Pizza með hakkbotni


Pizza með nautahakksbotniÞar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni.  Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt!  Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið! Chili Explotion

Uppskrift f. ca. 4

  • 8-900 g. nautahakk
  • 2 egg
  • 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
  • salt og pipar
  • chili explosion
  • sveppir, skornir í sneiðar
  • rauð paprika, skorin í bita
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
  • parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)

Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna.IMG_3223 Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.IMG_3225 Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.

IMG_3233 Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.

IMG_3245 IMG_3251 IMG_3260

Ostafylltur kjöthleifur


Um daginn gerði ég þessa nautahakksrúllu sem sló í gegn hér heima og ég sé að þetta er vinsæl uppskrift hér á blogginu. Ég er búin að horfa á nýjan ost frá Philadelphia úti í búð í nokkurn tíma. Þetta er Philadelphia með sweet chili, hljómar mjög girnilega. Ég hef verið að hugsa um hvernig ég geti nýtt hann í einhvern góðan matrétt. Í kvöld ákvað ég að gera útfærslu af nautahakksrúllunni og nota þennan ost. Þó það sé chili í honum þá er hann ekki sterkur, enda er þetta sweet chili, og hann er afar bragðgóður. En það er líka hægt að nota ost með til dæmis hvítlauksbragði, það er örugglega mjög gott líka. Þessi kjöthleifur sló í gegn, sérstaklega hjá elstu krökkunum sem stóðu í hörðum samningaviðræðum yfir því hvernig afgangnum yrði skipt í matarboxin þeirra og þá ekki síst sósunni! 🙂

  • 600-700 g nautahakk 
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  •  ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • ca. 150 gr Philadelphia ostur með Sweet Chili (eða með öðru bragði)
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari
  • 2 tsk rifsberjahlaup
Ofn stilltur á 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Hakki, lauk, eggi, brauðmylsnu, mjólk og kryddi blandað vel saman. Helmingnum af kjötblöndunni sett ofan í eldfast mót og hún mótuð í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum og hún fyllt með Philadelphia osti. Raufinni lokað vel, afgangnum af kjötblöndunni lagður ofan á og haldið áfram að móta hleifinn. Hann er gerður vel þéttur svo osturinn leki ekki út. Smjör brætt í potti og sojasósu bætt út í. Sósunni er því næst hellt yfir kjöthleifinn og hann bakaður í ofni í 40-50 mínútur, fer eftir þykktinni. Þegar kjöthleifurinn er eldaður í gegn er hann tekinn úr eldfasta mótinu og settur undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og soðnu grænmeti.

Pastagratín með nautahakki og ostasósu


Ég var búin að finna spennandi uppskrift af pastagratíni með nautahakki sem mig langaði að prófa. Í gærkvöldi átti ég hakk og ákvað að prófa réttinn. En þá uppgötvaði ég að eiginlega ekkert annað var til sem þurfti í uppskriftina! Mér finnst alltaf dálítið spennandi að reyna að spinna úr hráefnum sem ég á til þannig að ég réðst í breyta réttinum í samræmi við þau hráefni sem ég fann í ísskápnum. Ég notaði til dæmis pepperoní í stað chorizo pylsu, bjó til rjómaostasósu í stað þess að nota sýrðan rjóma og gerði ýmsar aðrar breytingar. Þetta varð eiginlega eins og lasagna ,,with a twist“! Rétturinn kom mjög vel út, hann fékk hæstu einkunn hjá öllum í fjölsksyldunni. Ekki síst yngstu krökkunum, ég held að Vilhjálmur hafi fengið sér allavega þrisvar eða oftar á diskinn!

Uppskrift:

  • 400 gr pasta
  • 800 gr nautahakk
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 1 teningur eða 1 msk nautakraftur
  • 1 bréf pepperóni
  • salt & pipar
  • heitt pizzukrydd eða annað gott krydd
  • rifinn ostur

Ostasósa: 

  • 40 gr smjör
  • 40 gr hveiti
  • ca 4-5 dl mjólk
  • 100 gr rjómaostur
  • 1-2 dl rifinn ostur
  • múskat
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk og hvor tveggja steikt á pönnu upp úr olíu. Því næst er hakkinu bætt á pönnuna og það steikt. Pepperóni er skorið niður í bita og því bætt út á pönnuna ásamt nautakrafti, niðursoðnum tómötum og tómatpúrru bætt út í. Kjjötsósan krydduð eftir smekk (mér finnst gott að krydda hana vel!) og hún svo látin malla á vægum hita, á meðan er ostasósan útbúin.

Ostasósa: Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti og rjómaosti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar.

Ostasósan sett á botninn á eldföstu móti, því næst er pasta dreift yfir, þá kjötsósunni og svo koll af kolli. Endað á kjötsósu og ostasósu (pastað verður hart ef það lendir efst) og þá er rifnum osti dreift yfir og rétturinn bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað.