Geggjuð mexíkósk ídýfa


IMG_5392

Já, ég ætla hreinlega að kalla þessa uppskift ”geggjuð mexíkósk ídýfa” því það lýsir henni langbest! Þegar ég var að undirbúa útskriftarveisluna hennar Óskar þá bauðst Anna Sif vinkona til að gera mexíkóska ídýfu sem hún hafði fengið uppskrift að hjá vinkonu sinni. Ég þáði boðið og skemmst er að segja frá því að þetta var eiginlega sá réttur sem hlaut mestu athyglina á hlaðborðinu. Þessi ídýfa er nefnilega svo geggjað góð að það hálfa væri nóg!! Það báðu eiginlega allir um uppskriftina og ég hef verið á leiðinni að setja hana hingað inn í allt sumar. Í gærkvöldi fór Anna vinkona með þessa ídýfu í boð og hún sendi mér skilaboð í dag um að ég yrði að drífa þessa uppskrift inn á alnetið því það voru allir að missa sig yfir ídýfunni og vantaði aðgang að uppskriftinni. Ég bar ídýfuna fram í Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) en það er líka rosalega gott að bera hana fram með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

Hérna kemur uppskriftin og ég segi það og skrifa, þið verðið elskuð af öllum þeim sem fá að smakka þessa sjúklega góðu ídýfu hjá ykkur! 🙂

IMG_5378

 Uppskrift:

Fyrir meðalstórt eldfast mót

  • 200 g rjómaostur
  • 1-2 dósir (fer eftir stærð mótsins) maukaðar pintóbaunir (refried beans) frá t.d. Old el paso eða Santa Maria
  • 1 krukka jalapeno (ca. 100 g án vökva), minna fyrir mildari ídýfu, saxað smátt
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1/2 bréf af taco kryddblöndu
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn smátt
  • ca 300 g rifinn ostur
  • 2 krukkur (fer eftir stærð mótsins) taco sósa
  • ca 200 g (án vökva) svartar olífur , skornar í sneiðar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, blöðin söxuð

Rjómaosti er smurt á botn eldfasta mótsins. Þá er niðursoðnu bauninum dreift jafnt yfir rjómaostinn. Jalapeno er saxað smátt og dreift yfir baunirnar. Þá er sýrðum rjóma blandað saman við hálft bréf af taco kryddi og blöndunni dreift yfir jalapenos. Því næst er smátt söxuðum rauðlauk dreift yfir sýrða rjómablönduna. Síðan er rifna ostinum dreift yfir rauðlaukinn. Þá er rifni osturinn þakinn með taco sósu. Því næst er söxuðum svörtum ólífum dreift yfir taco sósuna og loks er söxuðum kóríander blöðum dreift yfir ólífurnar.

Borið fram í t.d. Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) eða með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

IMG_5393IMG_5391

 

Mexíkóskur kjúklingaréttur


Mexíkóskur kjúklingaréttur

Fyrir stuttu skrifaði ég langa bloggfærslu um fermingarveisluna sem við vorum með um páskana. Anna vinkona minnti mig á fleiri punkta sem ég hafði gleymt að skrifa um þannig að áður löng bloggfærsla er nú orðin enn lengri … hér er slóðin ef einhvern langar að lesa.

Um daginn eldaði ég þennan mexíkóska kjúklingarétt og mallaði eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti í ísskápnum. Ég hef ekki enn lært af reynslunni og tel mig alltaf muna hvað ég set í réttina án þess að skrifa það niður sem er auðvitað algjör vitleysa. Ég er varla staðinn upp frá matarborðinu þegar ég hef þegar steingleymt því öllu. Sem betur fer tók ég margar myndir af ferlinu að þessu sinni og gat því rifjað upp uppskriftina. Sem var eins gott! Þessi réttur sló nefnilega í gegn hér heima og við borðuðum öll óhóflega mikið af þessum rétti. Galdrahráefnið var ostur held ég, mikill ostur gerir þennan rétt ómótstæðilegan! 🙂 Þessi réttur verður sannarlega eldaður fljótt aftur hér á heimilinu.

