Stökk berjabaka með vanillusósu


Stökk berjabaka með vanillusósu

Undanförnum kvöldum hef ég eytt í annað en að blogga. Meðal annars fórum við hjónin á skemmtilega árshátíð í Hörpunni um síðustu helgi og í fjölskyldu-þorrablót til foreldra minna. Að auki erum við dottin í að horfa á Breaking bad þættina og erum orðin afar spennt fyrir þeim. En það sem okkur fjölskyldunni hefur þótt allra skemmtilegast að gera undanfarin kvöld er að horfa á fjölskyldumyndir síðastliðna ára. Við höfum alltaf verið mjög dugleg við að taka vídeómyndir, svo dugleg að við áttum orðið heilan kassa af litlum videóspólum sem pössuðu ekki lengur í nein tæki og því ekki hægt að horfa á þær. Nú tók ég mig taki og fór með þetta allt til fyrirtækis sem færði þær yfir á harðan disk. Fyrir helgi var sú vinna tilbúin og við fengum afhent yfir hundrað klukkutíma efni sem spannar síðastliðin 20 ár í lífi okkar fjölskyldunnar. Það sem við höfum skemmt okkur við að horfa á þessar myndir – alveg ómetanlegar minningar! 🙂

Það er þó löngu tímabært að setja inn uppskrift hingað á síðuna. Fyrir nokkrum dögum komu amma og afi í mat og ég ákvað að hafa fljótlegan og góðan eftirrétt, berjaböku. Svíarnir kalla svona bökur „smulpaj“ en ég veit eiginlega ekki hvernig það er þýtt á íslensku en bein þýðing er „mylsnubaka“. Þetta er eftirréttur sem er gott að grípa í því oftast nær á maður til öll hráefnin í hann. Ég ákvað að taka Svíann á þetta, gerði vanillusósu blandaða rjóma og bar fram með rjúkandi heita pæinu, dásamlega gott!

Uppskrift:

 • 500 g frosin berjablanda (afþýdd)
 • 1 dl sykur
 • 2 msk. kartöflumjöl
 • 100 g smjör
 • 1 1/2 dl hveiti
 • 1 dl haframjöl
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 dl púðursykur eða sykur
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk vanillusykur

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Berin eru afþýdd og sett í eldfast mót, sykri og kartöflumjöli stráð yfir.

Kókosmjöl og haframjöl ristað á þurri pönnu í stutta stund þar til það hefur tekið smá lit. Smjör brætt í potti og kókosmjöli, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og vanillusykri blandað út í. Blöndunni er síðan dreift jafnt yfir berin. Bakað í ofni við 200 gráður í 20-30 mínútur eða þar til bakan hefur tekið góðan lit. Borið fram með þeyttum rjóma, ís eða vanillusósu.

IMG_3613

Vanillusósa:

 • 1 vanillustöng
 • 4 dl mjólk
 • 1 dl sykur
 • 4 eggjarauður
 • 1 tsk maizenamjöl eða kartöflumjöl
 • 2 dl þeyttur rjómi (mældur eftir að hann er þeyttur)

Eggjarauður, sykur og maizenamjöl (eða kartöflumjöl) þeytt vel saman þar til blandan verður létt og ljós. Á meðan er vanillustöngin er klofin og fræin skafin innan úr henni. Mjólk sett í pott ásamt vanillufræunum og sjálfri vanillustönginni. Mjólkin látin ná suðu (má ekki brenna við botninn), potturinn tekinn af hellunni og látin standa í nokkrar mínútur til að kólna lítillega. Vanillustöngin veidd upp úr. Þegar eggjablandan er tilbúin er henni blandað út í mjólkina. Potturinn er settur aftur á helluna við meðalhita og hrært í á meðan þar til að blandan þykknar og verður fremur kremkennd. Blandan má alls ekki sjóða og ef maður vill er hægt að fylgjast með henni með hitamæli, hitinn má ekki fara yfir 74 gráður. Þegar sósan er passlega þykk er hún tekin af hellunni og látin kólna alveg áður en þeytta rjómanum er bætt út í. Borin strax fram með heitri berjaböku.

