Kjúklingapasta með ostasósu


Þennan pastarétt geri ég þegar ég vil afla mér vinsælda hjá yngstu krökkunum og ef ég vil vita fyrirfram að þau munu háma í sig kvöldmatinn af bestu lyst! 🙂 Yngstu börnin eru ekki alltaf ánægð með skólamatinn, enda eru skólakokkarnir ekki öfundsverðir af því fjármagni sem þeir hafa úr að spila til þess að búa til mat fyrir mörg hundruð mismatvandna krakka. Þau eru ákaflega hrifin af einum rétti sem skólakokkurinn gerir, það er pasta í ostasósu og Jóhanna hefur kvartað yfir því að ég geri ekki jafngóða ostasósu. Ég tók nú ekki þeirri kvörtun léttvægt og hef verið að þróa ostasósuna þar til að ég sló skólaréttinum við! 😉 Þessi pastaréttur er mjög einfaldur, enda finnst krökkunum best að sleppa öllum óþarfa eins og til dæmis grænmeti! Toppurinn yfir i-ið er að bera fram þennan pastarétt með hvítlauksbrauði.

Uppskrift

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • smjör til steikingar
  • 100 gr rjómaostur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rifinn ostur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • salt og pipar
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í litla bita. Því næst er smjörið og kjúklingurinn sett á pönnu, kjúklingurinn saltaður og pipraður og hann síðan steiktur í örskamma stund. Þá er matreiðslurjóma og mjólk hellt út á, piparostur skorinn í litla bita og honum bætt út í ásamt rjómaosti og rifnum osti. Þá er kjúklingakrafti bætt út í. Látið malla á vægum hita og hrært í sósunni öðru hvoru þar til osturinn er bráðnaður. Þá er sósan smökkuð til með kryddi og henni svo blandað saman við pastað. Borið fram með hvítlauksbrauði.

Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

Spaghettí og hakk


Spaghettí og hakk! Einfaldara getur það varla orðið en samt er þetta einn vinsælasti rétturinn á okkar heimili. Ég held áfram með þemað ,,fljótlegir matréttir“ sem er alveg í takti við tímaleysið hjá mér þessa dagana.

Yngri krakkarnir eru svolítið kresin á sósuna í hakkinu. Þeim líkar illa ef í henni eru tómatbitar eða laukabitar. Mér finnst Rinaldi tómatsósurnar ákaflega góðar og nota þannig ,,orginal“ sósu sem ég krydda svo til sjálf. Þegar ég sýð spaghettí set ég vatn í stóran pott og læt suðuna koma upp, þá bæti ég út í ca 2 tsk af salti. Því næst set ég spaghettíið út í. Ég passa að hræra öðru hvort í því þannig að það festist ekki saman. Mikilvægt er að ofsjóða ekki spaghettíið, ,,al dente“ – ,,við tönn“ er málið! Það er, nógu mjúkt til að borða en samt enn þétt í sér.

Uppskrift:

  • 600 gr hakk
  • 1 krukka Rinaldi orginal tómatsósa
  • 2 msk basilika
  • 1 msk oregano
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • spaghettí

Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum. Hakk steikt á pönnu þar til það er steikt í gegn. Þá er sósunni hellt út á pönnuna. Því næst er kjötsósan krydduð með basiliku, oregano, nautakrafti, sojasósu, salti og pipar. Borið fram með dálitlu rifnum osti eða parmesan osti ásamt tómatsósu. Einnig gott að bera fram með réttinu brauð og nota það til þess að hreinsa upp góðu sósuna af disknum! 🙂