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í bita
  • 1 stór rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 bréf burritokrydd
  • salt & pipar
  • hvítlaukskrydd
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (gott að hafa þá bragðbætta með t.d. chili)
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca. 200 g salsa sósa
  • 6 stórar tortillur
  • 2 pokar rifinn ostur
  • borið fram með guacamole, sýrðum rjóma og salati

IMG_5464

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur og laukur er steiktur á pönnu þar til kjúklingurinn hefur tekið lit, þá er kryddað með hvítlaukskryddi, burritokryddi og salti og pipar ásamt kjúklingakrafti. Því næst er tómötum í dós bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Á meðan er philadelphia rjómaostur og sýrður rjómi settur í pott og brætt við vægan hita og sett svo til hliðar. Nú er kjúklingurinn veiddur af pönnunni og skipt á milli tortillanna (gott að nota gataspaða og skilja eftir mesta vökvann á pönnunni). Því næst er rifna ostinum úr öðrum pokanum dreift yfir kjúklinginn. Þá er tortillunum rúllað upp og þeim raðað í eldfast mót. Salsa sósunni er nú bætt út á pönnuna og leyft að malla í stutta stund og þannig blandað saman við sósuna sem var skilin eftir á pönnunni. Kryddað eftir smekk ef með þarf. Að lokum er rjómaostasósunni dreift yfir tortillurnar, þá salsa sósunni og að síðustu er rifna ostinum úr seinni pokanum dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
IMG_5473

Mexíkósk nautahakksrúlla


Mexíkósk nautahakksrúlla

Ég gerði enn eina útfærsluna af nautahakksrúllunni vinsælu en þetta kunn vera fjórða útgáfan sem ég set hingað á síðuna.

Þetta byrjaði allt með nautahakksrúllunni með brokkolí og osti.recently-updated121Ég færði mig síðan upp á skaftið og útfærði aðra rúllu með meðal annars beikoni og eplum. IMG_9706Næst ákvað ég að prófa að nota mozzarella, tómata og basiliku í fyllinguna.

IMG_0576

Í vikunni fékk ég þá skyndihugdettu að gera rúlluna mexíkóska. Ég lét ekki sitja við orðin tóm og prófaði að gera slíka rúllu samdægurs. Ég notaði þau hráefni sem ég átti í ísskápnum. Til dæmis datt mér í hug að setja hrísgrjón og maísbaunir í fyllinguna en hafði áhyggjur af því að fyllingin yrði of þurr þannig. Ég átti eitt box af Philadelphia osti með sweet chili og hrærði honum því saman við hrísgrjónin. Mér finnst gott að krydda nautahakkið vel en fólk þarf að meta það sjálft hversu vel kryddað hakkið á að vera, mælieiningarnar hér að neðan er aðeins til viðmiðunnar, ég notaði aðeins meira. Í fyllinguna eru notuð soðin hrísgrjón og það er mjög sniðugt að spara sér tíma og sjóða aukalega hrísgrjón með einhverjum kvöldmatnum, geyma í ísskáp og nota svo í fyllinguna.

Uppskrift:

  • 700 g nautahakk
  • 1/2 tsk chili duft
  • 1/2 tsk paprika
  • 1/2 tsk cumin krydd (broddkúmen) – ath. ekki kúmen
  • 1/2 tsk oregano
  • hnífsoddur cayanne pipar
  • salt & pipar
  • Fyrir þá sem kjósa það heldur þá er hægt að nota tilbúna Burrito kryddblöndu í stað kryddanna hér að ofan
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ca. 1/4 meðalstór laukur, saxaður mjög smátt
  • 1 egg

Fylling:

  • ca. 2,5 – 3 dl af ósoðnum hrísgrjónum sem eru soðin samkvæmt leiðbeiningum
  • lítil dós gular maísbaunir
  • 1 dós Philadelphia ostur með sweet chili
  • (mér datt í hug eftir á að það hefði líklega verið gott að steikja rauðlauk og bæta í fyllinguna!)

Ofan á rúlluna:

  • 1 krukka salsa (ca. 350 g)
  • rifinn mozzarella ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum, eggjunum, lauknum og hvítlauknum er blandað vel saman við nautahakkið. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Soðnum hrísgrjónum, gulum maísbaunum og Philadelphia osti er blandað vel saman og dreift jafnt yfir hakkið. Því næst er rúllunni rúllað upp með hjálp bökunarparppírsins undir hakkinu. IMG_1100Rúllan er færð varlega yfir í eldfast mót eða á bökunarplötu og bökuð í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er hún tekin út, salsa sósu hellt yfir rúlluna og rifnum osti dreift yfir. IMG_1102Rúllan er aftur sett inn í ofn og bökuð í um það bil 20 mínútur til viðbótar eða þar til rúllan er elduð í gegn. Ef osturinn fer að dökkna of mikið er hægt að setja álpappír yfir rúlluna undir lokin. Athugið að bökunartíminn er bara til viðmiðunnar, hann fer alfarið eftir því hvernig hakkinu er rúllað út og þá hver þykktin verður á rúllunni. Þykk og stutt rúlla þarf lengri bökunartíma en löng og mjó þarf styttri! 🙂