IMG_3621

Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

 • 900 g nautahakk
 • 2 tsk sesamolía
 • 2.5 dl brauðmylsna
 • 1 tsk engifer (krydd)
 • salt & pipar
 • 2 egg
 • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
 • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
 • 2 dl Hoisin sósa
 • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 msk sojasósa
 • 1 tsk sesamolía
 • 1 tsk engifer (krydd)
 • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Kókosbolludraumur


KókosbolludraumurÞá er góðri helgi senn að ljúka. Ósk hélt tvítugsafmælispartý í gærkvöldi og við buðum upp á ýmsar veitingar sem ég mun setja inn uppskriftirnar að á næstunni. Á meðan partýinu stóð fórum við hjónin í matarklúbbinn okkar en í honum elda karlmennirnir og við konurnar njótum þriggja rétta máltíðar með viðeigandi drykkum. Frábær kvöld sem mættu vera svo mikið oftar! 🙂 Að þessu sinni gerði Elfar forréttinn og bauð upp á humarsúpu með hjálp frá Hrefnu Sætran. Hann keypti sem sagt tilbúna humarsúpu frá Hrefnu (fæst í matvöruverslunum), bragðbætti hana með humarkrafti og fleiru auk þess sem hann bætti við gómsætum humri, afbragðsgott!

Við eyddum þessum ljúfa sunndegi við tiltekt eftir afmælisveisluna og afslöppun á meðan hægeldaða lambið mallaði í ofninum. Núna erum við hjónin hins vegar á leiðinni út úr húsi í bíó sem mér finnst vera fullkominn endir á góðri helgi. Fyrst ætla ég þó að setja inn eina uppskrift hingað á síðuna.

Um daginn gerði ég þessa eftirréttabombu sem er svo ákaflega fljótlegt og auðvelt að útbúa og er ómótstæðilega góð!

IMG_2667

Uppskrift f. 6

 • 1 box kókosbollur (4 kókosbollur)
 • 1 poki lakkrískurl hjúpað súkkulaði (150 g)
 • 1 marengsbotn
 • 1/2 líter rjómi
 • 1 box jarðarber
 • 1 box bláber
 • önnur ber ef maður vill (t.d. hindber, rifsber, blæjuber og vínber)
 • 100 g suðusúkkulaði (má sleppa)

Hver kókosbolla er skorin í þrjá bita og bitunum raðað ofan í eldfast mót.

IMG_2642

Því næst er rjóminn þeyttur. Margengsbotninn er mulinn og blandað út í rjómann auk lakkrískurlsins. Þá er rjómanum dreift yfir kókosbollurnar.

IMG_2644Að lokum eru berin sett yfir rjómann. Gott er að bræða suðusúkkulaði og dreifa yfir berin rétt áður en rétturinn er borinn fram.

IMG_2659

Hrökkkex með kúmeni og piparosti


Hrökkbrauð með kúmeni og piparostiÉg fékk uppskrift að dásamlega góðu hrökkkexi frá vinkonu minni sem er heimilisfræðikennari og snillingur í eldhúsinu. Mér finnst ofsalega gott að grípa í hrökkkex með góðum ostum eða öðru áleggi og þá er ekki slæmt að hafa svona góðan kost í kexi. Þetta kex er sykur- og hveitilaust og er stútfullt af hollum og bragðgóðum fræjum. Mér finnst kúmenið setja punktinn yfir i-ið í þessu kexi. Það þarf aðeins að prófa sig áfram með vatnið,  magnið fer eftir því hvaða tegund af huski er notuð. Svo virðist eins og að grófara husk þurfi minna vatn en ef það er duftkennt þarf að nota allt að tvo desilítra af vatni.