Himneskir kjúklingaleggir með rjómasósu


Í kvöld eldaði ég nýjan kjúklingarétt sem varð á svipstundu einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar! Börnin linntu ekki látum fyrr en ég lofaði að hafa þennan rétt allavega vikulega. Okkur Elfari fannst rétturinn líka ofsalega góður og að auki er hann mjög auðveldur að matreiða og frekar ódýr þar sem að kjúklingaleggir eru fremur ódýrt kjöt. Ég set hann því með glöðu geði á listann yfir uppáhaldsrétti. Það má nú deila um hollustu sósunnar sem inniheldur bæði smjör, rjóma og rjómaost en hún er ó svo hrikalega góð!! Það, að láta smör og sojasósu malla saman í safa af kjöti, gefur afskaplega góðan grunn í sósur. Kjúklingaleggirnir verða líka svo ofsalega bragðgóðir í þessari marineringu og meyrir við eldunina. Ég gerði satt að segja tvöfalda uppskrift hér að neðan, notaði sem sagt tvö kíló af kjúklingaleggjum! En við vorum sex í mat og svo var að auki afgangur sem dugði í þrjú matarbox, eitthvað sem gleður elstu krakkana mikið, þá þurfa þau ekki að eyða pening í mat í skólanum á daginn.
Uppskrift fyrir 4:
  • 1 kíló kjúklingaleggir
  • 25 gr smjör
  • ½ dl ólífuolía
  • 3 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • Knorr kjöt & grill krydd (eða annað gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum)
  • ½ dl vatn
  • 100 gr rjómaostur (jafnvel enn betra að nota Philadelpia með hvítlauk og kryddjurtum)
  • 3 dl rjómi
Ofninn stilltur á 200 gráður. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót eða í ofnskúffu, fer eftir fjölda leggja. Smjörið brætt og sojasósunni ásamt ólífuolíunni bætt út í. Blöndunni síðan hellt yfir kjúklingaleggina og þeim velt vel upp úr henni. Leggirnir eru því næst kryddaðir á alla kanta mjög vel með kjöt & grill kryddinu ásamt salti og pipar. Settir inn í 200 gráðu heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til leggirnir eru eldaðir í gegn. Kjúklingaleggirnir eru því næst lagðir á fat og vatni pískað út í sósuna í eldfasta mótinu, henni er síðan hellt yfir í pott. Rjómaosti er svo bætt út í og sósan látin malla þar til hann er bráðnaður. Þá er rjómanum bætt út í og sósan bragðbætt með salti og pipar ef þarf. Sósan látin malla í nokkrar mínútur og þykkt af vild með sósujafnara.
Kjúklingaleggirnir eru bornir fram með sósunni, hrísgrjónum og salati.

Pastagratín með nautahakki og ostasósu


Ég var búin að finna spennandi uppskrift af pastagratíni með nautahakki sem mig langaði að prófa. Í gærkvöldi átti ég hakk og ákvað að prófa réttinn. En þá uppgötvaði ég að eiginlega ekkert annað var til sem þurfti í uppskriftina! Mér finnst alltaf dálítið spennandi að reyna að spinna úr hráefnum sem ég á til þannig að ég réðst í breyta réttinum í samræmi við þau hráefni sem ég fann í ísskápnum. Ég notaði til dæmis pepperoní í stað chorizo pylsu, bjó til rjómaostasósu í stað þess að nota sýrðan rjóma og gerði ýmsar aðrar breytingar. Þetta varð eiginlega eins og lasagna ,,with a twist“! Rétturinn kom mjög vel út, hann fékk hæstu einkunn hjá öllum í fjölsksyldunni. Ekki síst yngstu krökkunum, ég held að Vilhjálmur hafi fengið sér allavega þrisvar eða oftar á diskinn!

Uppskrift:

  • 400 gr pasta
  • 800 gr nautahakk
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 1 teningur eða 1 msk nautakraftur
  • 1 bréf pepperóni
  • salt & pipar
  • heitt pizzukrydd eða annað gott krydd
  • rifinn ostur

Ostasósa: 

  • 40 gr smjör
  • 40 gr hveiti
  • ca 4-5 dl mjólk
  • 100 gr rjómaostur
  • 1-2 dl rifinn ostur
  • múskat
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk og hvor tveggja steikt á pönnu upp úr olíu. Því næst er hakkinu bætt á pönnuna og það steikt. Pepperóni er skorið niður í bita og því bætt út á pönnuna ásamt nautakrafti, niðursoðnum tómötum og tómatpúrru bætt út í. Kjjötsósan krydduð eftir smekk (mér finnst gott að krydda hana vel!) og hún svo látin malla á vægum hita, á meðan er ostasósan útbúin.