Borið fram með salsasósu, fersku guacamole og fersku salati. Mitt ferska salat þessa dagana samanstendur af einhverju góðu grænu salati blandað við dásamlega fersku og góðu baunaspírurnar frá Ecospiru. Ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1117

Baunaspírur

Quesadillas


Quesadillas

Núna er ég komin í sumarfrí frá aðalvinnunni minni en þá hittist þannig á að það er brjálað að gera í aukavinnunni minni. Síðastliðinn föstudag tók ég fjórtán tíma vinnutörn og henni er ekki lokið enn. Það dregst því að ég geti notið sumarfríisins. En um helgina var ég allavega í fríi og gerði margt skemmtilegt. Í gær fórum við í glæsilega fermingaveislu og seinna um daginn var Símon „litli“ bróðir minn með útskriftarveislu. Þessi snillingur er kominn með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði.

Simon

Klára og myndarlega verkfræðingaparið, Bryndís og Símon og girnilegar veitingar í veislunni þeirra.

Þar með erum við öll þrjú systkinin orðnir meistarar! 😉 Guðjón bróðir er nefnilega með meistaragráðu í hugbúnaðarverkfræði og ég í bókasafns- og upplýsingafræði. Ég gerði einn rétt fyrir útskriftarveisluna hjá Símoni bróður, quesadillas. Þessar fylltu mexíkósku pönnukökur eru afar sniðugar í veislur og partý. Það er hægt að gera svo margar mismunandi fyllingar, það er fljótlegt að útbúa þær og síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar.

Simon1

Ég prófaði annars vegar að leggja eina pönnuköku ofan á aðra og hinsvegar að setja fyllingu öðrum megin á pönnukönuna og loka henni með því að brjóta hana saman. Hið síðarnefnda var einfaldara því þá komust fleiri pönnukökur á bökunarplötuna, eins helst fyllingin betur í pönnukökunni. Gott er að bera quesadillurnar fram á meðan þær eru enn heitar en þær eru samt ekkert síðri orðnar kaldar.

IMG_0390Það er hægt að leggja tvær tortillur saman og skera síðan í átta bita en mér fannst best að brjóta eina saman og skera hana svo í fjóra bita. 

Ég gerði nokkrar tegundir af quesadillas að þessu sinni. Sumt hafði ég skipulagt fyrirfram, annað kom að sjálfu sér útfrá því sem ég átti til í ísskápnum. Hér gef ég uppskriftir að helstu tegundunum.

IMG_0680

Quesadillur í bígerð – tekið af Instagram

Quesadillas með gullosti og mango chutney

  • Gullostur
  • mango chutney
  • tortillas pönnukökur

IMG_0382Hér setti ég fyllingu á alla pönnukökuna og svo aðra yfir

Pönnukakan er smurð með mango chutney, gott að skera mangóbitana í minni bita. Því næst er Gullosturinn skorinn í sneiðar og þeim raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Þá er henni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0427

Quesadillas með mozzarella, basiliku og tómötum

  • Mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum)
  • fersk basilika
  • tómatar
  • svartur grófmalaður pipar
  • tortillas pönnukökur

IMG_0466

Mozzarellakúlan er sneidd í fremur þunnar sneiðar og raðað á annan helming pönnukökunnar. Þá eru tómatarnir skornir í tvennt og kjötið hreinsað innan úr þeim (það er ekki notað, vökvinn verður of mikill). Það sem eftir verður er skorið í lita bita og dreift yfir mozzarella ostinn. Þá er basilikan söxuð og dreift yfir að lokum ásamt dálitlum pipar. Þvi næst er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

Quesadillas með steiktum sveppum, steinselju, rifnum mozzarellaosti og parmesan

  • sveppir
  • grænmetiskraftur
  • salt og svartur pipar
  • fersk blaðasteinselja, söxuð smátt
  • smjör til steikingar
  • rifinn mozzarellaostur eða gratínostur
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • tortilla pönnukökur