Uppskrift: 

 • 2 dl eggjahvítur
 • 2 msk chiafræ
 • 1 ½ dl hörfræ
 • 1 dl graskersfræ
 • 2 dl sesamfræ
 • 1 dl hörfræmjöl (Golden Flax Seed meal)
 • ½ dl husk
 • 1 tsk salt
 • 3 msk kúmen
 • ½ piparostur, rifinn
 • 1-2 dl heitt vatn

IMG_3425Aðferð:

Ofn hitaður í 120 gráður á blæstri. Þeytið eggjahvíturnar lauslega og bætið chiafræunum við, látið standa í ca 10 mínútur eða þangað til fræin hafa blásið út. Blandið síðan öllum þurrefnunum ásamt ostinum út í og hrærið. Vatninu er því næst bætt út þar til deigið er hæfilega blautt. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, leggið aðra pappírsörk yfir deigið og fletjið út með kökukefli, fjarlægið pappírinn. Bakið við 120°c og blástur í 35 mínútur, takið hrökkbrauðið út og hvolfið því. Skerið með pizzahníf og bakið áfram á hinni hliðinni í 35 mínútur.

IMG_3430

Andabringur með karamelliseruðum perum og klettasalati


AndabringurÞá er helgin liðin jafn fljótt og venjulega. Mér tókst að „af-jóla“ heimilið um helgina en eins og það er alltaf gaman að setja upp allt jólaskrautið í desember þá er ákveðin léttir líka þegar það fer – einhverskonar nýtt upphaf sem hæfir nýju ári. Við fjölskyldan settum okkur líka nýtt markmið, það er að stilla klukkuna á hverjum í degi í 15-20 mínútur og á þeim tíma eiga allir að vera eins og Speedy Gonzales og laga til í húsinu, þ.e. setja hluti sem ekki eru á sínum stað, á sinn stað! Frábært markmið sem við þverbrutum strax í dag, fyrsta daginn! Einhvern veginn er það þannig að allir eru alltaf svo uppteknir og við erum sjaldnast öll heima á sama tíma. Elfar er til dæmis búinn að vera á vakt alla helgina og kemur ekki heim fyrr en seint í kvöld og krakkarnir uppteknir með vinum sínum. Batnandi fólki er þó best að lifa og við reynum við þetta á morgun aftur! 🙂

Í dag fór ég með tvö yngstu börnin á frábært leikrit sem ég verð að mæla með við ykkur. Við fórum á Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu. Ég bjóst svo sem ekki við miklu af tveimur 15 ára strákum en maður minn hvað þeir voru fyndnir og skemmtilegir – við skellihlógum allan tímann! Við krakkarnir mælum sannarlega með þessu leikriti fyrir alla foreldra og krakka frá  ca. 8-10 ára og upp úr.

En að uppskrift dagsins. Við vorum hjá foreldrum mínum á gamlárskvöld og snæddum þar kalkún. Ég hins vegar sá um forréttinn og eftirréttinn. Í forrétt var ég með andabringur með karamelliseruðum perum og klettasalati.IMG_2742 Ég hef satt best að segja afar sjaldan eldað andabringur og ég vildi alls ekki klúðra gamlárskvöldsmatnum. Ég fór því í umfangsmikla upplýsingaleit um eldun á andabringum. Þetta er það sem ég komst að.

Að elda andabringur:

1. Bringurnar þurfa að standa við stofuhita í minnst tvo tíma áður en þær eru eldaðar svo kjötið hafi náð stofuhita.

2. Það þarf að rista í fitulagið á bringunum til að það losni um fituna við steikingu. Það er annaðhvort bara hægt að rista í fitulagið skáhalt eða þannig að það myndist tíglar. Það þarf að gæta þess að skera ekki ofan í kjötið.

3: Bringurnar eru því næst kryddaðar vel með flögusalti, því nuddað vel ofan í skurðsárin. Ég skoðaði ótal myndbönd á netinu og þar sem stjörnum prýddir kokkar elduðu andabringur. Sumir þeirra vildu ekki nota pipar því þeir sögðu hann brenna á pönnunni á meðan aðrir bæði söltuðu og pipruðu.

4. Því næst eru andabringurnar steiktar. Flestir kokkar mæla með því að byrja með pönnuna kalda til þess að það losni sem best um fituna. Það þarf alls ekki að nota olíu eða smjör því það kemur svo mikil fita úr fitulaginu á öndinni. Bringurnar eru því settar á kalda pönnu og stillt á rúmlegan meðalhita. Bringurnar eru steiktar með fitulagið niður í um það bil 8-10 mínútur eða þar til fitan er bráðnuð úr fitulaginu og eftir er stökk pura.

