myntublöðum.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Beikonvafinn kjúklingur í bergmyntusósu LKL

  • ca. 900 g kjúklingabringur eða úrbeinuð kjúklingalæri
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 1 bréf beikon
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 4 dl rjómi
  • 2 tsk kjúklingakraftur
  • 30 g fersk bergmynta (oregano), blöðin söxuð smátt
  • 1 msk. balsamic edik
  • salt og pipar
  • Best á allt frá Pottagöldrum
  • oregano krydd

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, Best á allt og oregano. Því næst er hann vafinn með beikoni og steiktur á pönnu þar til beikonið hefur náð ágætum lit. Því næst er kjúklingurinn færður í eldfast mót. Ólífuolíu og/eða smjöri er bætt á pönnuna. Þá er sveppum og lauk bætt á pönnuna og steikt í smástund, hvítlauk bætt við. Því næst er rjóma bætt út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, balsamic edik og bergmyntunni. Leyft að malla í 1-2 mínútur og smakkað til með kryddunum. Að lokum er sósunni hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu og hitað við 200 gráður í ca. 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ég bar kjúklinginn fram með blómkáls- og brokkolígratíni, uppskriftin er hér.

IMG_9308

Auk þess smjörsteikti ég spínat, sú uppskrift er hér.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKLNjótið! 🙂

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Rjómalöguð fiskisúpa með chili


IMG_0110

 

Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.

IMG_0097

Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!

Uppskrift f. 4

  • ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
  • olía til steikingar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1/2 gul paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauð paprika, skorin í bita
  • 5 dl fiskisoð
  • 2 dl rjómi
  • 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 3/4 dl tómatpúrra
  • ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
  • 1/2 tsk chili-krydd
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/4 tsk cumin
  • 1 msk sykur (má sleppa)
  • 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
  • salt & pipar

IMG_0113

Aðferð:

Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.

IMG_0115

Sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati


IMG_9632

Enn ein frábær helgi er liðin hjá og dásamlegur júnímánuður runninn upp. Í gærkvöldi átti ég yndislegt kvöld með vinkonum mínum úr meistaranáminu. Þvílík lukka að námið leiddi okkur þrjá sálufélagana saman! 🙂 Við fórum á Austurlandahraðlestin á nýja staðinn í Lækjargötu og fengum ákaflega góðan mat þar. Því næst lá leiðin í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum sýninguna Engla alheimsins sem er frábær sýning. Því næst var bærinn málaður rauður … tja, eða allavega fölbleikur! 😉

En ég ef ég vík að uppskrift dagsins þá ætla ég að gefa ykkur langbestu laxauppskriftina mína hingað til! Já ég veit, ég segi oft að þær laxauppskriftir sem ég set inn séu þær bestu! En trúið mér, þessi ER sú besta! Þessi uppskrift er afskaplega einföld en maður minn hvað hún er góð! Meðlætið er dásamlegt, mangó- og avókadó salsa er auðvitað hrein snilld með laxi en smjörsteikta spínatið er líka ofsalega gott, ég ætla sannarlega að notað það oftar. Okkur fannst marineringinn dásamlega ljúffeng, hún gerði laxinn að hnossgæti! Við mælum sannarlega með þessum frábæra rétti!

Uppskrift: 

  • 800 g lax, roðflettur og skorinn í bita
  • olía til steikingar

IMG_9625

Marinering:
 
  • 1.5 dl sojasósa
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1-2 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • límónusafi (lime)
  • hunang, fljótandi (eða sykur)
Hráefnunum fyrir marineringuna blandað saman, smakkað til með hunangi og límónusafa. Laxinn er því næst steiktur á pönnu upp úr olíu í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til laxinn hefur fengið fallegan steikingarlit. Þá er marineringunni hellt yfir laxinn og honum leyft að malla á vægum hita á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Laxinn er þá lagður upp á fat og marineringunni dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum, smjörsteiktu spínati og mangó-avókadósalsa.

IMG_9627
Smjörsteikt spínat
  • 300 g ferskt spínat
  • smjör
  • 6 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • salt og pipar
Rétt áður en laxinn er borinn á borð er spínatið og vorlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

Mangó-avókadó salsa
  • mangó, skorið í bita
  • 1 stórt eða 2 lítil avókadó, skorið í bita
  • 1/2 – 1 rauður ferskur chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • kóríander eftir smekk, saxað
Öllu blandað vel saman og borið fram með laxinum.

IMG_9639