IMG_0393IMG_0395

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjör á pönnu, kryddaðir með salti, pipar, ferskri steinselju og grænmetiskrafti. Þegar sveppirnir eru mátulega steiktir eru þeir veiddir af pönnunni og fitan látin leka af þeim. Því næst er þeim dreift yfir annan helminginn á pönnukökunni. Rifnum mozzarellaosti og parmesan osti er dreift yfir sveppina. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0406

Quesadillas með pestó, skinku, parmesan, basiliku og rifnum mossarellaosti

  • Pestó að eigin vali, ég notaði pestó með valhnetum og papriku frá Jamie Oliver (fæst allavega í Krónunni) – má líka sleppa og nota bara neðangreint hráefni
  • reykt skinka
  • parmesan ostur, rifinn
  • rifinn mozzarella ostur eða gratínostur
  • tortilla pönnukökur
  • ferskt basilika (eða blaðasteinselja), saxað smátt

IMG_0399

Pönnukakan er smurð með pestóinu (má líka sleppa). Því næst er skinkan skorin í bita og henni raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Að lokum er rifnum mozzarellaosti og rifnum parmesan osti ásamt basiliku (eða blaðasteinselju) dreift yfir skinkuna. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0403

Quesadillas með fetaosti, svörtum ólífum og chili

  • 1/2 rautt chili
  • ca 100 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 50 g fetaostur
  • ca. 12 svartar ólífur
  • ca. 1 1/2 msk ferskt kóríander, saxað
  • 2 -3 tortillur

IMG_0387

Þar sem búið er til mauk úr þessari fyllingu gef ég upp nákvæmari mælieiningar á hráefnunum hér en fyrir hinar fyllingarnar. Fræhreinsið og saxið chili-aldinið og setjið það í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Ostamaukinu er skipt jafnt á tvær eða þrjár tortillur og þær lagðar saman. Tortilla pönnukökurnar eru settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0412

 

Ofnbakað nachos með cheddarosti


Ofnbakað nachos

Nú er að baki stutt vinnuvika sem bauð upp á einstaka veðurblíðu. Besta vinkona Óskar frá Svþjóð er búin að vera hjá okkur í heimsókn síðastliðna viku. Þær vinkonurnar hafa notið þess að fara í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi og gengið um borgina í sól og veðurblíðu.

Ég hef verið spennt að nota allt góða kjötið mitt frá Mýranauti. Það er svo gaman að nota svona gott hráefni og geta verið þess fullviss að maður sé að bjóða upp á eins vandaðan mat og völ er á. Ég líka farin að kaupa egg beint af býli. Þessi egg eru ofsalega góð og allt önnur en þau sem fást út í búð. Bæði eru þau einstaklega bragðgóð en líka extra stór, eitt slíkt egg samsvarar einu og hálfu hefðbundu eggi. Í uppskriftinni sem ég gef upp í dag gat ég notað góða nautahakkið frá Mýranauti. Þetta er alveg upplögð föstudagsuppskrift, það er alltaf svolítið notalegt að gera sér dagamun á föstudagskvöldum, borða eitthvað extra gott og jafnvel hafa matinn þannig að hægt sé að narta í hann yfir skemmtilegri bíómynd. Ég gef ekki upp neinar nákvæmar mælieiningar því magnið af hverju hráefni fer eftir smekk hvers og eins.

IMG_8823

Uppskrift:

  • nautahakk
  • tacos krydd
  • nachos flögur
  • cheddar ostur
  • Iceberg salat
  • gúrka
  • tómatur
  • sýrður rjómi
  • salsasósa

IMG_8827

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað með tacos kryddi.  Nachos flögum er dreift í eldfast mót, eða á ofnplötu, þannig að þær fari ekki ofan á hvor aðra. Cheddar-ostsneið er lögð ofan á hverja flögu. Flögurnar eru hitaðar í ofni við 200 gráður í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna. Gúrka og tómatur er skorið í litla bita og salatið rifið niður. Um leið og flögurnar koma út úr ofninum er hakkinu dreift yfir þær, þá grænmetinu og í lokin er sýrða rjómanum og salsa sósunni dreift yfir grænmetið. Ekki er verra að dreifa yfir réttinn, eða bera fram með honum, guacamole, uppskriftin af því er hér. Best er að borða réttinn bara með fingrunum (munið bara að vopnbúast með nóg af servíettum! 🙂 )