IMG_2707Tíminn sem gefin er upp fyrir steikinguna á fitulaginu er afar misjafn og hér þarf dálítið að meta tímann sjálfur. Flestir mæla með því að hella reglulega af fitunni sem myndast á pönnunni. Ég gerði það því mér fannst lógískt að þannig yrði fitulagið stökkara. IMG_2709Samkvæmt myndböndum og leiðbeiningu sem ég skoðaði snéru sumir stjörnukokkar bringunum við á pönnunni og steiktu á þeirri hlið í mismargar mínútur á meðan aðrir slepptu því. Mér fannst passa vel að fá smá steikingarhúð á kjöthliðina og snéri því bringunum við og steikti á kjöthliðinni í ca. 1 mínútu.

5. Það er hægt að ljúka steikingunni á andabringunum á pönnunni en oftast er það gert í ofni. Það eru misjafnar leiðbeiningar varðandi hitann á ofninum, allt frá lágum hita, ca. 130-140 gráður upp í 200 gráður og þá tíminn misjafn samkvæmt því. Ég ákvað að stilla ofninn á 200 gráður undir og yfirhita og setti bringurnar inn í um það bil 8 mínútur. Annað hvort eru bringurnar settar inn á pönnunni sem þær voru steiktar á (ef pannan þolir ofn) eða settar í eldfast mót (sem þarf þá að vera orðið heitt). Það er misjafnt hvort að kokkarnir setja inn andabringurnar með fituhliðina upp eða niður. Mér fannst flestir setja bringurnar inn með fituhliðina niður og gerði það því.

6. Þegar bringurnar eru teknar úr ofninum er mjög mikilvægt að leyfa þeim að hvíla áður en þær eru skornar. Þær þurfa að hvíla í allavega 8-10 mínútur og ég setti álpappír lauslega yfir þær á meðan. Því næst eru bringurnar skornar niður skáhalt og fremur þunnt. Á þessum tímapunkti á kjötið að vera vel bleikt í miðjunni, þannig nýtur það sín best.

IMG_2722

Eftir þessar umfangsmiklu leiðbeiningar lítur út fyrir að það sé afar flókið að elda andabringur en það er það alls ekki! Það eru bara svo margir sem mikla fyrir sér slíka eldun, þess vegna er gott að vera með nákvæmar leiðbeiningar innan handar. Mér fannst mjög auðvelt og fljótlegt að elda bringurnar og þær urðu lungnamjúkar og dæmalaust ljúffengar eftir ofangreinda meðferð. Ég notaði þær í forrétt og þá er gott að miða við 70-100 grömm á mann.

112-2825-1

 

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með Arthur Metz Riesling hvítvíninu frá Alsace í Frakklandi með þessum forrétti. Það er fölgult með mildum meðalsætum tónum og keim af sítrónum og greip.

 

Uppskrift f. 4:

 • 400 g andabringa (sjá leiðbeiningar um eldun hér að ofan)
 • 3 perur
 • ólífuolía og smjör til steikingar
 • 1 1/2 msk + 2 tsk hunang
 • 1 poki klettasalat (75 g)
 • 60 ml balsamik edik
 • 60 ml hvítvín

2 perur eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar i bita. Þriðja peran er kjarnhreinsuð og skorin í bita með hýðinu á og blandað saman við klettasalatið. Hinar perurnar tvær eru steiktar á pönnu í ólífuolíu, góðri klípu af smjöri bætt við. Þegar perurnar hafa myndað smá steikingarhúð er 1 1/2 msk hunangi bætt við og perurnar steiktar áfram þar til þær byrja að brúnast. Perubitarnir eru því næst settir í skál.

IMG_2703

Þá er hvítvíni bætt út á pönnuna ásamt balsamik ediki og 2 tsk af hunangi. Þetta er látið sjóða niður um helming (tekur ca 15-20 mínútur). Karamelliseruðu perunum er því næst blandað saman við balsamik-blönduna. IMG_2705Perurnar eru að lokum veiddar af pönnunni og blandað saman við klettasalatið og fersku perurnar. Sósan sem verður afgangs er dreift yfir salatið og/eða borin fram með saltinu.IMG_2712Salatinu er svo skipt á fjóra forrétta diska og andabringusneiðunum raðað ofan á.