Ostasósa: Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti og rjómaosti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar.

Ostasósan sett á botninn á eldföstu móti, því næst er pasta dreift yfir, þá kjötsósunni og svo koll af kolli. Endað á kjötsósu og ostasósu (pastað verður hart ef það lendir efst) og þá er rifnum osti dreift yfir og rétturinn bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað.

Ofnbakaður tacoréttur


Eins og hjá flestum barnafjölskyldum er taco afar vinsæll matur á okkar heimili. Hins vegar er alltaf dálítið vesen að borða tacoskeljar! Ég geri stundum því stundum vinsælan tacorétt í staðinn sem er einfaldur og góður. Mér finnst samt eiginlega eins og ég sé að brjóta einhver foreldralög að nota snakk í kvöldmatinn! Það er einhvern veginn prentað í mann að snakk sé svo óhollt og ég forðast að kaupa það svona almennt. En í upphaflegu uppskriftinni er gert ráð fyrir því að nota mjög stóran tortillupoka, sem er yfir 400 gr (þetta er reyndar fremur stór uppskrift). Ég átti bágt með að nota svona mikið og minnkaði snakkið aðeins en setti á móti taco skeljar sem ég braut gróft. En reyndar er nú föstudagskvöld og þá má leyfa sér svolítið! 🙂

Uppskrift f. ca. 6

  • 1 poki Tortilla eða Nachos flögur, ca. 3-400 gr.
  • 1 kg nautahakk
  • 2 bréf tacokrydd
  • 1 msk nautakraftur
  • 3 dl vatn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 askja Philadelphia ostur
  • 4-5 tómatar, sneiddir
  • 1 ½ paprika, skorin í bita
  • 1 dós gular maísbaunir
  • 1 púrrlaukur, sneiddur
  • rifinn ostur
Bakarofn stilltur á 225 gráður. Flögunum dreift á botninn á ofnskúffu. Nautahakk steikt og tacokryddinu bætt út í. Því næst er vatni bætt við ásamt nautakrafti. Hakkið látið malla þar til vökvinn er soðinn niður. Þá er hakkinu dreift yfir flögurnar. Rjómaosti og sýrðum rjóma (báðum dósunum) hrært saman og dreift yfir hakkið. Því næst er grænmetinu dreift yfir og að lokum rifna ostinum. Bakað í ofni í ca. 12 mínútur. Ég stillti á grill síðustu mínúturnar til að osturinn tæki betri lit frekar er en að lengja bökunartímann því þá myndu tortilla flögurnar ekki haldast eins stökkar. Borið fram með salati, guacamole, sýrðum rjóma og salsasósu.

Pizzufiskur (eða þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella!)


Ef ég fengi að ráða nafninu á þessum ljúffenga rétti þá myndi það vera ,,þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella“. Yngri krakkarnir þvertóku hins vegar fyrir það, þau sögðu að nafnið pizzufiskur myndi gera réttinn girnilegan í augum allra barna! Þau eru hvorugt fyrir fisk en þegar hann er kominn í þessar umbúðir þá er ekki annað hægt en að klára af disknum sínum. Þetta er ótrúlega einfaldur réttur að matreiða og afar gómsætur. Ég kaupi varla ýsu lengur, finnst þorskurinn svo mikið betri. Í þetta sinn fékk ég mjög þykkt þorskflak og þurfti þess vegna að bæta við bökunartímann. Annars sakna ég dagsbirtunnar ógurlega mikið á kvöldmatartíma þessa dagana. Þegar ég byrjaði að blogga var júní og alltaf bjart. Ég kann ekkert í ljósmyndun er er búin að reka mig á grunnatriðið núna, það er dagsbirtan! Það er svo mikið leiðinlegra að taka matarmyndirnar þegar orðið er dimmt og það þarf að nota flass. Það jákvæða er hins vegar að ég er komin í kapphlaup við dagsbirtuna og er farin að hafa matinn fyrr, upp úr klukkan 18, helst fyrr. En ókosturinn er reyndar sá að oft sit ég ein við matarborðið til að byrja með, Elfar vinnur alltaf frameftir og oft eru eldri krakkarnir að stússast í tómstundum, íþróttum eða vinnu á þeim tíma. En hér kemur uppskriftin af pizzufisknum ( … eða þorsknum í miðjarðarhafssósunni með mozzarella!)