IMG_8841

Fiski-tacos Gwyneth Paltrow


IMG_7711Hún Ragga vinkona mín býr í Bandaríkjunum er listakokkur og benti mér á eina góða uppskrift úr matreiðslubókinni hennar Gwyneth Paltrow. Ég er búin að skoða þessa uppskrift í nokkra mánuði án þess að þora einhvern veginn að prófa. Ég tók mig svo taki og reyndi að sálfræðigreina hvað stoppaði mig að elda þessa máltíð sem að vinkonur mínar Ragga og Gwynna vippa fram úr erminni reglulega. Ég uppgötvaði að það væri líklega tvennt, annars vegar var það hráefni sem ég þekkti ekki og sá fram á að þurfa að eltast við. Hins vegar var það djúpsteikingin. Ég hef afar sjaldan djúpsteikt mat og set það einhvern veginn fyrir mig.

Tvennt fann ég ekki fyrir réttinn. Það voru korn-tortillur, þær eru víst rosa góðar fyrir þennan rétt, veit kannski einhver hvar þær fást? Ég notaði hveiti-tortillur í staðinn. Hins vegar var það chipotle í adobo sósu. Chipotle er reyktur jalapeño og adobo sósa er marinering gerð úr m.a. papriku, oregano og hvítlauk. Ég fann þetta ekki í Kosti en hins vegar fann ég Chipotle salsa sem ég notaði í staðinn. Ekki láta stoppa ykkur að það þurfi að búa til margt fyrir þennan rétt, þetta er allt mjög einfalt og fljótlegt að útbúa, alveg satt! 🙂

Uppskrift fyrir 6:

  • Djúpsteiktur fiskur
  • Límónu krem (lime creme)
  • Tómatsalsa (Pico de gallo)
  • Guacamole
  • „smokey“ sósa (Chipotle)
  • salatblöð
  • Korn-tortillur eða hveiti-tortillur
  • gott að bera fram með þessu límónubáta (lime) til að kreista yfir allt

Tómatsalsa (Pico de gallo):

  • 4-6 tómatar, saxaðir fremur smátt
  • ½ rauðlaukur (lítill), saxaður mjög smátt
  • 2 msk fínsaxaður kóríander
  • Maldon salt
  • Safi úr einni límónu (lime)

Öllu blandað saman í skál.

IMG_7684

Guacamole:

  • 1-2 þroskuð avacado
  • 2 msk hvítur laukur, smátt saxaður
  • 3 msk kóríander, smátt saxað
  • Safi úr einni límónu (lime)
  • maldon salt

Öllu blandað saman í skál

IMG_7685

„Chipotle mayo“ (smokey sósa)

  • 100 ml majónes (eða sýrður rjómi)
  • 2 chipotle í adobo sósu
  • 1 hvítlauksrif
  • salt

Maukað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Ég fann sem sagt ekki chipotle í adobo sósu og keypti chipotle salsa í Kosti. Við notuðum það beint upp úr krukkunni en ég blandaði það með sýrðum rjóma fyrir krakkana. Til þess að ná reykta bragðinu er líka hægt að nota bara venjulega barbeque sósu og blanda við majones/sýrðan rjóma – þá þarf ekki einu sinni að fara í Kost!

IMG_7689

Límónukrem (lime creme)

  • 150 ml majones (eða sýrður rjómi)
  • 1.5 msk límónu safi (lime)
  • salt

IMG_7693

 Djúpsteiktur fiskurOT496287S

  • Körfublómaolía eða hnetuolía fyrir djúpsteikingu (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)
  •  250 ml hveiti
  • 250 ml bjór
  • maldon salt
  • svartur pipar
  • 700 gr þorskur (eða ýsa), skorinn í fingurlanga strimla.

Olía sett í djúpsteikingarpott eða í stóran pott, ca 5 cm (ég notaði reyndar meira) og hitað upp í 180 gráður. Það er líka hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt er olían tilbúin. Á meðan olían hitnar er hveiti, bjór, dálítið af salti og pipar, pískað saman í stórri skál. Fiskinum dýpt ofan í deigið (ég notaði eldhústöng) og svo djúpsteiktur. Steiktur í 3-4 mínútur og honum snúið við á meðan. Steikt þangað til hann er orðinn fallega gylltur. Það þarf að passa að setja ekki of mikið í pottinn í einu! Fiskurinn er svo settur á grind með eldhúspappír undir og salti stráð yfir hann. Haldið áfram þar til allur fiskurinn er steiktur. Olían er látin kólna í pottinum, hún er svo sigtuð og sett aftur ofan í brúsann, hana er hægt að nota aftur.

