Kjötbollur í tómatsósu


Í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni minni, sem mér er tíðrætt um, er þessi uppskrift af kjötbollum á þriðju blaðsíðu. Þetta er því uppskrift sem hefur fylgt okkur fjölskyldunni frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega krökkunum. Með þessum rétti hef ég hrísgrjón eða kúskús. Ég hef með árunum minnkað kjötbollurnar töluvert, þá þurfa þær styttri eldunartíma. Í upprunalegu uppskriftinni er ekki egg en mér finnst það binda svo vel saman bollurnar að ég bætti því við. Það er mikilvægt að krydda vel hakkið svo að þetta verði kjötbollur sem bragð er að! Í uppskriftinni sem ég gef upp hér að neðan er sama magn og ég nota fyrir fjölskylduna okkar, það er, fyrir sex svanga og ei matgranna, það kláraðist hver einasta bolla hjá okkur! Fyrir þetta magn þarf að nota tvær pönnur til að steikja bollurnar á eða steikja þær í tveimur umferðum.

Uppskrift:

  • 1300 gr nautahakk
  • 2 1/2 dl brauðmylsna eða mulið Ritz kex
  • 1 egg
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum
  • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 2 dósir hakkaðir tómatar með basilku
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1/2 dl tómatsósa
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk þurrkuð basilika

Nautahakki, brauðmylsnu, rifnum osti, eggi og kryddi blandað vel saman og mótaðar bollur  á stærð við tómata. Bollurnar eru steiktar í smjöri og/eða olíu á pönnu þar til þær eru vel steiktar á öllum hliðum. Ef pannan er stór er hægt að útbúa sósuna á pönnunni, annars er best að færa bollurnar yfir í stóran pott og útbúa sósuna í honum. Lauknum bætt á pönnuna með bollunum, því næst er rjómanum hellt út á ásamt hökkuðum tómötunum. Að því búnu er tómatpúrru, tómatsósu, kjötkrafti og basiliku bætt út í. Bollurnar látnar malla í sósunni í ca. 10-15 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Sósan er smökkuð til með kryddi. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati eða soðnu brokkolí.

Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

  • 2 ½ dl hveiti
  • 125 gr smjör, kalt
  • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

  • 700 gr nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 200 gr kotasæla
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 2 dl maísbaunir
  • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
  • 2 niðurskornir tómatar
  • jalapeños eftir smekk
  • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.

Brauðhleifur með ítalskri fyllingu


Ég sá þessa uppskrift á sænsku matarbloggi sem ég fylgist reglulega með. Þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn var ég svolítið vantrúuð á að hann væri góður. En annað kom á daginn, rétturinn var voða góður og það sem enn betra var, meira að segja krökkunum fannst þetta góður matur! Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar maður dettur niður á kvöldmat sem yngstu krakkarnir fúlsa ekki við! Ég hef prófað að nota allskonar brauðhleifa fyrir þennan rétt, aðallega reyni ég að hafa brauðið frekar stórt og að skorpan sé föst í sér. Ef ég sé stóran og girnilegan brauðhleif úti í búð þá enda ég oft á að hafa þennan rétt um kvöldið. Nettó og Hagkaup eru til dæmis matvöruverslanir sem selja brauð sem ekki er niðursneitt og passa vel fyrir þessa uppskrift. Ef krakkarnir myndu borða sveppi þá myndi ég klárlega bæta þeim við þessa uppskrift. Það myndi passa best að steikja þá með lauknum í upphafi. Innvolsið úr brauðinu er fjarlægt en mér er illa við sóun á mat. Ég legg því stundum innvolsið í lítið eldfast mót, bræði smjör með hvítlauk í og helli yfir, strái svo dálitum osti yfir brauðið að lokum. Þetta hita ég í ofninum þar til osturinn tekur lit og krakkarnir borða af bestu lyst.

Uppskrift f. 4

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk (eða teningur) kjötkraftur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 6-700 gr nautahakk
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, gjarnan með basiliku eða hvítlauk
  • vænn skammtur af ferskri basiliku, söxuð (má nota 2 msk af þurrkaðri basiliku)
  • salt og pipar
  • góð kryddblanda með ítölskum kryddum, t.d. Best á allt
  • 1 tsk sykur
  • 1 dl steinlausar ólífur, svartar eða grænar
  • 125 g mozzarella ostur
  • 150 g rifinn ostur, gjarnan bragðsterkur
  • 1 brauðhleifur

Aðferð:

Saxið laukinn smátt, hakkið hvítlaukinn og skerið sólþurrkuðu tómatana í litla bita. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo hakkinu og kjötkrafti út í Bætið síðan við niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basilku Látið malla í 10 mínútur og kryddið með ítalskri kryddblöndu, salti, pipar og sykri.

Skerið brauðhleifinn á lengdina þannig að neðri hlutinn sé töluvert hærri en lokið. Takið innvolsið innan úr brauðinu, skiljið eftir ca tveggja cm kant. Yfirleitt tek ég líka aðeins innan úr lokinu. Þegar kjötsósan hefur mallað í 10 mínútur er pannan tekin af hellunni. Mozzarella skorinn í bita og ólífurnar saxaðar gróft. Hvort tveggja er bætt út á pönnuna ásamt rifnum osti. Hrærið ostinum og ólífunum saman við kjötsósuna og hellið svo blöndunni í brauðið. Brauðinu er svo vafið inn í álpappír og bakað inní ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur eða þangað til brauðið er vel heitt í gegn. Berið fram með salati.