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr. tómatsósa með hvítlauk og/eða kryddjurtum (ég notað þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)
  • fersk basilika
  • 1 kíló þorskur eða ýsa
  • pipar og salt
  • 1 msk olía
  • svartar ólífur
  • 1-2 kúlur ferskur mozzarella

Ofninn hitaður í 200 gráður. Sósan hituð í potti, basilika söxuð gróft og bætt út í sósuna. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki og kryddaður með salti og pipar. Eldfast mót smurt með olíu, fisknum raðað í formið og sósunni hellt yfir. Að lokum er ólífunum dreift yfir. Álpappir breiddur yfir mótið og það sett í ofninn í ca. 10-15 mínútur. Mozzarella osturinn skorinn í sneiðar. Eldfasta mótið tekið úr ofninum og hitinn hækkaður í 215 gráður. Álpappírinn fjarlægður og ostinum raðað ofan á. Eldfasta mótið sett aftur inn í ofninn og bakað í ca. 10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati, jafnvel góðu brauði líka.

Fiskibollur með karrísósu


Ég er búin að vera lengi á leiðinni að búa til fiskibollur. Heimatilbúnar fiskibollur með karrísósu er svo dásamlega góður matur. Í margumtalaða skemmtilega ræktarhópnum mínum í Heilsuborg (sem er besta heilsuræktarstöðin í bænum! ) var einmitt rætt um fiskibollur í gær. Það kemur svo sem ekkert á óvart þar sem við tölum mjög mikið um mat á meðan við æfum! Ein í hópnum sagðist hafa verið að leita að góðri uppskrift af fiskibollum á netinu, ég tók það auðvitað beint til mín og dreif mig í fiskibollugerðina! 😉 Mér finnst langbest að nota hefðbundna, gamla og góða fiskibollu uppskrift frá mömmu. Ég hélt kannski að þetta væri uppskrift upphaflega frá ömmu en svo var ekki. Mamma gróf upp uppskriftina sína til að kanna uppruna hennar, það kom í ljós að þetta er úrklippa úr Vísi frá árinu 1981. Þar gefur Kristín Andrésdóttir hústjórnarkennari þessa uppskrift af fiskibollum. Reyndar ber hún þær fram með steiktum lauk og brúnni sósu en á okkar heimili er karrísósan vinsælust. Þessi uppskrift af karrísósu er sænsk, hún er rosalega góð og afar auðveld. Það tekur jafnlanga stund að laga þessa sósu eins og að búa til pakkasósu en hún er svo margfalt betri! Mér finnst bæði gott að hafa kartöflur og hrísgrjón með réttinum en vel oftar hrísgrjón því þau fara svo vel með sósunni.

Ég á ekki hakkavél á hrærivélina mína og notaði þvi bara matvinnsluvélina til að búa til deigið í bollurnar. Fiskibollurnar verða þéttari þannig, mér finnst þær betri ef notuð er hakkavél en það er ekkert sem kemur að sök samt. Ég gef upp stóra uppskrift, mér finnst ekki taka því að búa bara til nokkrar bollur, best er að búa til eins stóran skammt og maður  nennir og frysta afganginn. Frábært að geta gripið í fiskibollur úr frystinum. Þessi uppskrift gaf 22 fiskibollur, þær voru líklega í stærri kantinum.