IMG_7697

IMG_7695IMG_7699IMG_7702

Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

  • burritos eða tortillas pönnukökur
  • ólífuolía
  • maldon salt
  • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 4 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 4 hvítlauksrif
  • 1.5 líter kjúklingasoð
  • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
  • 1 tsk broddakúmen (krydd)
  • 1 tsk kóríander (krydd)
  • salt og pipar
  • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363

Mexíkóskur hamborgari með tómatsalsa og guacamole


IMG_1226Fyrsta aðventuhelgin að renna upp, dásamlegt! Það verður margt um að vera hjá okkur um helgina, meðal annars piparkökumálun og kransagerð. En það er ekki úr vegi að byrja helgina á gómsætum hamborgurum sem passa vel við föstudagskvöld. Ég datt niður á skemmtilegt blogg Svía sem bloggar bara um hamborgara! Hann býr bæði til sína eigin hamborgara í allskonar útfærslum en tekur líka út hamborgara á veitingastöðum. Til dæmis fór hann til New York í viku og borðaði mismunandi hamborgara í öll mál alla vikuna! Þegar ég renndi í gegnum bloggið hans sá ég allskonar spennandi uppskriftir af hamborgurum sem mig langar að prófa en þessi mexíkóski var svo girnilegur að ég varð að prófa hann samdægurs! Að sjálfsögðu grilluðum við hamborgarana, þeir verða svo miklu betri og mér finnst hægt að grilla allt árið um kring, nema kannski ef það er mikið frost eða ofankoma. Ég bjó til eigið guacamole og tómatsalsa en svo notuðum við líka tilbúið salsa sem var gott að nota til að bleyta aðeins upp í hamborgarabrauðinu þar sem að tilbúið salsa er með meiri tómatsósu en heimatilbúið. Þessir hamborgarar voru svo gómsætir eða eins og Ósk sagði eftir fyrsta bitann, ,,ég er í hamborgarahimni!“ 🙂 Næst ætla ég að prófa að búa sjálf til hamborgara, blanda nautahakki og mexókóskum kryddum saman, það er örugglega enn betra.

Tómatsalsa:

  • 2-3 stórir tómatar
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1-2 tsk fínsaxað rautt chili (eða eftir smekk)
  • 1/2 lime
  • 1-2 tsk ólífuolía
  • 2 tsk tómatpúrra
  • örlítill sykur
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander eftir smekk

IMG_1206

Tómatar skornir mjög smátt. Laukur og hvítlaukur saxað mjög smátt. Blandað saman í skál. Fínsöxuðu chili, safa úr límónuni, ólífuolía, tómatpúrra og sykur sett út í ásamt kóríander. Blandað vel. Smakkað til með pipar, salti og jafnvel meira af öðru hráefni, t.d. chili, limesafa, lauk eða öðru slíku ef með þarf. Gott að setja plast yfir skálina og geyma í dálitla stund í ísskáp áður en salsað er borið fram.

Guacamole uppskrift

  • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
  • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
  • 1/2 tsk salt

IMG_7254

Öllum hráefnunum blandað í skál, henni lokað þétt með plastfilmu og geymd í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Ef útbúa á guacamole með lengri fyrirvara getur verið leiðinlegt hvað maukið verður brúnt. Tvennt er hægt að gera til að koma í veg fyrir það. Það er að dreifa lime-safa vel yfir maukið og geyma avókadó steinana í maukinu.

  • Hamborgarar (ég notaði 120 gramma)
  • burrito kryddmix
  • Hamborgarabrauð
  • ostur (ég notaði Maribó ost)
  • kál
  • nachos
  • Thick ‘n Chunky salsa

Hamborgarar kryddaðir með burrito kryddmixi, því næst eru þeir grillaðir með osti. Thick ‘n Chunky salsa borið á báða helminga hamborgarbrauðsins. Þá er sett vel af káli, því næst fullt af guacamole, svo er það nachos, hamborgarinn kemur ofan á og loks nóg af tómatsalsa.