IMG_2743

Pizza með hakkbotni


Pizza með nautahakksbotniÞar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni.  Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt!  Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið! Chili Explotion

Uppskrift f. ca. 4

 • 8-900 g. nautahakk
 • 2 egg
 • 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
 • væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
 • salt og pipar
 • chili explosion
 • sveppir, skornir í sneiðar
 • rauð paprika, skorin í bita
 • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
 • 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
 • parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)

Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna.IMG_3223 Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.IMG_3225 Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.

IMG_3233 Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.

IMG_3245 IMG_3251 IMG_3260

Dillonskaka


DillonskakaÍ gær varð Ósk dóttir mín tvítug. Ég trúi því varla að það séu tuttugu ár síðan hún fæddist, tíminn líður svo hratt! Í tilefni stórafmælisins vorum við með afmælismat fyrir fjölskylduna um kvöldið. Í boði var það sem Ósk finnst best, humar og sushi. Ég keypti stóran og girnilegan humar hjá Fiskikónginum, setti á hann heimatilbúið hvítlaukssmjör og bakaði í ofni í nokkrar mínútur með hvítvíns/rjómasósu, hér er uppskriftin. Við keyptum líka fyrirtaks sushi hjá Tokyo sushi. Þó svo að dóttir mín sé ekki hrifin af kökum og eftirréttum þá bakaði ég eina afmælisköku fyrir okkur hin í eftirrétt, Dillonskökuna dásamlegu.

wEELnVCIQ8mCnepKbCd%Iw Það er kannski að bera í bakkafullann lækinn að setja inn uppskrift að þessari köku því hana þekkja margir. Hins vegar er hún nauðsynleg viðbót í uppskriftasafnið mitt hér á Eldhússögum því ég vil þar geta gengið að öllum þeim uppskriftum sem mér líkar best. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef bakað þessa ljúffengu köku. Ef þið hafið ekki smakkað hana, kannski vegna þess að ykkur finnst döðlur ekki góðar þá þori ég að fullyrða að þið munið samt falla fyrir kökunni! Hún er ofboðslega mjúk og bragðgóð og karamellusósan er algjörlega æðisleg! Mér finnst þessi kaka best á meðan hún er enn heit, með mikilli karamellusósu og nýþeyttum rjóma, namm!Dillonskaka

Uppskrift:

 • 250 gr. döðlur
 • 3 dl vatn
 • 1 tsk. matarsódi
 • 100 g smjör, mjúkt
 • 130 g púðursykur
 • 2 egg
 • 150 g hveiti
 • 100 g suðusúkkulaði, saxað

Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið döðlur í pott ásamt vatni og látið suðuna koma upp, látið malla í 5 mínútur á lægsta hitanum. Þá er matarsóda stráð yfir döðlurnar. Því næst eru döðlurnar maukaðar í matvinnsluvél eða með töfrasprota.IMG_3010 Smjör og sykur þeytt vel saman í hrærivél og eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er döðlumauki bætt út í ásamt hveiti og súkkulaði, blandað vel. Deigið sett í smurt hringform (ca. 24 cm) og bakað í um það bil 30 mínútur.

Karamellusósa:

 • 120 g  smjör
 • 100 g púðursykur
 • 1/2 tsk. vanillusykur
 • 3/4 dl. rjómi

Blandið öllu saman og látið sjóða í 5 mín. Kakan borin fram heit eða volg með heitri karamellsósunni og þeyttum rjóma.

Karamellusósa Dillonskaka

Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

 •  5 dl rjómi
 • 1 msk hunang
 • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
 • 1 vanillustöng
 • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
 • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

 • 5 dl rjómi
 • 1 dl sykur
 • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
 • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

 • 5 dl rjómi
 • 1/2 dl sykur
 • 150 g Toblerone
 • 3 matarlímsblöð
 • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806