Ostakjötbollur með pasta og mjúkri tómatsósu


Þessi réttur er ofsalega mildur og bragðgóður auk þess að vera einstaklega barnvænn! Engin óvinsæll laukur eða sterk krydd en samt voru kjötbollurnar bragðmiklar með piparostinum og sósan mjúk og bragðgóð. Rétturinn fékk 11 í einkunn af 10 mögulegum hjá yngstu börnunum, ,,sjúklega gott“ hljómaði dómurinn! Ég var að fara í saumaklúbb hjá glæsilega matarbloggaranum henni Svövu vinkonu minni og ég ætlaði sko ekki að mæta södd þangað! 🙂 En börnin þurftu eitthvað að borða (bæði stór og smá!) og ég ákvað að búa til eitthvað sem þeim yngri þætti reglulega gott. Jóhanna Inga var búin að tala um að sig langaði í kjötbollur. Ég átti hakk og bjó til þennan rétt úr því hráefni sem ég átti í ísskápnum og það heppnaðist afar vel.

Kjötbollur:

  • 700 gr hakk piparostur
  • 1 box rifinn piparostur
  • 1 dl brauðmylsna
  • 1 egg
  • 1 tsk basilika
  • salt og pipar
  • smjör eða olía til steikingar

Sósa:

  • 1 ferna eða dós „passerade“ tómatar (þessir sem eru alveg fínmaukaðir, eins og þykkur tómatsafi)
  • 2 dl rjómi eða matargerðarjómi
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk tómatsósa
  • 1/2 msk sojasósa
  • 1/2 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • annað krydd, t.d. steinselja, origano og basilika (má sleppa)

Pasta: soðið eftir leiðbeiningum

Öllum hráefnunum í kjötbollurnar blandað saman (ég reyndi að mauka ostinn vel með höndunum) og litlar kjötbollur mótaðar. Olía eða smjör, eða blanda af hvor tveggja, sett á pönnu og bollurnar steiktar við fremur háan hita þar til þær eru nærri því gegnumsteiktar, bollunum snúið við þörfum. Tómatþykkninu („passerade“ tómatar) hellt út á pönnuna ásamt, rjóma, tómatpúrru, tómatsósu, sojasósu, kjötkrafti og kryddi. Sósunni leyft að malla þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en sósan er borin fram er hún smökkuð til með  til dæmis kryddi og sojasósu. Ef maður vill þykkari sósu er hægt að nota dálítinn sósujafnara eða maizenamjöl. Borið fram með pasta.

Kjötbollur í tómatsósu


Í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni minni, sem mér er tíðrætt um, er þessi uppskrift af kjötbollum á þriðju blaðsíðu. Þetta er því uppskrift sem hefur fylgt okkur fjölskyldunni frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega krökkunum. Með þessum rétti hef ég hrísgrjón eða kúskús. Ég hef með árunum minnkað kjötbollurnar töluvert, þá þurfa þær styttri eldunartíma. Í upprunalegu uppskriftinni er ekki egg en mér finnst það binda svo vel saman bollurnar að ég bætti því við. Það er mikilvægt að krydda vel hakkið svo að þetta verði kjötbollur sem bragð er að! Í uppskriftinni sem ég gef upp hér að neðan er sama magn og ég nota fyrir fjölskylduna okkar, það er, fyrir sex svanga og ei matgranna, það kláraðist hver einasta bolla hjá okkur! Fyrir þetta magn þarf að nota tvær pönnur til að steikja bollurnar á eða steikja þær í tveimur umferðum.

Uppskrift:

  • 1300 gr nautahakk
  • 2 1/2 dl brauðmylsna eða mulið Ritz kex
  • 1 egg
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum
  • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 2 dósir hakkaðir tómatar með basilku
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1/2 dl tómatsósa
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk þurrkuð basilika

Nautahakki, brauðmylsnu, rifnum osti, eggi og kryddi blandað vel saman og mótaðar bollur  á stærð við tómata. Bollurnar eru steiktar í smjöri og/eða olíu á pönnu þar til þær eru vel steiktar á öllum hliðum. Ef pannan er stór er hægt að útbúa sósuna á pönnunni, annars er best að færa bollurnar yfir í stóran pott og útbúa sósuna í honum. Lauknum bætt á pönnuna með bollunum, því næst er rjómanum hellt út á ásamt hökkuðum tómötunum. Að því búnu er tómatpúrru, tómatsósu, kjötkrafti og basiliku bætt út í. Bollurnar látnar malla í sósunni í ca. 10-15 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Sósan er smökkuð til með kryddi. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati eða soðnu brokkolí.