IMG_1219

Mexíkóskt burritogratín


Mexíkóskur matur er alltaf jafn vinsæll heima hjá okkur. Ég gerði þetta burritogratín í nýrri útgáfu. Ástæðan var einföld, ég uppgötvaði að hrísgrjónin voru búin en hins vegar átti ég perlukúskús. Það er eins og kúskús en kúlulaga, stærra og þykkara, með eins og pastaáferð. Afskaplega gott og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, sérstaklega krökkunum. Það kom afar vel út að nota perlukúskús í þennan rétt, ég held að ég taki það fram yfir hrísgrjónin. Perlukúskús er til í Hagkaup, Þinni verslun, hjá Tyrkneskum bazar og örugglega í fleiri verslunum en ég hef hvorki séð það í Krónunni eða Bónus enn.

Uppskrift:

  • 8 burrito eða tortilla pönnukökur
  • 1 krukka fajitasósa eða önnur salsasósa
  • 2-3 rauðar paprikur, skornar í bita
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 500 gr kjúklingabringur, eða kjöt af heilsteiktum kjúkling
  • 2 dl hrísgrjón, ósoðin (ég notaði perlukúskús)
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 lítil dós gular maísbaunir
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 tsk sambal oelek
  • salt og pipar
  • paprikukrydd

Hrísgrjónin soðin. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingabringur skornar í litla bita. Kjúklingur, rauðlaukur og paprika steikt á stórri pönnu. Því næst eru soðnu hrísgrjónunum, maísbaunum, sambal oelek og salsasósunni bætt út í og látið malla í smá stund.

Pressuðum hvítlauk bætt við sýrða rjómann og hann bragðbættur með salti, pipar og parprikukryddi. Sýrðum rjóma smurt á hverja tortillu eða burrito pönnuköku fyrir sig. Því næst er ríflega helmingnum af kjúklingasósunni skipt á milli pönnukakanna, þeim rúllað upp og raðað í eldfast mót. Afgangnum af kjúklingasósunni er dreift yfir og ef afgangur er af sýrða rjómanum er honum dreift yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn og hann bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og tekið lit. Borið fram með góðu salati. Einnig hægt að bjóða með réttinum meiri salsasósu, sýrðan rjóma og/eða guacamole.

Ofnbakaður tacoréttur


Eins og hjá flestum barnafjölskyldum er taco afar vinsæll matur á okkar heimili. Hins vegar er alltaf dálítið vesen að borða tacoskeljar! Ég geri stundum því stundum vinsælan tacorétt í staðinn sem er einfaldur og góður. Mér finnst samt eiginlega eins og ég sé að brjóta einhver foreldralög að nota snakk í kvöldmatinn! Það er einhvern veginn prentað í mann að snakk sé svo óhollt og ég forðast að kaupa það svona almennt. En í upphaflegu uppskriftinni er gert ráð fyrir því að nota mjög stóran tortillupoka, sem er yfir 400 gr (þetta er reyndar fremur stór uppskrift). Ég átti bágt með að nota svona mikið og minnkaði snakkið aðeins en setti á móti taco skeljar sem ég braut gróft. En reyndar er nú föstudagskvöld og þá má leyfa sér svolítið! 🙂

Uppskrift f. ca. 6

  • 1 poki Tortilla eða Nachos flögur, ca. 3-400 gr.
  • 1 kg nautahakk
  • 2 bréf tacokrydd
  • 1 msk nautakraftur
  • 3 dl vatn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 askja Philadelphia ostur
  • 4-5 tómatar, sneiddir
  • 1 ½ paprika, skorin í bita
  • 1 dós gular maísbaunir
  • 1 púrrlaukur, sneiddur
  • rifinn ostur
Bakarofn stilltur á 225 gráður. Flögunum dreift á botninn á ofnskúffu. Nautahakk steikt og tacokryddinu bætt út í. Því næst er vatni bætt við ásamt nautakrafti. Hakkið látið malla þar til vökvinn er soðinn niður. Þá er hakkinu dreift yfir flögurnar. Rjómaosti og sýrðum rjóma (báðum dósunum) hrært saman og dreift yfir hakkið. Því næst er grænmetinu dreift yfir og að lokum rifna ostinum. Bakað í ofni í ca. 12 mínútur. Ég stillti á grill síðustu mínúturnar til að osturinn tæki betri lit frekar er en að lengja bökunartímann því þá myndu tortilla flögurnar ekki haldast eins stökkar. Borið fram með salati, guacamole, sýrðum rjóma og salsasósu.