Uppskrift:

  • 1.2 kíló ýsa eða þorskur (ég notaði þorsk)
  • 2 tsk salt
  • dálítill pipar
  • 4 msk hveiti
  • 3 msk kartöflumjöl
  • 2 egg
  • 1 laukur
  • ca 4 dl mjólk
  • smjör til steikingar

Fiskurinn hakkaður ásamt lauknum. Hveiti, karöflumjöli, salti, pipar og eggjum bætt út í fiskhakkið. Að lokum er mjólkinni bætt út í. Bollur mótaðar og þær steiktar upp úr smjörinu á pönnu. Þegar fiskibollurnar hafa náð góðum lit set ég þær í eldfast mót í ofn í við ca. 170 gráður á meðan ég bý til karrísósuna.

Karrísósa:

  • 3 msk smjör
  • 1 tsk karrí
  • 3 msk hveiti
  • ca. 4.5 dl vökvi (hægt að nota vatn, mjólk eða rjóma), ég notaði 1 dl matargerðarrjóma og restina léttmjólk.
  • 1 tsk eða teningur hænsnakraftur

Smjörið brætt og karrí bætt út í og það steikt í smjörinu í stutta stund. Hveitinu bætt út í og blandan pískuð á fremur háum hita þar til hún verður þykk. Þá er vökvanum bætt út í og á meðan er hrært stöðugt í sósunni með písk. Þá er hænsnakraftinum bætt út í. Sósan látin malla í 3-5 mínútur.

Ostakjötbollur með pasta og mjúkri tómatsósu


Þessi réttur er ofsalega mildur og bragðgóður auk þess að vera einstaklega barnvænn! Engin óvinsæll laukur eða sterk krydd en samt voru kjötbollurnar bragðmiklar með piparostinum og sósan mjúk og bragðgóð. Rétturinn fékk 11 í einkunn af 10 mögulegum hjá yngstu börnunum, ,,sjúklega gott“ hljómaði dómurinn! Ég var að fara í saumaklúbb hjá glæsilega matarbloggaranum henni Svövu vinkonu minni og ég ætlaði sko ekki að mæta södd þangað! 🙂 En börnin þurftu eitthvað að borða (bæði stór og smá!) og ég ákvað að búa til eitthvað sem þeim yngri þætti reglulega gott. Jóhanna Inga var búin að tala um að sig langaði í kjötbollur. Ég átti hakk og bjó til þennan rétt úr því hráefni sem ég átti í ísskápnum og það heppnaðist afar vel.

Kjötbollur:

  • 700 gr hakk piparostur
  • 1 box rifinn piparostur
  • 1 dl brauðmylsna
  • 1 egg
  • 1 tsk basilika
  • salt og pipar
  • smjör eða olía til steikingar

Sósa:

  • 1 ferna eða dós „passerade“ tómatar (þessir sem eru alveg fínmaukaðir, eins og þykkur tómatsafi)
  • 2 dl rjómi eða matargerðarjómi
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk tómatsósa
  • 1/2 msk sojasósa
  • 1/2 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • annað krydd, t.d. steinselja, origano og basilika (má sleppa)

Pasta: soðið eftir leiðbeiningum

Öllum hráefnunum í kjötbollurnar blandað saman (ég reyndi að mauka ostinn vel með höndunum) og litlar kjötbollur mótaðar. Olía eða smjör, eða blanda af hvor tveggja, sett á pönnu og bollurnar steiktar við fremur háan hita þar til þær eru nærri því gegnumsteiktar, bollunum snúið við þörfum. Tómatþykkninu („passerade“ tómatar) hellt út á pönnuna ásamt, rjóma, tómatpúrru, tómatsósu, sojasósu, kjötkrafti og kryddi. Sósunni leyft að malla þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en sósan er borin fram er hún smökkuð til með  til dæmis kryddi og sojasósu. Ef maður vill þykkari sósu er hægt að nota dálítinn sósujafnara eða maizenamjöl. Borið fram með pasta.